Fimmtudagur 1. janúar 2009

1. tbl. 13. árg.

Þ að eru æði ólík skilaboðin sem leiðtogar ríkisstjórnarflokkanna senda á síðum Morgunblaðsins nú um áramót. Geir H. Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins bendir á að þrátt fyrir mikil áföll að undanförnu sé mögulegt að Íslendingar hrökklist ekki nema tvö til þrjú ár aftur á bak í lífskjörum. Það á auðvitað eftir að koma í ljós, óvissuþættirnir eru enn svo margir. Um ástæður þess að bankarnir hrundu segir Geir:

Á undanförnum vikum höfum við öll spurt hvernig það gat gerst að hinir stóru og stöndugu íslensku bankar hrundu svo að segja til grunna á örfáum vikum. Við þeirri spurningu er að sjálfsögðu ekki til einfalt svar. Með nokkurri einföldun má þó segja að íslensku bankarnir hafi ekki verið nægilega sterkir til að standa á eigin fótum þegar undan fjaraði á alþjóðlegum lánamörkuðum en þeir voru samt of stórir til að ríkissjóður eða Seðlabankinn gætu varið þá falli. Stærð íslenska bankakerfisins í samanburði við þjóðarframleiðslu átti sér ekki hliðstæðu. Í venjulegu árferði hefði stærð íslensku bankanna verið styrkur þeirra og þeir hefðu staðið af sér allar hefðbundnar þrengingar en þegar heimskreppan skall á af fullum þunga varð stærð bankanna þeim að falli.

Er þetta ekki kjarni málsins þegar litið er yfir sviðið eða öllu heldur yfir sviðna jörð alþjóðlegra fjármálamarkaða? Fjármálastarfsemi hefur verið of samofin  ríkisvaldinu til að það gengi upp að mjög stór fjármálafyrirtæki störfuðu í mjög litlum ríkjum. Íslenskir skattgreiðendur voru einfaldlega ekki nógu margir til að bjarga fjármálafyrirtækjunum sem hér höfðu byrjað að skjóta rótum með stofnun Kaupþings fyrir rúmum aldarfjórðungi og blómstruðu eftir einkavæðingu ríkisbankanna.

Margir virðast nú líta því á það sem næsta verkefni að tryggja íslenskum fjármálafyrirtækjum aukna möguleika á fyrirgreiðslu ríkisvaldsins í framtíðinni svo þau þurfi aldrei framar að fara í þrot. En er það eðlilegt viðhorf? Væri ekki skynsamlegra að skera á tengsl ríkisvaldsins og fjármálastarfseminnar? Fáar ef nokkrar atvinnugreinar hafa búið við jafnmikil ríkisafskipti, ríkisábyrgðir, eftirlit og regluverk og fjármálastarfsemi. Menn sjá nú uppskeruna. Er ekki fullreynt með þessa „þriðju leið“ á fjármálamörkuðum?

Kannski er skýrasta dæmið um á hve miklum villigötum menn eru í umræðu um þessi mál að sama fólkið og skammast mest í seðlabönkum og fjármálaeftirliti Vesturlanda fyrir að hafa gert mistök og brugðist hlutverki sínu segir um leið að frjálshyggjan – að ógleymdri nýfrjálshyggjunni – hafi hrunið. Ríkisstofnanir brugðust, frjálshyggjan er dauð! Dæmi um þetta er að finna í áramótagrein Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur formanns Samfylkingarinnar.

Ein dýpsta heimskreppa hagsögunnar skall á í september 2008 þegar burðarvirki hins reglulausa hnattræna fjármagnsmarkaðar leystist upp fyrir augliti allrar heimsbyggðarinnar. Markaðurinn „leiðrétti“ sig ekki sjálfur eins markaðslögmálið hafði kennt heldur flanaði stjórnlaust að feigðarósi með vanmati áhættu og ofmati eigna. Á þremur mánuðum hafa iðnvædd ríki neyðst til að leggja stórfé úr sameiginlegum sjóðum til björgunaraðgerða. Rótgrónir bankar riða til falls í hverju landinu á fætur öðru, Bandaríkjunum, Bretlandi, Belgíu, Hollandi, Sviss, Lúxemborg, Eystrasaltsríkjum og víðar og það er viðurkennt að bankakerfi Írlands væri hrunið hefði landið ekki evruna og bakstuðning Seðlabanka Evrópu. Áhættusækin og innistæðulaus peningahyggja hefur leitt ómældan skaða yfir samfélögin. Hin óhefta frjálshyggja hefur runnið sitt skeið. Hennar bíður ekkert annað en harður dómur heimssögunnar.

Að stjórnmálamaður skuli halda því fram að fjármálamarkaðir séu reglulausir er stórbrotið þegar staðreyndin er að um fjármálastarfsemi gilda svo gríðarlegir reglubálkar að vandi er að hafa sýn yfir öll þau ósköp líkt og kom á daginn þegar reyndi á innlánstryggingar samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins. Það er hins vegar rétt hjá utanríkisráðherra að burðarvirki fjármálamarkaðanna reyndust ótraust en burðarvirkin eru peningastefna ríkisseðlabankanna. Vaxtastefna stærstu seðlabanka heimsins hefur beðið skipbrot. Útlánaþenslan var búin til í þessum ríkisstofnunum og hún leiddi til vanmats á áhættu og ofmati eigna um allan heim. Ódýra fjármagnið sem flæddi um fjármálamarkaði átti upptök sín í slakri peningamálastjórn stærstu seðlabanka heimsins og kröfum stjórnmálamanna um að lána öllum fyrir húsnæði óháð greiðslugetu.

Markaðurinn hefur reynt að leiðrétta þessi mistök en eins og Ingibjörg Sólrún rekur í grein sinni gera stjórnmálamenn sitt besta til að leiðréttingin eigi sér ekki stað heldur er útvöldum bönkum og öðrum fyrirtækjum bjargað með fé skattgreiðenda. Eru líkur á því að áhættusækni manna í fjármálastarfsemi minnki þegar kostnaðinum er velt yfir á skattgreiðendur með þessum hætti?

Ingibjörg Sólrún bendir hróðug á að bankakerfi Írlands hefði hrunið án bakstuðnings evrunnar og Seðlabanka Evrópu. En er það ekki undarlegt að írsku bankarnir skyldu lenda í vandræðum yfirhöfuð með svo fínan bakstuðning frá evrunni og regluverk Evrópusambandsins yfir sér? Og hver hefði stuðningur Seðlabanka Evrópu orðið ef ríkisstjórn Írlands hefði ekki verið sjálf með hreint ótrúlegan ríkisstuðning við stærstu banka landsins á prjónunum? Hinn svonefndi „bakstuðningur“ Seðlabanka Evrópu fellur ekki af himnum ofan. Á Ingibjörg Sólrún við að hún hefði kosið að íslensku bankarnir hefðu fengið meiri ríkisstuðning – til dæmis frá Seðlabanka Evrópu – og getað haldið hinni „áhættusæknu og innistæðulausu peningahyggju“ áfram?