Mánudagur 22. desember 2008

357. tbl. 12. árg.

Á laugardaginn vitnaði Vefþjóðviljinn í þingræðu Ragnheiðar Ríkharðsdóttir alþingismanns um Ísland og Evrópusambandið. Ragnheiður segir helstu rökin fyrir aðildarumsókn Íslands að sambandinu vera þau að þá komi í ljós hvaða kosti og gallar fylgi aðild. Sjálf segist hún hins vegar vera fylgjandi aðild þótt allt sé á huldu um kosti og galla, að hennar mati.

Og Vefþjóðviljinn gerir það ekki endasleppt í kynningu á sjónarmiðum ESB-sinna í Sjálfstæðisflokknum. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir varaformaður flokksins hefur þótt fremur höll undir innlimun Íslands í sambandið að undanförnu. Hún var gestur í Markaðnum á Stöð 2 á laugardaginn þar sem þessi mál bar á góma. Meðal þess sem Þorgerður sagði var þetta um sjávarútvegsstefnu ESB:

Sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins hefur fallið, hún hefur kolklikkað.

Nú vegur kannski sjávarútvegur ekki þungt í huga varaformannsins. Kannski eru það aðrir þættir efnahagslífsins sem skipta meira máli þegar menn gera það upp við sig hvort sameina beri Ísland öðrum ríkjum. Um almennt ástand efnahagsmála í Evrópu sagði varaformaðurinn:

Það er allstaðar, í öllu hagkerfi Evrópu veikleikar í dag, Austurríki, Ungverjaland, Spánn, allt er þetta allt að því á brauðfótum

Kolklikkuð sjávarútvegsstefna og hagkerfi á brauðfótum. Girnilegt, ekki satt?