Miðvikudagur 31. desember 2008

366. tbl. 12. árg.

Á R A M Ó T A Ú T G Á F A

E ins og raunar hefur gerst áður, hefur Vefþjóðviljinn tekið saman þau nokkur atriði líðandi árs sem óþarft er að hverfi með því inn í aldanna skaut.

Upphefð ársins: Guðjón Friðriksson starfaði á árinu sem ósjálfráð skrift Ólafs Ragnars Grímssonar.

Bankabók ársins: Í ljós kom að viðskiptabankarnir höfðu fjármagnað ritun forsetabókar Ólafs Ragnars. Þá átti bókin að heita Útrásarforsetinn. Frá því var því miður fallið á lokasprettinum.

Eftirlitsstofnun ársins: Að sögn álitsgjafa brást Seðlabanki Íslands algerlega því eftirlitshlutverki sem fyrir áratug var tekið frá honum og fært til Fjármálaeftirlitsins.

Rökstyðjari ársins: Ragnheiður Ríkarðsdóttir lýsti því yfir að hún vildi ganga í Evrópusambandið. Jafnframt vildi hún að „farið verði í aðildarviðræður við Evrópusambandið, að kannaðir verði kostir og gallar þess sambands fyrir íslenska þjóð“.

Mannekla ársins: Eiríkur Bergmann Einarsson reyndist ekki enn genginn í Sjálfstæðisflokkinn svo Valhallarmenn lögðu ekki í að fá hann til að stýra Evrópunefndum flokksins.

Gestur ársins: Íslenskir kratar fögnuðu þegar von var á Göran Persson, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar og leiðtoga sænskra jafnaðarmanna, til landsins til fyrirlestrahalds. Sögðu þeir margt af honum mega læra. Persson upplýsti félaga sína um að mikill lýðræðishalli væri á Evrópusambandinu, Íslendingar gætu haldið áfram að nota krónu og að afar hæfur maður stýrði íslenska seðlabankanum.

Baráttumál ársins: Grímubúnir menn reyndu að hindra ríkisstjórn landsins í að halda fund. „Mótmælendurnir berjast fyrir réttlátara samfélagi og gegn áframhaldandi valdníðslu ráðamanna” sagði Margrét Marteinsdóttir fréttamaður Ríkissjónvarpsins.

Meðvirkni ársins: Björgvin G. Sigurðsson sagði það sjálfsagt og eðlilegt þegar grímubúnir öskrandi menn reyndu að hindra hann í að komast á ríkisstjórnarfund.

Vanþakklæti ársins: Lögreglan leyfði Annþóri Kristjáni Karlssyni að gista hjá sér og gerði allt fyrir hann, færði honum vatn, brauð og kaðal upp á herbergi. Hann þakkaði ekki einu sinni fyrir sig, áður en hann fór.

Misnotkun ársins: Steingrímur J. Sigfússon sagði það „misnotkun á lýðræðinu“ ef rétt kjörið alþingi leysti sig ekki upp á miðju kjörtímabili.

Ábyrgðarmaður ársins: Hörður Torfason segist enga ábyrgð bera á því hvað menn á og í framhaldi af þeim fundum sem hann boðar til og stjórnar. Hann telur jafnframt að þeir sem seldu ríkisbankana beri ábyrgð á því sem síðari kaupendur bankanna gerðu við þær eigur sínar.

Æsingur ársins: Mánuðum saman hæddust menn að lögreglumanninum sem kallaði til fólks að næst kæmi gas. Þetta þótti álitsgjöfum sýna hvers kyns brjálæðingar störfuðu í lögreglunni. Sumir vildu afsögn dómsmálaráðherra.

Viðvörunarleysi ársins: Menn sem réðust á lögreglustöðina og mæður þeirra mættu bálreið í fréttatíma og kvörtuðu yfir því að hafa ekki verið varaðir við áður en sprautað var gasi á þá, eftir að þeir ruddust inn.

Sökudólgar ársins: Hópur manna, með hnefasteytandi þingmann vinstrigrænna á kantinum, braust inn á lögreglustöð til að frelsa handtekinn mann. Fréttamenn sáu það eitt áhugavert hvort staðið hafi verið rétt að öllum formsatriðum við handtöku mannsins.

Tillitssemi ársins: Það er brotist inn á lögreglustöð. Það er ráðist á lögreglumenn sem verja alþingi og þeir barðir og bitnir. Fréttamenn hafa enn sem komið er hlíft formanni BSRB við spurningunni um það hvort hann fordæmi ekki undanbragðalaust þessar árásir á félagsmenn sína.

Útgefendur ársins: Ráðherrar Samfylkingarinnar töluðu allt árið niður þá krónu sem þeirra eigin ríkisstjórn gefur út.

Flokksformaður ársins: Össur Skarphéðinsson taldi að ekki gæti verið að seðlabankinn hefði haldið fundi um efnahagsástandið með formönnum stjórnarflokkanna. Því hann hefði ekki setið slíka fundi.

Sprettur ársins: Gunnlaugur Júlíusson hljóp til tunglsins, fékk sér þar ostbita og hljóp heim.

Jafningjar ársins: Þegar keppendur í Reykjavíkurmaraþoninu biðu spenntir við ráslínuna kom Gunnlaugur á spretti fram hjá þeim. Hann var að klára aukahringinn sem hann tók um morguninn og byrjaði strax á nýjum.

Tvímenni ársins: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir bauðst til að stýra Sjálfstæðisflokknum, samhliða öðrum störfum sínum.

Græningi ársins: Barack Obama tilkynnti að sitt fyrsta verk á valdastóli yrði stórfelldur stuðningur við stærstu framleiðendur eyðslufrekustu fólksbíla í heimi.

Landkynning ársins: Á sama tíma og atvinnulífið og stjórnvöld reyndu að verja erlenda fjárfestingu í landinu og ferðamannastraum, gerði hópur manna, með spennta fréttamenn í tryggu eftirdragi, sitt besta til að gefa þá mynd að hér logaði allt í óeirðum.

Frjálshyggja ársins: Þrír einkabankar fóru í þrot. Breskir og íslenskir kratar linntu ekki látum fyrr en íslenskir skattgreiðendur voru látnir taka á sig byrðar vegna þess. Þetta telja sumir merki um að frjálshyggjan hafi brugðist.

Fjöldafundur ársins: Tveggja manna fundur stjórnar fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Akranesi sendi frá sér ályktun sem komst í fréttir.

Vettvangsmaður ársins: Hús brann í Þingholtunum og grunur var um íkveikju. Fjölmiðlar fóru á staðinn og ræddu við nágranna á vettvangi, Kára Sölmundarson. Hann laumaðist svo burt í reyknum.

Leiðrétting ársins: Daginn eftir bandarísku forsetakosningarnar var tilkynnt að ásakanir á hendur Söruh Palin um spillingu í Alaska hefðu ekki reynst á rökum reistar.

Kynþáttahatarar ársins: Vestrænir fréttamenn supu hveljur yfir könnunum sem sýndu að rúmlega helmingur hvítra karla í Bandaríkjunum hygðist ekki kjósa Barack Obama. Þeir höfðu ekki áhyggjur af því að 95 % svartra hugðust ekki kjósa John McCain.

Kosningakvöldsfrétt ársins: Vísir.is greindi frá því um bandarísku kosninganóttina að Egill Helgason álitsgjafi væri farinn að sofa.

Nafngift ársins: Séð var til þess að fjölmiðlar 365 héldust í sömu eigu. Eigandinn þakkaði fyrir sig með því að stofna félagið Rauðsól utan um fjölmiðlana.

Kjarkur ársins: „Kjarkur, þor og góð þekking íslensku útrásarmannanna skilaði meiri árangri hraðar við fjárfestingar erlendis en hægt var að sjá fyrir og víkingurinn hefur vakið athygli á alþjóðavísu“ skrifaði Björgvin G. Sigurðsson í september.

Prinsippafstaða ársins: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagðist vera „þeirrar skoðunar að fyrrverandi pólitíkusar eigi ekki að vera í forystu fyrir seðlabanka. Þetta er prinsippafstaða hjá okkur og hefur komið fram oftar en einu sinni og oftar en tvisvar.“ Sjálf sat hún í bankaráði seðlabankans, þar sem nú situr fyrir Samfylkinguna sem varaformaður Jón Sigurðsson, fyrrverandi alþingismaður, ráðherra og… seðlabankastjóri.

Þjálfun ársins: Skagamenn breyttu um taktík og í stað gamaldags æfinga voru leikmenn í linnulausum ísböðum. Liðið varð að vísu neðst og gat ekki neitt, en var í alveg svakalegu formi.

Skrekkur ársins: Íslendingar sluppu með skrekkinn. Í maí greindi Ólafur Ísleifsson frá því að það versta væri afstaðið.

Dómnefnd ársins: Sérstök dómnefnd úrvalsmanna, þar sem í voru svo merkir menn sem Ólafur Ísleifsson, Ágúst Einarsson, Halla Tómasdóttir, Edda Rós Karlsdóttur, Jón Þór Sturluson, Vilhjálmur Egilsson og Þórður Friðjónsson valdi þrjú bestu viðskipti síðasta árs. Reyndust það vera sala Novators á búlgarska símanum, ICESAVE-reikningar Landsbankans og hlutafjáraukning Baugs Group í FL Group. Viðskiptamann ársins valdi nefndin Jón Ásgeir Jóhannesson, athafnamann.

Barátta ársins: Í október börðust Samtök atvinnulífsins fyrir tvennu: vaxtalækkun og samkomulagi við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn. Samkomulagið var gert og fyrsta krafa sjóðsins var veruleg hækkun stýrivaxta. Önnur krafan var gjaldeyrishöft.

Hugmyndaleysi ársins: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði í Kastljósi 24. október að hún hefði bara ekki haft hugmynd um að gríðarmiklar fúlgur hefðu safnast á erlenda innlánsreikninga bankanna. Enginn fjölmiðill gerði neitt með þessa yfirlýsingu.

Miðgarðsormur ársins: Eftir áratuga undirbúning settu vísindamenn í gang mikinn niðurgrafinn hraðal sem átti á nokkrum mánuðum að útskýra fyrir þeim tilurð heimsins. Á sjöunda degi staðnæmdist hraðallinn og hvíldi sig.

Starf ársins: Enginn sótti um starf saksóknara vegna bankahrunsins. Það er merkilegt. Eins og ákæruvald í efnahagsbrotamálum hefur verið þakklátt starf undanfarin ár.

Ályktun ársins: Borgarstjórn Reykjavíkur sendi frá sér samhljóða – auðvitað – ályktun um að vinna bæri gegn klámvæðingu.

Borgarstjóri ársins: Jakob F. Magnússon miðborgarstjóri.

Grein ársins: Svafa Grönfeldt doktor skrifaði snjalla grein undir fyrirsögninni „Upphafspunkturinn skilyrðir vídd tækifæranna“.

Ávarp ársins: Forsætisráðherra hélt ávarp til þjóðarinnar og sagði að íslenska ríkið gæti ekki tekið á sig erlendar skuldir bankanna. Ef það gerði það, gæti landið sjálft sogast niður með þeim. Þetta skildu allir, auðvitað gæti ríkið ekki greitt erlendar skuldir bankanna.

Fréttatilkynning ársins: Ríkisstjórnin sendi frá sér fréttatilkynningu á íslensku og ensku þar sem sagði „að innstæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi verða tryggðar að fullu.“ Þetta skildu allir, innlendar innistæður yrðu tryggðar, en ekki erlendar.

Viðtal ársins: Seðlabankastjóri var spurður í kastljósviðtali eftir þessar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar. Hann sagði að íslenska ríkið myndi standa við allar sínar skuldbindingar en gæti ekki tekið á sig erlendar skuldir bankanna. Þetta töldu íslenskir álitsgjafar svakalegt.

Samstarfsmaður ársins: Borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins kom gersamlega í opna skjöldu að Ólafur F. Magnússon reyndist erfiður í samstarfi.

Lýðræði ársins: Tilkynnt var að Írar yrðu að kjósa aftur um stjórnarskrá Evrópusambandsins. Þeir kusu vitlaust síðast.

Lýðræðissinni ársins: Kristján Möller boðaði frumvarp er þvingaði íbúa fámennra sveitarfélaga til sameiningar. Þeir hafa yfirleitt kosið vitlaust í sameiningarkosningum.

Björn ársins: Björn Bjarnason, Bjössi.

Áhugamál ársins: Þegar bankarnir fóru í þrot og ráðherrar héldu blaðamannafund, bað blaðakona Morgunblaðsins strax um orðið. Hún spurði hvort ekki yrði gætt jafnréttissjónarmiða við skipun nýrra bankaráða.

Ályktarar ársins: Utanríkisráðherrar Norðurlanda sendu frá sér harðorða ályktun um ástandið í Zimbabve og sögðu „ljóst að kosningaferlið brjóti í bága við allar reglur sem gilda um frjálsar og réttlátar kosningar“. Kröfðust ráðherrarnir þess, að þegar yrðu lögð „drög að lögmætri, lýðræðislegri og umbótasinnaðri stjórn“ í landinu. Að því búnu flaug utanríkisráðherra Íslands til Sýrlands, til fundar með lögmætri, lýðræðissinnaðri og umbótasinnaðri stjórn landsins.

Stjórnsýslunefnd ársins: Félagsmálaráðherra skipaði í úrskurðarnefnd frístundahúsamála. Þær verða alltaf brýnni, nefndirnar.

Grúpppía ársins: Útrásarforsetinn.

Harmur ársins: Í útvarpsviðtali hinn 2. september harmaði Jóhanna Sigurðardóttir hve lítið viðskiptabankarnir lánuðu til fasteignakaupa. Aukin skuldsetning var nefnilega einmitt það sem fólk þurfti á að halda.

Íslandsvinir ársins: Íslenskir álitsgjafar eru óþreytandi í leit að íslenskum sökudólgum varðandi aðgerðir breskra stjórnvalda gegn íslensku bönkunum. Þær bara verða að vera einhverjum Íslendingum að kenna. Það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að komast oft í íslenska fjölmiðla með kröfur um afsögn og frystingu eigna Browns og Darlings.

Klækjarefir ársins: Samfylkingin í Grindavík sleit skyndilega meirihlutasamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og myndaði nýjan meirihluta. Eina sjáanlega breytingin var að oddviti Samfylkingarinnar varð bæjarstjóri. Forysta Samfylkingarinnar mun innan skamms gagnrýna þessi leiðinlegu klækjastjórnmál.

Nýmæli ársins: Hjónin Bryndís Schram og Jón Baldvin Hannibalsson skiptu um gír í árslok. Hún gaf út ævisögu þar sem hún loksins opnaði sig en hann sagðist tilbúinn í framboð til alþingis ef einhver vildi. Stöð 2 sló því upp.

Hótelgestur ársins: Samgöngunefnd alþingis hélt fund á hóteli í Reykjavík. Árni Þór Sigurðsson, Reykvíkingur, gisti á hótelinu á kostnað nefndarinnar. Hélt svo áfram baráttu sinni gegn bruðli og spillingu.

Fréttastjórn ársins: Ríkisfjölmiðlunum tókst í heilan dag að komast hjá því að setja andlátsfregn Sigurbjörns Einarssonar biskups fremst í fréttatíma. Í hádegisfréttum útvarps var hún fjórða frétt, á eftir ummælum Rússlandsforseta um Ossetíu, á eftir frétt um tilraun með nýtt flugskeyti og annarri um skoðun ASÍ á verðbólgunni, en í Ríkissjónvarpinu var hún þriðja frétt, næst á eftir frétt um fækkun blaðbera Fréttablaðsins á Akranesi.

Landslið ársins: Íslenskt handboltalandslið beitti nýrri aðferð á ólympíuleikum. Fyrir leiki komu leikmenn saman og horfðu á myndir af börnum sínum. Eftir leiki komu þeir saman og grétu. Þetta gekk upp og liðið náði silfurverðlaunum. En hvaða lið ætli hafi fengið silfurverðlaunin í karlaflokki?

Handknattleiksmaður ársins: Bjarni Fritzson kom og sá á ólympíuleikunum.

Samræmi ársins: Stórasta landið reyndist eiga litlasta þjóðhöfðingjann.

Ósanngirni ársins: Engan mann langar meira en Stefán Jón Hafstein til að verða borgarstjóri. Líklega verður hann eini borgarfulltrúinn sem ekki kemst á borgarstjóralaun á kjörtímabilinu.

Tilviljun ársins: Um leið og Framsóknarflokkurinn í borgarstjórn Reykjavíkur hætti í vinstrimeirihlutanum og tók upp samstarf við Sjálfstæðisflokkinn, lak út að rétt fyrir upphaf REI-mála í fyrra, hafi þáverandi oddvitar flokkanna farið í rándýra veiði, með stjórnarformanni Orkuveitunnar, heilbrigðisráðherra og fjármálastjóra stærsta eiganda Geysis Green Energy; en umræddur stærsti eigandi hafi verið með ána á leigu.

Kráarröltari ársins: Fólk saup hveljur þegar í ljós kom að Ólafur F. Magnússon borgarstjóri fór stöku sinnum á knæpur eins og hver annar. Nokkrum árum áður höfðu verið skrifaðar lofgreinar um þann alþýðleika Steinunnar Óskarsdóttur borgarstjóra að vera tíður gestur á Ölstofunni.

Fríkeyrsla ársins: Upplýst var að verkefnið „Frítt í strætó“ kostar 600 milljónir króna á ári.

Nefnd ársins: Í sérfræðinganefnd Evrópusambandsins um lyftur í húsum starfa nú 84 nefndarmenn. Hver öðrum sérfróðari.

Mannfræðirannsókn ársins: Þingfréttaritari Morgunblaðsins rannsakaði íranskar konur og birti niðurstöður í meistararitgerð sinni. „Það er stigs munur en ekki eðlismunur á því hvernig konur í Íran hafa það og hvernig konur á Íslandi hafa það“, sagði Halla Gunnarsdóttir í viðtali við Morgunblaðið og bætti við að það væri „mikil einföldun“ að íranskar konur hefðu það verra eftir íslömsku byltinguna: „Fyrir byltinguna sagði ríkið að konur mættu ekki vera með slæðu, eftir byltingu segir ríkið að konur eigi að vera með slæðu. Þetta er sama kúgunin.“

Björgun ársins: Þórunn Sveinbjarnardóttir bjargaði tveimur hvítabjörnum. Í síðara skiptið lét hún flytja sjálfa sig á staðinn, með umhverfisvænum hætti, til að bjóða björninn persónulega velkominn til lands og þjóðar.

Eftirlit ársins: Það eru tóm ósannindi að íslenskar eftirlitsstofnanir eltist aðallega við litlu fyrirtækin en bugti sig fyrir þeim stóru. Neytendastofa ríkisins brá til dæmis skjótt við og krafðist þess að breytt yrði orðalagi í auglýsingu Kristins R. Ólafssonar fyrir merrild-kaffi. Samkeppnisstofnun hélt á sama tíma áfram nákvæmu eftirliti með fjölda verðmiða í búðargluggum.

Bjargvættur ársins: Álitsgjafar hafa komist að því að það var Svandísi Svavarsdóttur að þakka að ekki varð af samruna Geysis Green og REI. Fyrir ári töldu þeir óbreytta borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins vera flón ársins fyrir að hafa komið í veg fyrir samrunann og kostað borgarbúa tugi milljarða í útrásargróða.

Ráðgjafi ársins: Eftir að bankarnir komust í þrot var um tíma mjög vinsælt í fjölmiðlum að ræða við Jón Daníelsson, kennara í London. Hans skoðanir þóttu mjög merkilegar. Engum datt í hug að rifja upp að í júnímánuði hélt hann fyrirlestur hér á landi og varaði þá mjög við því að gjaldeyrisvaraforði landsins yrði aukinn, sem stjórnvöld voru þá að reyna.

Grís ársins: Það er nú augljóst.

Undanbeiðni ársins: Starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur sendu frá sér ályktun þar sem þeir sögðust biðjast undan pólitískum afskiptum af Orkuveitunni. Kjörnir fulltrúar eigenda Orkuveitunnar geta átt sig.

Nauðsyn ársins: Jarðskjálftinn á Suðurlandi kom öllum að óvörum. Sýndi það betur en nokkuð annað, nauðsyn þess að hlera Ragnar dag og nótt.

Leyniskjal ársins: Afsagnarbréf Bjarna Harðarsonar. Forseti alþingis las það ekki upp á þinginu eins og alltaf er gert við rétta afsögn þingmanns. Hver hefur séð skjalið? Sagði Bjarni réttilega af sér? Ef ekki, þá er hann enn þingmaður.

Tillaga ársins: Illugi Gunnarsson og Bjarni Benediktsson sögðust vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu þó þeir sjálfir væru á móti umsókninni. Þeir væru bara svo miklir lýðræðissinnar. Samhliða þessu og með sömu rökum hefur Illugi lagt til þjóðaratkvæðagreiðslu um afnám kvótakerfisins í sjávarútvegi.

Þróun ársins: Sú var tíð að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fór á tveimur jafnfljótum milli Keflavíkur og Reykjavíkur til að mótmæla varnarliðinu í Keflavík. Á árinu sparaði hún sér gönguna og flaug með einkaþotu á NATO-fund í Rúmeníu, beint frá Reykjavík.

Einar-Hermannsson-skipaverkfræðingur ársins: Íslenska krónan.

Pókerfés ársins: Birkir Jón Jónsson.

Menningarframlag ársins: Morgunblaðið bað Sigurbjörn Einarsson biskup um að taka sér nokkurra mánaða hlé frá hugvekjuskrifum. Hann mætti taka upp þráðinn síðar.

Fundarboðendur ársins: Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins hélt velheppnaðan blaðamannafund í Valhöll. Fundurinn hófst á spurningu oddvita flokksins: „Viljið þið að ég segi eitthvað?“

Undirbúningur ársins: Vikurnar fyrir hrun bankanna unnu allir fagmenn utanríkisþjónustunnar dag og nótt við herslumuninn í framboði Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Ríkisstjórnin ákvað sérstaklega að verja hálfum milljarði af gjaldeyri í mútusjóð fyrir eyríki.

Verðlaun ársins: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir skipaði umsjónarkonu kosningabaráttunnar sendiherra að launum, þegar sigur var í höfn og sætið tryggt.

Borgarnes ársins: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ákvað skyndilega að færa sendiherra Íslands í Washington til Færeyja áður en skipunartíma hans lauk. Hvernig ætli fjölmiðlar hefðu látið ef aðrir utanríkisráðherrar hefðu gert slíkt af sömu ástæðum?

Æviferill ársins: Edmund Hillary féll frá á árinu. Hann lifði í 88 ár og 176 daga. 176 dagar eru nákvæmlega 48% af heilu ári. Það má því segja að hann hafi lifað í 88,48 ár. Áhugamenn um Everest-fjall hafa einhvers staðar séð töluna 8848.

Fjallgöngugarpur ársins: Það var ekki í virðingarskyni við andlát Hillarys sem Haraldur Örn Ólafsson fór ekki í heimsgöngu á árinu. Nei, bara til að Ingþór kæmist ekki í áramótaannálinn.

Klukka ársins: Einar Bárðarson erindreki.

Gerræði ársins: Ólafur F. Magnússon leyfði sér að skipta um sinn eigin fulltrúa í skipulagsráði. Það kallaði á stríðsglæpayfirheyrslur í fjölmiðlum.

Deilendur ársins: Karlahópur femínistafélagsins fordæmdi sumarlag baggalúts. Það er skelfilega erfitt að gera upp á milli baggalúts og femínistafélagsins, en þó býst Vefþjóðviljinn að það takist með tímanum.

Mælingamenn ársins: Vísindamenn töldu sig þurfa að jafna almanakið við sólarganginn og lengdu yfirstandandi ár um sekúndu. Af öllum árum, þurftu þeir endilega að lengja þetta.

Fjölmiðill ársins óskar lesendum sínum velgengni og góðvildar á komandi ári.