Þessi niðurstaða felur í sér að meirihlutinn virðist algjörlega ótengdur veruleikanum að því er varðar tekjumöguleika sveitarfélagsins á erfiðum tímum, |
– Úr bókun vinstri grænna á borgarstjórnarfundi í gær um að það veki furðu að borgarstjórn ætli ekki að nýta heimild til útsvarshækkunar. |
M eirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í borgarstjórn Reykjavíkur ákvað í gær að nýta ekki nýfengna heimild Alþingis til að hækka útsvar á borgarbúa og ekki heldur fasteignatengd gjöld. Það var rétt ákvörðun hjá Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarstjóra og félögum hennar í meirihlutanum þótt Vefþjóðviljinn hefði vissulega kosið að útsvarið lækkaði. Sjálfstæðismenn geta ekki lokið kjörtímabili sínu í borgarstjórninni án þess að vinda ofan af útsvarshækkunum R-listans.
Að sjálfsögðu mótmæltu vinstri flokkarnir þessari ákvörðun kröftuglega. Hvað sem efnahagslegum áföllum líður þá eru vinstri flokkarnir samir við sig. Vinstri flokkarnir virðast aldrei hugsa skattheimtu til enda. Þeir sjá aðeins tekjumöguleika fyrir hið opinbera en ekki tekjutapið fyrir skattborgarann.
Eignir flestra heimila í landinu hafa lækkað í verði að undanförnu um leið og gengis- og vísitölutryggðar skuldir hafa snarhækkað. Tekjur manna eru einnig að lækka og þúsundir manna að missa vinnuna. Við þessar aðstæður telja vinstri menn það veruleikafirringu að hækka ekki skatta á heimilin með hækkun útsvars og fasteignagjalda.
Hvað má þá kalla viðhorf þeirra sjálfra? Kannski það sama og ríkisstjórnarinnar sem hækkaði tekjuskattinn um daginn?
Heimilin þurfa þvert á móti myndarlega skattalækkun til að geta greitt skuldir sínar sem hraðast. Greiðsla skulda er það ráð sem þau hafa um þessar mundir til að bæta stöðu sína. Eignamarkaðir eru frosnir og litlir möguleikar á auknum tekjum í bráð.