We are freezing the assets of Icelandic companies in the U.K. where we can. |
– Gordon Brown forsætisráðherra Bretlands á ögurstund í hagsögu Íslands. |
F inancial Times fullyrðir í gær að Alistair Darling fjármálaráðherra Bretlands hafi engar áhyggjur af mögulegri lögsókn íslenskra aðila á hendur breskum stjórnvöldum vegna aðgerða þeirra gegn Kaupþingi Singer & Friedlander og Landsbankanum i byrjun október. Raunar voru það ekki aðeins aðgerðir bresku kratanna sem ýttu íslensku efnahagslífi fram af bjargbrúninni heldur einnig óábyrgt tal Darlings og Browns um Ísland og íslensk fyrirtæki í heild sinni. Hinn fyrrnefndi sagði íslensk stjórnvöld ekki ætla að standa við skuldbindingar sínar eins ótrúlegt og það kynni að hljóma. Hinn síðarnefndi talaði með mjög almennum hætti um að frysta ætti allar eignir íslenskra fyrirtækja í Bretlandi, hvar sem færi gæfist.
Finanacial Times segir Darling engar áhyggjur hafa af þessu því bresk stjórnvöld hafi verið að vernda breska innistæðueigendur með aðgerðum sínum.
Íslensk stjórnvöld höfðu engu að síður uppfyllt ákvæði EES samningsins um tryggingakerfi innistæðna, kynnt það fyrir ESB eins og tilskipunin sambandsins gerir ráð fyrir og ekki fengið athugasemdir.
Í mars sýndi Channel4 í Bretlandi þátt undir yfirskriftinni „How safe are your savings?“ þar sem sérstaklega var fjallað um íslensku bankana. Þar hvatti fulltrúi breska fjármálaeftirlitsins sparifjáreigendur til að kynna sér innistæðutryggingar þeirra erlendu banka sem buðu Bretum netreikninga. Til hvers var fulltrúinn að því ef allt var ríkistryggt? Sjónvarpsmennirnir fóru því til Íslands að kanna málið. Einn af bankastjórum Seðlabanka Íslands sagði þeim að íslenska ríkið gæti bætt þessar innistæður kysi það að gera svo. Fyrirvarinn var augljós og nefndur sérstaklega. Gerði breska fjármálaeftirlitið nokkru sinni athugasemd við þessa túlkun seðlabankastjórans á tryggingakerfinu? Eins og menn telja nú áhrif orða íslenskra seðlabankastjóra á bresk stjórnvöld gríðarleg. En kannski horfa bresk stjórnvöld bara á Kastljósið en ekki Channel4.
Leiðtogafundur Evrópusambandsins ákvað hins vegar að breyta reglum um tryggingakerfi innistæðueigenda eftir að í ljós kom að kerfið gat ekki staðið undir allsherjarhruni eins og átti sér stað á Íslandi. Allt í einu var ábyrgð á kerfinu varpað á skattgreiðendur landanna á Evrópska efnahagssvæðinu sem gerir kerfið þá í raun óþarft. Það er ekki sjálfstætt tryggingakerfi lengur heldur ríkisábyrgð. Leiðtogafundurinn skoraði svo á íslensk stjórnvöld að standa við skuldbindingar sem þeim bar engin skylda til. ESB fórnaði réttarríkinu vegna óttans við að sparifjáreigendur um alla álfuna misstu trú á bankakerfið. ESB slátraði Íslandi í von um að lægja öldurnar á fjármálamörkuðum sambandsins. ESB brá að því loknu fæti fyrir lánveitingar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins til Íslands til að þrýsta á um endanlega uppgjöf Íslands í málinu.
M argt af því fólki sem lagði fé inn á Icesave og aðra netreikninga íslenskra banka hefur komið fram opinberlega og barmað sér. Þetta fólk lét erlendan banka, sem það þekkir lítt eða ekkert, fá peningana sína í gegnum netið til að ná sér í 0,3% ávöxtun umfram það sem það fengi í banka sem það þekkir. Það væri galið ef áhættufíklar af þessu tagi ættu einhverja kröfu á skattgreiðendur sem höfðu nákvæmlega ekkert um málið að segja. Þeir forsvarsmenn breskra líknarfélaga sem koma fram opinberlega og heimta ábyrgð íslenskra eða breskra skattgreiðenda á eigin bíræfni ættu að skammast sín. Almennt þarf að fara að kenna fólki að það getur tapað peningum sem það leggur í banka. Er til betri stund til þess en eftir að það hefur nýlega prófað?
Að því búnu þarf að gera bankamönnum það ljóst að skattgreiðendur hafa engar sérstakar skyldur við banka og taka af þeim þrautavarahengirúmin í seðlabönkum. Til dæmis með því að leggja seðlabanka ríkisins niður.