Þ eir sem reiðastir eru vegna hruns bankanna og eftirmála þess, kalla mjög á hreinsanir. Virðist allur gangur á því hvort hreinsanirnar eigi að fara eftir því hvort menn hafi raunverulega brotið af sér eða sýnt af sér afglöp. Sumir álitsgjafar heimta að „öllum verði skipt út“. Nú eigi nefnilega að „byggja nýtt Ísland“.
Ætli þessi krafa um útskipti „allra“, eigi við um alla? Sumum þykir til dæmis að fjölmiðlar hafi aldeilis brugðist. Þeir hafi ekki spurt réttra spurninga, ekki skoðað mál af sjálfsdáðum, hafi sumir tekið fagurgala gagnrýnislaust en á sama tíma kynnt undir samsæriskenningar gegn þeim sem ekki hafi verið taldir skilyrðislaust á bandi „útrásarvíkinganna“, ekki sýnt fjármálamönnum aðhald og svo framvegis og svo framvegis. Álitsgjafar eru sagðir aðallega hafa einblínt á aukaatriði en látið stóru atriðin afskiptalaus, áhrifamiklir fjölmiðlamenn hafi vitandi eða óafvitandi dansað eftir einhverjum pípum sem nú hafi komið í ljós að hafi reynst falskar. Þetta segja meira að segja margir fjölmiðlamenn hverjir um aðra, jafnvel um sjálfa sig. Fylgja þeir þessu gjarnan eftir með loforði um bót og betrun, nú skuli öllum sýnt aðhald.
En fjölmiðlamennirnir og álitsgjafarnir sem segjast ekki hafa staðið sig nógu vel, hafa þeir sjálfir hugsað sér að draga sig í hlé? Á að „skipta þeim út“, um leið og „öllum“ verði „skipt út“? Eða hafa þeir kannski hugsað sér að halda áfram að hafa vit fyrir fólki á sama tíma og þeir heimta afsagnir, brottrekstur og kyrrsetningu eigna án dóms og laga?
ÞÞ að er margt furðulegt við íslenska fjölmiðlaumræðu og ekki minnkaði það þegar menn fóru að birta „blog“ með fréttum og greinum. Eitt smáatriði er dálítið sérstakt, þó saklaust sé. Ef einhvers staðar birtist frétt um fjármálaráðherra, þá birtast strax nokkrar athugasemdir og viðbrögð þar sem amast er við því að „dýralæknir“ gegni ráðherraembætti – rétt eins og ekki geti nema flón orðið dýralæknar. Ingibjörg Sólrún er með BA próf í sögu, Jóhanna Sigurðardóttir var flugfreyja, Kristján Möller er með kennarapróf, Steingrímur J. Sigfússon er jarðfræðingur, Katrín Jakobsdóttir bókmenntafræðingur, Siv Friðleifsdóttir sjúkraþjálfari og Björgvin G. Sigurðsson er með BA gráðu í heimspeki og sögu. Auðvitað dettur ekki nokkrum manni í hug að þessi menntun fólksins eigi að hindra framgang þess í stjórnmálum og vonandi kemur aldrei að slíku sérfræðingaþjóðfélagi. En um leið og fjármálaráðherra er nefndur, sem oft er auðvitað gert í efnahagsvandræðum, þá þykir mörgum alveg svakalegt að sjá mann með embættispróf í dýralækningum. Þetta var sérstaklega áberandi eftir að fregnir birtust af samtali fjármálaráðherra Íslands og Bretlands en áður en samtalið var birt opinberlega. Þá var ekki þverfótað fyrir mönnum sem töldu að íslenski fjármálaráðherrann kynni ekki stakt orð í ensku, og væri það dæmigert fyrir ógæfu Íslands að vera með dýralækni í ábyrgðarstöðu.
Alistair Darling er Skoti og þingmaður fyrir Edinborg. Árni Mathiessen er með embættispróf í dýralækningum frá Edinborgarháskóla og lauk ofan á það framhaldsnámi í fisksjúkdómafræðum frá Stirling háskóla í Skotlandi.