Mánudagur 15. desember 2008

350. tbl. 12. árg.

A uglýst var á dögunum að fyrsta prentun af bók Guðjóns Friðrikssonar, Sagað af forseta, væri uppseld. Það segir nú ekki mikið um sölu bókarinnar, því fyrsta prentun var aðeins fjögur eintök. Eins og menn vita þá var bókin í ofboði tekin úr prentsmiðju eftir að útrásarhjalið varð hjákátlegt og þar með nauðsynlegt að endurskoða sögu forseta Íslands. Það er því í raun önnur prentun sem borin var í verslanir, og á trúverðugleiki þeirrar útgáfu vel við á sögu Ólafs Ragnars Grímssonar.

Á dögunum var sagt frá því að viðskiptabankarnir, sem allir voru almenningshlutafélög, hafi kostað gerð bókarinnar. Eins og tíðkast á Íslandi, þegar fréttir berast af óvenjulegum uppátækjum í rekstri almenningshlutafélaga, voru fréttirnar aðeins sagðar einu sinni og svo aldrei minnst á þær meir og alls ekki leitað viðbragða eða skýringa frá nokkrum manni. Þetta er fyrir löngu orðið að lensku á Íslandi og hefur ekkert breyst þrátt fyrir mikla atburði í viðskiptalífinu.

D æmigerð spunafrétt var sögð í Ríkissjónvarpinu í gær. Þar var fullyrt að nánar tilteknar breytingar yrðu gerðar á ríkisstjórn innan skamms. Það fylgdi, að einungis formenn stjórnarflokkanna væru að ræða þau mál. En, fyrst það eru aðeins Geir og Ingibjörg sem eru að ræða það hverjum eigi nú að fórna – hvort þeirra er þá heimildarmaðurinn? Og af hverju ætti umhverfisráðherra að víkja vegna bankahrunsins? Eða dómsmálaráðherra? Hvað gerðu þau af sér? Í hverju ættu þau að hafa brugðist?