Föstudagur 19. desember 2008

354. tbl. 12. árg.

E nn er gerð leit að almennum sjálfstæðismönnum sem styðja aðild Íslands að Evrópusambandinu. Það er mikilvægasta verkefni Valhallar í efnahagskreppunni. Nokkrir forystumenn flokksins hafa hins vegar tjáð sig með afgerandi hætti um málið á síðustu tveimur dögum.

„Ég hef stutt stefnu Sjálfstæðisflokksins í Evrópumálum og tilheyri þeim hópi sjálfstæðismanna sem telur hag Íslendinga best borgið utan Evrópusambandsins.“ – Bjarni Benediktsson formaður utanríkismálanefndar Alþingis í þingræðu í fyrradag.

„…mér finnst ekki ástæða til að sækja um aðild að klúbbi sem ég hef ekki áhuga á að tilheyra.“ – Birgir Ármannsson formaður allsherjarnefndar Alþingis í þingræðu í fyrradag.

„Ég tel að gallarnir við inngöngu séu meiri heldur en kostirnir. Þær upplýsingar sem ég hef viðað að mér í gegnum það starf hafa ekki breytt afstöðu minni. Það fylgja því gríðarlega miklir gallar að ganga í ESB, sérstaklega þegar kemur að málefnum sjávarútvegsins og auðlindanna.“ – Illugi Gunnarsson formaður Evrópunefndar ríkisstjórnarinnar í Fréttablaðinu í fyrradag.

„Við aðild að Evrópusambandinu þyrfti Ísland að undirgangast það skilyrði að lög Evrópusambandsins yrðu rétthærri en öll önnur lög á Íslandi. Jafnvel ákvæði stjórnarskrár þyrftu að víkja fyrir lögum Evrópusambandsins ef þannig bæri undir. Um þetta atriði er ekki deilt og á þessu yrðu engar undanþágur.“ – Þórlindur Kjartansson formaður SUS og Teitur Björn Einarsson varaformaður SUS í grein í Morgunblaðinu í gær.

Þ essa dagana þeytast sveittir og andstuttir menn búð úr búð að leita að réttum jólagjöfum. Andríki, útgáfufélag Vefþjóðviljans, vill benda mönnum á, að spara má sér margt sporið með því að líta inn í verslun sem opin er á tölvuskjánum og er gengið inn hér á vinsti hönd. Í Bóksölu Andríkis fást ýmsar bækur sem eru líklegar til að vekja áhuga hugsandi vina sem og hugsun áhugalausra vina. Bækur eins og Hagfræði í hnotskurn, Þjóð í hafti og Leyndardómur fjármagnsins eru tilvaldar fyrir alla þá sem öðlast vilja betri skilning á efnahagsmálum, sem mörgum er engin vanþörf á, fjölmiðlabækur Ólafs Teits Guðnasonar setja umræður um lokuð augu fjölmiðla í alveg nýtt samhengi, Löstur er ekki glæpur og Lögin vekja til umhugsunar um það hvað eru einkamál og hvað hið opinbera má skipta sér af, Íslamistar og naívistar vara við þróun sem gæti orðið hér, rétt eins og hún hefur orðið í ýmsum nágrannalöndum, Hið sanna ástand heimsins er fyrir alla þá sem vilja vita meira um ástand heimsins en umhverfisverndarstórfyrirtækin auglýsa, Ranghugmynd Richard Dawkins er kjörin fyrir alla þá sem vilja hugleiða trúmál um jólin og Kristján Albertsson og Hannes Hafstein eru fyrir þá sem vilja afburða vel skrifaðar og sígildar ævisögur. Margar fleiri bækur eru til sölu í Bóksölunni og enn er hægt að panta í tæka tíð fyrir jól.

Þá býður Bóksalan vitaskuld áskrift af tímaritinu Þjóðmálum og stök hefti þeirra. Sumir hafa notfært sér það og gefið áskrift að tímaritinu í jólagjöf með því að hafa nafn viðtakanda annað en greiðanda.

Og þá er ógetið þess að Bóksalan sendir bækur ekki aðeins heim að dyrum hér innanlands, heldur um allan heim. Við erlendar pantanir bætist 600 króna sendingargjald en heimsending innanlands er jafnan innifalin í bókarverði.