Helgarsprokið 21. desember 2008

356. tbl. 12. árg.

E kki eru nú miklar líkur á því að mönnum takist að teyma Ísland inn í Evrópusambandið og afhenda embættismönnum í Brussel fullveldi þess. En þeir reyna samt af fremsta megni, kratarnir, þessa dagana. Og þó að hættan á því að þeim takist ætlunarverkið sé ekki mikil, þá þarf þeim tíma ekki að vera illa varið, sem færi í að hugleiða hver örlög Íslands yrðu ef svo færi.

Meðal þeirra bóka sem út koma nú fyrir jólin er skáldsagan Váfugl, eftir Hall Hallsson, þar sem horft er til framtíðar og brugðið upp mynd af Evrópusambandsríkinu Íslandi eftir um sjötíu og fimm ár. Má í stuttu máli segja, að þegar komið er til leiks í Váfugli hefur Ísland sömu stöðu innan evrópska stórríkisins og það hafði í danska ríkinu á síðari hluta nítjándu aldar. Íslenska lýðveldið hefur verið lagt niður og alþingi hefur lítið að segja um íslensk málefni. Samkvæmt stöðulögum, sem stjórnin í Berlín setti ein og sér árið 2071, er Ísland óaðskiljanlegur hluti evrópska ríkisins, þó nokkur ávinningur hafi orðið af stjórnarskránni sem fékkst í tilefni af tólfhundruð ára afmæli Íslandsbyggðar árið 2074.

Eins og sést vantar ekki að Íslandssagan gangi aftur í Váfugli. Þjóðfundurinn 1851 er endurtekinn árið 2051 og aftur verður deilt um ríkisráðsákvæði og Uppkast. Hannes Hafstein, Valtýr Guðmundsson, Björn Jónsson og Magnús Stephensen taka undir nýjum nöfnum til fyrri við fyrri deilur sínar og nota í einkasamtölum gjarnan sömu orð og tveimur öldum fyrr. Sama má segja um erlenda menn. Friðrik VIII talar að nýju opinskátt við Kolviðarhól en Richard Nixon blessaður birtist undir tveimur nöfnum og nýkjörinn forseti Evrópu tekur við embætti með því að endurflytja embættistökuræðu Kennedys, og þannig mætti áfram telja.

Váfugl er óvenjuleg skáldsaga. Erindi höfundar er að vekja Íslendinga til umhugsunar um það hver örlög landi þeirra kynnu að verða búin ef það hyrfi inn í Evrópusambandið, sem jafnt og þétt heldur áfram ferð sinni til stórríkis með ókjörna embættismenn við stjórnvölinn. Þá ræða persónur bókarinnar oft sín á milli um það hvað hafi valdið því að forfeður þeirra, fólkið á okkar tímum, hafi kastað fullveldi landsins frá sér. Þegar þær horfa til baka hugsa þær um að fyrri tíma mönnum hafi fallist hendur þegar skuldsettir íslenskir bankar hafi farið illa er útrás þeirra rann út í sandinn, og má í því samhengi nefna að bókin er prentuð í september síðastliðnum.

Auðvitað er Helga ljóst að fólk þráði festu mitt í öngþveiti. Þjóðin heimtaði lausnir, patent að utan. Aðildin hafði verið samþykkt á forsendum nauðhyggju. Krónan væri ónýt svo þjóðin yrði að ganga inn. Og svo var fullyrt að einhliða úrsögn væri einfaldasta mál í heimi; einfaldasta mál í heimi líkt og evrópskar þjóðir hefðu praktíserað slíka gjörninga. Slíkt tal var pólitísk einfeldni; barnaleg einfeldni. En vandinn var heimatilbúinn. Bankamenn höfðu slegið lán í útlöndum fyrir útrás í bland við skuldsettar yfirtökur og húsnæðisbólu; tíu þúsund milljarða króna lán í útlöndum. Á sama tíma var fluttur út fiskur fyrir 150 milljarða á ári – eitt og hálft prósent af skuldafarganinu! Þetta kom sem búmerang framan í þjóðina enda þarf engan snilling til að sjá að slíkt er geggjun. Þjóðin var berskjölduð. Það var að vonum sagt að krónan væri óalandi og óferjandi ræfill sem lentur væri í strætinu og engin leið til baka. En það var villutrú. Þjóðin var próblemið, hinn mikli vandi.

Þannig eru það ekki aðeins aldargamlir atburðir sem birtast að nýju í Váfugli. Þetta er óvenjuleg bók, sem ætlað er að vekja til umhugsunar um þróun, sem gæti orðið, og þó vonandi verði Íslandi ætíð hlíft við þeirri áhættu að limast inn í stórríkið, þá er ómaksins vert að eyða kvöldstund í að hugleiða með Halli hvert slík ákvörðun gæti leitt landið.