Þriðjudagur 16. desember 2008

351. tbl. 12. árg.

S vo mikil andstaða er við það innan Sjálfstæðisflokksins að gerðar verði raunverulegar breytingar á stefnu hans í Evrópumálum, að þeir sem það vilja verða að hafa mikið fyrir því. Evrópunefndirnar sem kynntar voru á dögunum eru skýr yfirlýsing um að nú skuli það reynt. Og Valhallarmenn halda áfram að reyna að þrýsta Evrópusambandinu ofan í kokið á flokksmönnum sínum og felulitirnir á hinni „upplýsandi umræðu“ verða æ daufari.

Nú eru haldnir „ábyrgir fræðslufundir“ þar sem eingöngu gjallarhorn Evrópusambandsins verða þeytt. Á nýjasta fundinum eru sjálfstæðismenn boðaðir til að hlusta á Halldór Grönvold, sem lengi hefur verið einn allra ákafasti Evrópusambandssinni kratanna hjá Alþýðusambandinu, Ingibjörgu R. Guðmundsdóttur sem nú loks þykir marktæk eftir að hafa lýst stuðningi við Evrópusambandið áður en hún tapaði forsetakjöri ASÍ á dögunum, og Frosta Ólafsson, aðstoðarframkvæmdastjóra Viðskiptaráðs, sem þykir óhætt að láta tala eftir að stjórn ráðsins, vinnuveitendur hans, hvatti til Evrópusambandsaðildar í gær.

Þetta verður næstum enn ábyrgari fundur en sá síðasti, en þar var Eiríkur Bergmann Einarsson þó látinn uppfræða sjálfstæðismenn, ásamt Guðfinnu Bjarnadóttur, sem alla tíð hefur stutt Evrópusambandið.

Í rar eiga að kjósa aftur um stjórnarskrá Evrópusambandsins á næsta ári. Þeir kusu nefnilega vitlaust síðast. Þegar þeir hafa leiðrétt mistökin verður boðið upp á einn bjór og frímiða á fyrirlestraferð Baldurs Þórhallssonar, „Áhrif smáríkja í Evrópusambandinu“, sem heldur áfram næst þegar Baldur getur komið því við frá önnum við fréttaskýringar í sjónvarpi.

U m áramótin taka Tékkar við formennsku Evrópusambandsins. Nýlega fóru leiðtogar af Evrópuþinginu á fund forseta Tékklands, Václav Klaus, til að leggja honum línurnar. Voru þar í fararbroddi svo miklir menn sem Daniel Cohn-Bendit, sem gat sér mikið orð á götum Parísarborgar árið 1968, og Hans-Gert Pöttering, forseti Evrópuþingsins.  Tékkneski forsetinn var svo vinsamlegur að birta endurskrift samtals opinberlega og er hún kannski upplýsandi fyrir þá sem enn kunna að telja að „smáríki“ hafi áhrif á Evrópusambandið. Svona er talað við forseta Tékklands, en hann er að vísu ekki frá Íslandi, sem myndi hafa gríðarleg áhrif strax frá inngöngu eins og Samtök iðnaðarins hafa margbent á. Hér er endurskriftin tekin úr smiðju breska blaðsins The Daily Telegraph og hljómar svo í hraðsoðinni þýðingu:

„Frelsi og lýðræði eru nú á undanhaldi í Evrópusambandinu.“ – Václav Klaus, forseti Tékklands

Daniel Cohn-Bendit: „Ég færi yður hér fána sem okkur hefur skilist að þér hafið hvarvetna hér í Prag-kastala. Þetta er fáni Evrópusambandsins, svo ég set hann hér fyrir framan yður. Formennska yðar mun reyna á. Tékkland þarf að taka á vinnutímatilskipuninni og loftslags-hlutanum. Loftslags-hlutinn felur minna í sér en við hefðum kosið og það verður að gæta þess að hann þynnist ekki frekar. Ég er sannfærður um, að loftslagsbreytingar eru ekki aðeins áhætta, heldur bein hætta fyrir framtíðarþróun hnattarins. Þá skoðun mína byggi ég vísindalegum viðhorfum og meirihlutasamþykki á Evrópuþinginu. Ég veit að þér eruð mér ósammála. Yður má finnast hvað sem þér viljið, mér hins vegar finnst ekkert um málið, ég veit – að jörðin hlýnar í raun og veru.

Að því er Lissabon-samninginn varðar, þá læt ég mig skoðanir yðar á honum engu varða. Ég vil vita hvað þér gerið ef báðar deildir tékkneska þingsins samþykkja hann. Munið þér virða vilja fulltrúa þjóðarinnar? Þér verðið að staðfesta hann.

Ég vil að þér útskýrið fyrir mér eðli vináttu yðar við Írann, herra Ganley. Hvernig getið þér hitt mann sem hefur ekki gert grein fyrir fjármögnun sinni? Það er ætlast til þess að þér hittið hann ekki meðan þér eruð í forsæti. Þessi maður fjármagnar sig með óútskýrðum hætti og ætlar að koma sér þannig á Evrópuþingið.“

Václav Klaus, forseti Tékklands: „Ég verð að láta þess getið, að með þessum hætti og þessum tóni, hefur ekki nokkur maður talað við mig síðustu sex árin. Má ég upplýsa yður um, að þér eruð ekki staddir í götuvígi í Parísarborg. Ég hafði raunar ímyndað mér, að þessháttar mannasiðir væru nokkuð sem menn hefðu látið af að bjóða okkur Tékkum, fyrir átján árum eða svo. En þar hefur mér greinilega skjátlast. Ekki kæmi mér til hugar að spyrja að því hvernig Græningjar öfluðu sér fjár. Við höfum hér hálftíma til viðræðna; ef þér hafið áhuga á að þær fari fram með skynsamlegum hætti þá væri ráð, herra formaður, að þér gæfuð einhverjum öðrum orðið.“

Hans-Gert Pöttering, forseti Evrópuþingsins: „Ónei, við höfum nægan tíma. Félagi minn mun halda áfram, því hver einasti þingmaður á Evrópuþinginu má spyrja yður hvers sem honum sýnist. Gerið svo vel og haldið áfram, herra Cohn-Bendit.“

Václav Klaus: „Þetta er með ólíkindum, ég hef bara aldrei lent í öðru eins…“

Cohn-Bendit: „Það er vegna þess að þér hafið ekki lent í mér fyrr.“

Václav Klaus: „Þetta er fáheyrt.“

Cohn-Bendit: „Við áttum alltaf ánægjuleg samtöl við Havel, forseta. Og hvað getið þér sagt mér um viðhorf yðar til laganna gegn mismunun. – Ég skal með ánægju fræða þig um fjármögnun okkar [Græningja].“

Pöttering: „Herra Brian Crowley [Írskur Evrópuþingmaður, baráttumaður fyrir staðfestingu Íra á evrópsku stjórnarskránni], gerið svo vel.“

Brian Crowley: „Ég er Íri og félagi í stjórnarflokki. Faðir minn barðist gegn breskum yfirráðum alla sína ævi. Ógrynni ættingja minna lét lífið í baráttunni. Vegna þessa treysti ég mér til að segja að írska þjóðin vill fá Lissabon-samninginn. Orð yðar, herra forseti, í opinberri heimsókn yðar á Írlandi voru hrein móðgun við mig og írsku þjóðina. Það var móðgun að þér hittuð Declan Ganley, mann sem hefur ekkert lýðræðislegt umboð. Þessi maður hefur ekki sýnt fram á hvernig hann fjármagnaði kosningabaráttu sína. Ég vil einfaldlega fræða yður um hvað írsku þjóðinni fannst. Ég óska þess að þér komið starfsáætlun formennskutíðar yðar fram og náið fram vilja Evrópubúa.“

Václav Klaus: „Þakka yður fyrir þá reynslu sem ég hef nú fengið með þessum fundi. Ég hélt svona nokkuð væri óhugsandi og hef ekki reynt nokkuð þessu líkt, síðustu nítján árin. Þetta hélt ég að væri úr sögunni; að við byggjum nú við lýðræði, en í Evrópusambandinu er lýðræðið í raun og veru liðin tíð. Þér minntust á evrópsk gildi. Mikilvægust þeirra eru frelsi og lýðræði. Íbúar Evrópusambandslandanna óttast fyrst og fremst um frelsi og lýðræði. En frelsi og lýðræði eru nú á undanhaldi í Evrópusambandinu. Við verðum að berjast af lífi og sál fyrir þau. Mig langar að undirstrika, öðru fremur, hvað flestum Tékkum finnst, sem er, að við eigum ekki annan kost en að vera í Evrópusambandinu. Það var ég sem lagði inn umsóknina árið 1996 og undirritaði aðildarsamninginn árið 2003. En innan Evrópusambandsins kemur mörg skipan til greina. Það er ákaflega óevrópsk hugsun að halda eina þeirra heilaga og ósnertanlega og að hvorki megi um hana efast né gagnrýna hana.

Og um Lissabon-samninginn er það að segja að hann hefur ekki heldur verið samþykktur í Þýskalandi. Stjórnarskráin, sem í raun var hið sama og Lissabon-samningurinn, henni var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu í tveimur löndum. Ef herra Crowley hefur áhyggjur af móðgun við írsku þjóðina, þá verð ég að segja að helsta móðgunin við hana er sú að virða ekki niðurstöðu írsku þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Á Írlandi hitti ég mann sem talaði fyrir meirihlutavilja landsmanna. Þér, herra Crowley, talið fyrir vilja minnihlutans. Það er nú hin áþreifanlega niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar.“

Crowley: „Með fullri virðingu herra forseti, þér eigið ekkert með það að segja mér hvað Írum finnst. Sem Íri þá veit ég það best.“

Václav Klaus: Ég hef ekki uppi neinar getgátur um það hvað Írum finnst. Ég tefli fram einu mælanlegu niðurstöðunni, staðfestri í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Í mínu landi hefur Lissabon-samningurinn ekki verið staðfestur þar sem þingið hefur ekki enn gert upp sinn hug. Þar er ekki við forsetann að sakast. Við skulum bíða niðurstöðu beggja þingdeilda, þannig er staðfestingarferlið hjá okkur og þar hefur forsetinn ekkert hlutverk. Ég get ekki staðfest sáttmálann hér og nú, hann er ekki á mínu borði heldur þingmanna. Þegar sáttmálinn hefur verið endanlega staðfestur í þinginu, þá kemur að mér.“