Í gær var vitnað til ummæla nokkurra sjálfstæðismanna sem telja allir að verulegir ókostir myndu fylgja aðild Íslands að ESB og að þeir myndu vega mun þyngra en kostirnir. Þessi ummæli féllu meðal annars við umræður á Alþingi í vikunni. Vafalaust hefur einhverjum þótt ósanngjarnt að vitna aðeins í andstæðinga aðildar því sannleikurinn er sá að í þingflokki Sjálfstæðismanna eru líka stuðningsmenn aðildar. Vefþjóðviljinn hefði átt að gera gagnstæðum sjónarmiðum skil. Úr því verður nú bætt.
Í umræðunum á Alþingi tók til dæmis Ragnheiður Ríkharðsdóttir til máls og lýsti hug sínum:
Ég er ein þeirra sem er fylgjandi því að farið verði í aðildarviðræður við Evrópusambandið, að kannaðir verði kostir og gallar þess sambands fyrir íslenska þjóð. |
Já, fáfræðin er jafnan nefnd sem helstu rökin fyrir aðildarumsókn, að menn hafi bara ekki hugmynd um hvað komi út úr aðildarviðræðum við þetta samband þarna. Þó er búið að fara yfir málið margsinnis í alls kyns nefndum ríkisstjórnar, Alþingis, hagsmunasamtaka og stjórnmálaflokka. Útgáfuefni um málið eru svo þurrausin að nýlega kom út bók fræðinga um „Evrópuvitundina“. Hvað er þá eftir? Evrópuduldin?
En Ragnheiður telur að menn þekki hvorki haus né sporð á Evrópusambandinu. Hún vill að Íslendingar kynni sér sambandið með því að leggja inn aðildarumsókn. Þannig megi kanna kosti og galla sambandsins. Þegar Ragnheiður hafði nestað sig og aðra landsmenn upp með fávísinni um kosti og galla Evrópusambandsins upplýsti hún þingheim um niðurstöðu sína:
Ég get líka upplýst hér og nú svo að það fari ekki á milli mála að ég er sjálf fylgjandi aðild að ESB, það er ekkert flókið. Það er enginn holur hljómur í þeirri skoðun og það er ekki holur hljómur í þeim sem segja svo í Sjálfstæðisflokknum. |
Ég veit ekki hverjir kostir og gallar Evrópusambandsins eru en svo það fari nú ekki milli mála þá er ég fylgjandi aðild. Það er ekkert flókið.
Það var kannski ekki að ástæðulausu sem Vefþjóðviljinn taldi sig best gæta hlutleysis í þessari umræðu með því að vitna aðeins í andstæðinga aðildar að Evrópusambandinu.