R
Hefur þegið um 15 milljónir króna vegna „eftirlaunafrumvarpsins“. |
íkisstjórnin heldur áfram að einbeita sér að málum sem koma efnahagsástandinu í raun lítt við. Málin hafa hins vegar ýmsan annan tilgang, hvort sem hann er uppgjör persónulegra reikninga, áróðursmál fyrir komandi kosningabarátta eða einfaldlega að beina athygli fjölmiðlamanna frá því að í efnahagsmálum hefur ríkisstjórnin engin úrræði eða tillögur sem ekki lágu fyrir, þegar við stjórnarskipti og höfðu þá sum hver beðið lengi eftir samþykki í þingflokki Samfylkingarinnar.
Eitt málið, sem ekki kemur efnahagsástandinu við, er frumvarp um eftirlaun. Er því ætlað að fella úr gildi, sumar þær breytingar sem gerðar voru með svokölluðu „eftirlaunafrumvarpi“ árið 2003. En ekki allar. Og af því að fréttamenn hafa undanfarin ár einungis fjallað um sumar breytingarnar sem gerðar voru með því frumvarpi, þá er rétt að Vefþjóðviljinn hjálpi þar til.
„Eftirlaunafrumvarpið“ breytti ekki aðeins reglum um eftirlaun. Í 23 gr. frumvarpsins var meðal annars svohljóðandi ákvæði:
„Þeir alþingismenn, sem eru formenn stjórnmálaflokka, sem hlotið hafa a.m.k. þrjá þingmenn kjörna, og eru ekki jafnframt ráðherrar, fá greitt 50% álag á þingfararkaup.“
Með „eftirlaunafrumvarpinu“ fengu formenn stjórnarandstöðuflokkanna, sem þá voru Steingrímur J. Sigfússon, Össur Skarphéðinsson og Guðjón A. Kristjánsson, þannig 50 % launahækkun á mánuði. Ekki hefur heyrst mikið um að það sé sérstakur „ósómi“, eins og álitsgjafar og varaþingmenn hafa sagt um „eftirlaunafrumvarpið“ að öðru leyti. Og með því frumvarpi sem nú hefur verið lagt fram, er ekki hróflað við þessu ákvæði. Og aldrei skulu fréttamenn eða álitsgjafar fjalla um þetta ákvæði í endalausum upprifjunum sínum og útreikningum á eftirlaunum. En svo fréttamönnum og álitsgjöfum sé hjálpað um útreikninga á áhrifum „eftirlaunafrumvarpsins“, hins svonefnda „ósóma“, þá er hann svona:
„Eftirlaunafrumvarpið“ tók gildi 30. desember 2003. Frá þeim tíma hafa verið 61 mánaðamót. Allan þann tíma var Steingrímur J. Sigfússon formaður vinstrigrænna. Hann hefur því 61 sinni fengið þingfararkaup með 50% álagi vegna „eftirlaunafrumvarpsins“. Sumir hafa hins vegar aldrei þegið þau eftirlaun sem þeim hafa boðist. Davíð Oddsson hefur til dæmis aldrei gert það, en hann hefur frá október 2005 átt rétt á eftirlaunum. Síðan hann öðlaðist þann rétt eru liðin 40 mánaðamót.
Eftir þá launalækkun sem ákveðin var um áramót er þingfararkaup 520.000 krónur á mánuði. Laun forsætisráðherra eru eftir lækkunina 935.000 krónur. Sá sem fær 50% álag á þingfararkaup í 60 mánuði fær þannig 15.600.000 krónur í sinn hlut. Eftirlaunaréttur Davíðs Oddssonar, sem hann afþakkar um hver mánaðamót, er nú, eftir lækkun um síðustu áramót, 748.000 krónur.
Og hver er það nú sem fjölmiðlamenn og álitsgjafar hafa á heilanum vegna „eftirlaunafrumvarpsins“?
Og hver er það sem fjölmiðlamenn og álitsgjafar hafa aldrei rætt um í tengslum við ábata af „eftirlaunafrumvarpinu“?
Steingrímur J. Sigfússon hefur nú lagt fram frumvarp um afnám eftirlaunalaga. Svo skemmtilega vill til, að frumvarp hans myndi afnema öll ákvæði „eftirlaunafrumvarpsins“, nema 23. gr. þess. Æ hvað var aftur í henni?
Og heildarfjöldi fréttamanna sem hefur rætt samhengi hlutanna og það hverjir hafa í raun hagnast á „eftirlaunafrumvarpinu“, er hann ekki sami og heildarfjöldi kjósenda Gylfa Magnússonar? Kannski er þetta sami hópurinn.