Þ eir sem hæst hafa í þjóðmálaumræðunni um þessar mundir leggja auðvitað engar tillögur fram um hvernig Íslendingar geti unnið sig út úr erfiðleikunum. Þessir tvö þúsund sem komið hafa saman á Austurvelli undanfarna laugardaga virðast fyrst og fremst vilja halda áfram í útrásinni, nú fyrir gremju, reiði og einhvers konar skemmdarfýsn og sóðaskap. En þótt fáar tillögur líti dagsins ljós á Austurvelli á laugardögum leggja margir orð í belg af góðum hug í blaðagreinum og umræðuþáttum.
Maður lagði það til að mynda til í bréfi til Kastljóss Ríkissjónvarpsins nú í október að ríkið keypti 300 þúsund flugmiða til Íslands og gæfi útlendingum. Þannig mætti lokka þá til landsins og skapa gjaldeyristekjur af hótelum, veitingasölu og verslun hér á landi. Hann var búinn að reikna þetta allt út og dæmið virtist afar vænlegt fyrir land og þjóð. Hagfræðiprófessorarnir Jón Daníelsson og Gylfi Zoëga hentu þessa miðatillögu á lofti í grein í Morgunblaðinu 27. október og einfölduðu hana verulega. Í stað þess að dreifa farseðlum frá íslenskum skattgreiðendum til útlendinga í þeirri von að á þá renni eyðsluæði á Íslandi vilja hagfræðingarnir að ríkið sendi einfaldlega íslenskum fyrirtækjum seðla sem ríkið gefur þegar út undir nafninu íslenska krónan. Fyrirtækin geti þá sjálf notað þessa seðla milliliðalaust til að framfleyta sér. „Ríkisvaldið getur prentað krónur til þess að lána skuldsettum fyrirtækjum á lágum vöxtum. Þessi lán geta verið til nokkurra ára og ekki krafist afborgana fyrstu sex mánuðina. Með lánveitingunni er fjármagnskostnaður fyrirtækjanna lækkaður. En sennilega þurfa mörg fyrirtæki einnig á nýju eiginfé að halda. Þá getur ríkisvaldið prentað krónur til þess að fjárfesta í fyrirtækjum og eignast þá tímabundið hlut í þeim sem unnt er að selja þegar efnahagsþrengingum er lokið,“ sögðu prófessorarnir í grein sinni.
En þótt þessar tillögur um prentun á einhvers konar töfraseðlum hljómi ef til vill nýstárlegar er rétt að vekja athygli á því að íslenska ríkið hefur reyndar stundað þessi töfrabrögð áratugum saman. Afleiðingin er öllum kunn. Seðlarnir falla í verði þegar framboð á þeim eykst. Það kallast verðbólga eða öllu heldur verðfall á seðlunum. Og það er heldur ekkert nýtt að menn andæfi þessum kúnstum. Henry Hazlitt gerði það til að mynda í bók sinni Hagfræði í hnotskurn. Bókin er nú loks fáanleg að nýju á íslensku. Hún kostar aðeins kr. 1.900 með heimsendingu í Bóksölu Andríkis og er óhætt að mæla með þeim skiptum á pappír, ekki síst ef farið verður að ráðum prófessoranna á næstunni. Hér fer hluti úr kaflanum „Verðbólgan er ópíum fólksins“:
Þeir verðbólgusinnar sem betur eru að sér viðurkenna að einhver veruleg aukning peningamagns muni draga úr kaupmætti hverrar einstakrar peningaeiningar – hverrar einstakrar krónu – með öðrum orðum að hún muni leiða til hækkunar verðlags. En þetta veldur þeim ekki áhyggjum. Þvert á móti er það einmitt þess vegna sem þeir vilja verðbólgu. Sumir þeirra halda því fram að þetta bæti stöðu fátækra skuldara gagnvart ríkum lánveitendum. Aðrir halda að þetta hvetji til útflutnings og dragi úr innflutningi. Enn aðrir telja að þetta sé nauðsynleg aðgerð til að bæta úr ef kreppa er skollin á, til að „koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað“ og til að ná markmiðinu um „fulla atvinnu“. Það eru fjölmargar kenningar til um það hvernig aukið peningamagn (þar með talin bankalán) hafi áhrif á verð. Eins og við höfum nú séð eru annars vegar til þeir sem ímynda sér að auka megi peningamagn um næstum hvaða upphæð sem er án þess að það hafi áhrif á verð. Þeir sjá þessa auknu peninga fyrir sér sem aðferð við að auka „kaupmátt“ allra, í þeim skilningi að gera öllum kleift að kaupa meiri varning en áður. Annað hvort staldra þeir aldrei við til að átta sig á því að fólk getur í heild ekki keypt tvöfalt meiri varning en áður án þess að tvöfalt meira sé framleitt, eða þá að þeir ímynda sér að það eina sem haldi niðri óendanlegri aukningu framleiðslu sé ekki skortur á mannafli, vinnustundum eða framleiðslugetu, heldur aðeins skortur á peningalegri eftirspurn. Þeir gera ráð fyrir að vilji fólk vörurnar og hafi peninga til að kaupa þær, verði þær nánast framleiddar sjálfkrafa. Hins vegar er sá hópur – og í honum hafa nokkrir virtir hagfræðingar verið – sem heldur fram ósveigjanlegri vélrænni kenningu um áhrif peningaframboðs á vöruverð. Þessir kenningasmiðir sjá þetta þannig fyrir sér, að allir peningar þjóðarinnar séu boðnir gegn öllum vörunum. Þess vegna hljóti verðgildi peningamagnsins í heild margfaldað með „hraða hringrásarinnar“ alltaf að vera jafnt verðgildi heildarmagns varanna sem keyptar eru. Og þannig hljóti verðgildi hverrar einingar peninganna auk þess að breytast nákvæmlega öfugt við magnið sem sett er í umferð (sé gert ráð fyrir því að engin breyting verði á hraða hringrásarinnar). Séu peningamagn og bankalán tvöfölduð tvöfaldist „verðlagið“; sé það þrefaldað, þrefaldist verðlagið. Í stuttu máli, sé peningamagnið margfaldað n sinnum, margfaldist vöruverð n sinnum. Hér er ekki pláss til að útskýra allar vitleysurnar í þessu, sem í fljótu bragði kann að virðast sannfærandi. Þess í stað skulum við reyna að átta okkur á því hvers vegna og hvernig aukning peningamagns hækkar verð. Peningamagn eykst með sérstökum hætti. Við skulum segja að það gerist vegna þess að ríkið eyði meiru en það getur mætt eða vill mæta með skattheimtu (eða með sölu skuldabréfa sem fólk borgar fyrir með raunverulegum sparnaði). Gerum til að mynda ráð fyrir því að ríkið prenti peninga til að greiða verktökum á stríðstímum. Þá verða fyrstu áhrif þessara útgjalda annars vegar þau að verð á vörum sem nota þarf í stríðinu hækkar og hins vegar að verktakarnir og starfsmenn þeirra fá viðbótarfé í hendur. (Eins og nokkrum atriðum varðandi verðbólgu, sem flækt hefðu málið, var slegið á frest í kaflanum um verðlagshömlur, munum við nú þegar við erum að fjalla um verðbólgu hlaupa yfir flækjurnar sem koma til sögunnar við tilraunir ríkisins til að ákveða verðlag. Þegar verðlagshömlurnar eru athugaðar kemur í ljós að þær breyta rannsókninni ekki í grundvallaratriðum. Þær leiða aðeins til nokkurs konar verðbólgu sem safnað er upp eða „haldið niðri“ og dregur úr eða felur sumar þeirra afleiðinga verðbólgunnar sem koma fljótt í ljós. Í staðinn verða þær sem síðar koma fram þeim mun meiri.) Þetta þýðir að verktakarnir og starfsmenn þeirra hafa hærri tekjur mælt í peningum. Þeir eyða þeim í þær tilteknu vörur og þjónustu sem þá langar í. Seljendur þessara vara og þjónustu geta hækkað verðið vegna þessarar auknu eftirspurnar. Þeir sem hafa meiri tekjur í peningum eru tilbúnir til að borga þetta hærra verð frekar en að vera án varningsins, vegna þess að þeir hafa meiri peninga og hver eining peninganna hefur minna verðgildi í huga þeirra. Köllum verktakana og starfsmenn þeirra hóp A og þá, sem þeir kaupa vörur og þjónustu hjá, hóp B. Vegna meiri sölu og hærra verðs getur hópur B keypt meira af vörum og þjónustu hjá hópi C sem er enn fjær. Hópur C getur síðan hækkað verð og haft meiri tekjur til að eyða hjá hópi D og svo framvegis þar til hækkað verð og auknar peningalegar tekjur hafa nánast náð til allrar þjóðarinnar. Þegar ferlinu er lokið hafa nær allir hærri tekjur í peningum talið. En verð á vörum og þjónustu hefur hækkað til samræmis (ef gert er ráð fyrir því að framleiðsla á vörum og þjónustu hafi ekki aukist). Þjóðin hefur ekki orðið ríkari en hún var. Þetta þýðir samt ekki að hlutfallsleg eða raunveruleg verðmæti og tekjur séu eins og áður. Þvert á móti er öruggt að verðbólgan hefur mismunandi áhrif á eignir frá hópi til hóps. Fyrsti hópurinn sem fær viðbótar peninga hagnast mest. Peningalegar tekjur hóps A hækkuðu til dæmis áður en verðlagið hækkaði, þannig að hann gat keypt meiri vörur nánast í hlutfalli við aukna peninga. Peningalegar tekjur hóps B koma fram þegar verð hefur þegar hækkað nokkuð, en hópur B verður betur settur í vörum talið. En á meðan eru hóparnir sem enga hækkun hafa fengið í peningalegum tekjum tilneyddir að greiða hærra verð fyrir það sem þeir kaupa; þeirra lífskjör eru verri en áður. Við getum skýrt þetta ferli betur með ímynduðum tölum. Hugsum okkur að við skiptum þjóðfélaginu niður í fjóra megin hópa framleiðenda, A, B, C og D, sem fá peningalegar tekjur sínar hækkaðar vegna verðbólgunnar í þeirri röð. Þegar peningalegar tekjur hóps A hafa hækkað um 30 prósent hefur verð þess sem hann kaupir enn ekkert hækkað. Þegar peningalegar tekjur hóps B hafa hækkað um 20 prósent hefur verð aðeins hækkað að meðaltali um 10 prósent. En þegar peningalegar tekjur hóps C hafa hækkað um 10 prósent hefur verð þegar hækkað um 15 prósent. Og þegar peningalegar tekjur hóps D hafa ekkert hækkað hefur verð þess sem hann kaupir að meðaltali hækkað um 20 prósent. Með öðrum orðum er ávinningur fyrsta hóps framleiðenda vegna hærra verðs og tekna sem stafa af verðbólgunni óhjákvæmilega á kostnað þess hóps framleiðenda sem síðastur getur hækkað verð eða tekjur og þarf því að þola tap (þegar hann kemur fram sem neytandi). Það kann að vera, að ef verðbólgan er stöðvuð eftir nokkur ár verði lokaniðurstaðan til að mynda að meðaltali fjórðungs hækkun peningalegra tekna og einnig fjórðungs verðhækkun að meðaltali, og að í báðum tilvikum sé um að ræða sanngjarna dreifingu á milli hópa. En þetta eyðir ekki gróðanum og tapinu sem varð á breytingartímabilinu. Þrátt fyrir að tekjur hóps D og verð framleiðslu hans hafi að lokum hækkað um 25 prósent, getur hann aðeins keypt jafn mikið af vörum og þjónustu og áður en verðbólgan fór að stað. Hann getur aldrei unnið upp það tap sem hann varð fyrir þegar tekjur hans og verð framleiðslu hans höfðu ekkert hækkað, en hann þurfti að greiða allt að 30 prósentum meira fyrir vörur og þjónustu sem hann keypti af öðrum hópum framleiðenda í þjóðfélaginu, A, B og C. Þannig reynist verðbólgan einungis vera enn eitt dæmið um grundvallaratriðið sem við erum að fjalla um í þessari bók. Hún getur vissulega bætt hag útvalinna hópa í skamman tíma, en aðeins á kostnað annarra. Til lengri tíma litið hefur hún hrikalegar afleiðingar í för með sér fyrir allt þjóðfélagið. Jafnvel tiltölulega væg verðbólga breytir samsetningu framleiðslunnar. Hún leiðir til of mikillar útþenslu sumra atvinnuvega á kostnað annarra, sem aftur hefur í för með sér ranga notkun og sóun fjármagns. Þegar verðbólgan hjaðnar, eða hún er stöðvuð, getur hin ranga fjárfesting – hvort sem hún birtist í vélum, verksmiðjum eða skrifstofubyggingum – ekki gefið nóg af sér og hún tapast að miklu leyti. Ekki er heldur hægt að stöðva verðbólgu snurðulaust og þægilega og koma þannig í veg fyrir þá kreppu sem annars fylgir. Það er ekki einu sinni mögulegt að stöðva verðbólgu sem einu sinni hefur farið af stað, á einhverjum fyrirfram ákveðnum punkti, eða þegar verð hefur náð fyrirfram ákveðnu marki, því að bæði pólitísk og efnahagsleg öfl munu þá hafa farið úr böndunum. Það er ekki hægt að rökstyðja 25 prósenta verðhækkun með verðbólgu án þess að einhver haldi því fram að tvöfalt betra sé að fá 50 prósenta hækkun, og enn annar haldi því fram að 100 prósenta hækkun sé fjórfalt betri. Þeir pólitísku þrýstihópar sem hafa hagnast á verðbólgunni munu krefjast þess að henni verði haldið við. Það er auk þess ómögulegt að hafa stjórn á verðgildi peninga við verðbólgu, því eins og við höfum séð er orsakasamhengið aldrei einvörðungu tæknilegt. Það er til að mynda ekki hægt að segja fyrirfram að 100 prósenta aukning peningamagns muni hafa í för með sér 50 prósenta verðfall peningaeiningarinnar. Verðmæti peninga fer eftir huglægu mati þeirra sem eiga þá. Og þetta verðmætamat fer ekki aðeins eftir því magni sem hver um sig á – það fer einnig eftir gæðum peninganna. Ef sigur vinnst í stríði eykst verðmæti peningaeiningar þjóðar (ef hún býr ekki við gullfót) á gjaldeyrismörkuðum, en minnkar við tap, án tillits til magnbreytinga. Verðmætið í dag fer oft eftir því hvað fólk telur að magnið verði á morgun. Og eins og með vörur á mörkuðum með framvirka samninga fer verðmætamat hvers og eins á peningum ekki aðeins eftir því hvað hann heldur að verðmætið sé, heldur eftir því sem hann telur að verði mat allra annarra á peningunum. Þetta útskýrir hvers vegna verðmæti mynteiningarinnar lækkar mun hraðar en peningamagnið er aukið, eða getur verið aukið, þegar óðaverðbólga er komin af stað. Þegar því stigi er náð er ógæfan nánast alger og stefnan gjaldþrota. Margir missa þó aldrei hinn brennandi áhuga á verðbólgunni. Það er næstum eins og ekkert land geti lært af reynslu annars og engin kynslóð geti lært af þjáningum forfeðra sinna. Sérhver kynslóð og sérhvert land fylgir sömu tálsýninni. Allir prófa að fá sér þennan Dauðahafsávöxt sem verður að ryki og ösku í munni þeirra, því það er eðli verðbólgu að fæða af sér þúsund blekkingar. Í dag er þrálátasta röksemdin fyrir verðbólgu sú, að hún „komi hjólum atvinnulífsins til að snúast“, að hún forði okkur frá óbætanlegu tapi vegna stöðnunar og vegna þess að margir hafi ekkert að gera og að hún færi okkur „fulla atvinnu“. Í einfaldaðri mynd eru þessar röksemdir byggðar á ævafornum ruglingi á peningum og raunverulegum verðmætum. Hún gerir ráð fyrir því að nýr „kaupmáttur“ verði til og að áhrif þessa nýja kaupmáttar margfaldist og færist út í æ stærri hringi, eins og gárur sem myndast á tjörn þegar steini er varpað í hana. Eins og við höfum séð samanstendur raunverulegur kaupmáttur aftur á móti af öðrum vörum. Það er ekki með einhverjum furðulegum hætti hægt að auka hann með því að prenta fleiri pappírssnepla og kalla þá dali. Það sem gerist í viðskiptahagkerfi er í grundvallaratriðum það að er skipt á því sem A framleiðir og því sem B framleiðir. Það sem verðbólgan gerir í raun er að breyta tengslunum á milli verðs og kostnaðar. Mikilvægasta breytingin sem menn vilja að hún hafi í för með sér er að vöruverð hækki í hlutfalli við launataxta, þannig komist aftur á hagnaður í atvinnulífinu, og hvatt verði til framleiðsluaukningar þar sem menn sitja auðum höndum og að aftur verið komið á raunhæfum tengslum á milli verðs og kostnaðar framleiðslunnar. Það ætti þegar að vera ljóst að þessu mætti ná fram með beinni og heiðarlegri hætti með því að lækka óraunhæfa launataxta. En glöggskyggnari málsvarar verðbólgu telja að af pólitískum ástæðum sé þetta ekki mögulegt nú. Stundum ganga þeir lengra og halda því fram að allar tillögur um að lækka ákveðna launataxta til að draga úr atvinnuleysi séu undir öllum kringumstæðum andsnúnar launafólki. En ef við tölum tæpitungulaust getum við sagt að það sem þeir eru sjálfir að leggja til, sé að launafólk verði blekkt með því að raunverulegir launataxtar (það er að segja kaupmáttur launataxta) verði lækkaðir með allsherjar verðhækkun. Þeir gleyma því að launamenn eru sjálfir orðnir betur upplýstir. Stóru verkalýðsfélögin ráða sér hagfræðinga sem þekkja atvinnulífið og kunna á vísitölur, þannig að launamenn láta ekki blekkjast. Þess vegna virðist stefnan við núverandi aðstæður ólíkleg til að ná fram efnahagslegum eða pólitískum markmiðum, því að það eru einmitt öflugustu félögin sem líklegast er að þurfi leiðréttingu launataxta sinna og þau munu krefjast þess að launataxtarnir verði hækkaðir að minnsta kosti í hlutfalli við hækkun framfærsluvísitölu. Hið óraunhæfa samhengi á milli verðs og helstu launataxta mun haldast ef kröfur öflugra verkalýðsfélaga ná fram að ganga. Launataxtakerfið kann í raun að verða enn brenglaðra, því að hinn mikli fjöldi launamanna sem ekki er í neinum samtökum og hafði jafnvel ekki of há laun áður en verðbólgan kom til (og hefur meira að segja ef til vill verið haldið óhóflega niðri með útilokunarstefnu verkalýðsfélaga) verður enn verr staddur vegna verðhækkunarinnar á breytingaskeiðinu. Glöggskyggnari málsvarar verðbólgunnar eru hreinlega dálítið óheiðarlegir. Þeir setja mál sitt ekki fram af hreinskilni, og þeir enda með því að svíkja sjálfa sig. Í upphafi tala þeir um pappírspeninga – á sama hátt og þeir verðbólgusinnar sem einfaldari eru – eins og þeir séu verðmæti sem skapa megi að vild í prentvélinni. Þeir ræða meira að segja hátíðlega um „margfaldarann“, sem geri það að verkum að hver dalur sem ríkið prenti og eyði verði með óútskýranlegum hætti jafngildi nokkurra dala sem bætist við þjóðarauðinn. Í stuttu máli leiða þeir bæði athygli almennings og sína eigin frá raunverulegum ástæðum þeirrar kreppu sem ríkir þá stundina. Raunverulegu ástæðurnar eru yfirleitt misvægi milli tekna, kostnaðar og verðs: Misvægi milli tekna og verðs, milli verðs hráefna og verðs framleiddra vara eða milli eins verðs og annars, og einnig tekna eins og tekna annars. Á einhverju stigi hefur þetta misvægi fjarlægt hvatann til að framleiða eða hefur í raun gert framleiðslunni ómögulegt að halda áfram. Og kreppan breiðist út vegna þess að í viðskiptahagkerfi nútímans eru allir öðrum háðir. Það er ekki fyrr en þetta misvægi er leiðrétt sem full framleiðsla og atvinna kemst aftur á. Rétt er að verðbólga getur stundum leiðrétt misvægið, en það er hættuspil að fara þá leið og niðurstaðan getur hæglega orðið önnur en að var stefnt. Verðbólgan leiðréttir ekki opinskátt og af hreinskilni, heldur með blekkingum. Raunar blekkir hún okkur varðandi alla efnahagsframvindu. Hún ruglar og blekkir næstum alla, einnig þá sem líða fyrir hana. Við erum vön því að mæla tekjur okkar og eignir í peningum. Þessi venja er okkur svo töm að jafnvel þeim sem vinna við hagfræði og tölfræði, tekst ekki alltaf að slíta sig lausa frá henni. Það er ekki alltaf auðvelt að sjá samhengi í raunverulegum vörum og raunverulegri velferð. Hverjum finnst hann ekki vera ríkari og verður ekki stoltari þegar honum er sagt að landsframleiðsla okkar hafi tvöfaldast (í dölum talið, auðvitað) miðað við eitthvað tímabil áður en verðbólgan kom til? Jafnvel gjaldkerinn sem fékk áður 75 dali á viku og fær nú 120 heldur að hann hljóti einhvern veginn að vera betur settur, þótt það kosti hann tvöfalt meira að lifa en þegar hann fékk 75. Hann er auðvitað ekki blindur fyrir hækkuðum framfærslukostnaði, en honum er ekki heldur fyllilega ljós hver raunveruleg staða hans er. Honum væri það aftur á móti ljóst ef framfærslukostnaðurinn hefði ekki breyst en peningalegar tekjur hans hefðu þess í stað verið lækkaðar til að hann hefði sama lækkaða kaupmátt og hann hefur nú vegna hærra verðs og þrátt fyrir auknar tekjur. Verðbólgan er sjálfsefjunin, dáleiðslan, deyfingarlyfið sem hefur dregið úr sársaukanum sem fylgdi aðgerðinni. Verðbólgan er ópíum fólksins. Og þetta er einmitt pólitískt hlutverk hennar. Í löndum með „áætlunarbúskap“ grípa ríkisstjórnir sífellt til verðbólgunnar vegna þess að hún ruglar alla hluti. Sem dæmi má nefna að við sáum í fjórða kafla að sú trú að opinber störf hljóti að búa til ný störf er röng. Við sáum að ef peninganna var aflað með skattheimtu, þá eyddu skattgreiðendurnir einum dal minna í það sem þeir vildu sjálfir, fyrir hvern dal sem ríkið eyddi í opinber störf, og fyrir hvert opinbert starf sem búið er til er eitt starf í einkageiranum eyðilagt. En ef gert er ráð fyrir að ekki sé greitt fyrir opinber störf með skattheimtu? Ef gert er ráð fyrir því að þau séu greidd með hallarekstri – það er að segja með lántöku hins opinbera eða með því að grípa til prentvélarinnar? Þá virðist afleiðingin ekki verða sú sem lýst var hér að framan. Opinberu störfin virðast sköpuð með „nýjum“ kaupmætti. Ekki er hægt að segja að kaupmátturinn hafi verið fenginn frá skattgreiðendum. Þjóðin virðist í bili hafa fengið eitthvað fyrir ekki neitt. En nú skulum við, í samræmi við lexíuna okkar, líta á langtímaáætlanirnar. Einhvern tímann verður að endurgreiða lánin. Ríkið getur ekki endalaust haldið áfram að hlaða upp skuldum, því ef það er reynt, endar það með því að ríkið verður gjaldþrota. Adam Smith komst svo að orði árið 1776:
En þegar að því kemur að ríkið greiði skuldina, sem það hefur safnað upp vegna kostnaðar við opinber störf, verður það óhjákvæmilega að skattleggja meira en það eyðir. Þess vegna fer ekki hjá því að það eyðileggi fleiri störf á þessu seinna tímabili en það býr til. Þeir óhemju þungu skattar sem þá verður að leggja á, draga ekki einungis úr kaupmætti, heldur draga þeir líka úr eða eyðileggja hvatann til að framleiða og minnka þannig þjóðarauðinn og heildartekjur þjóðarinnar. Eina leiðin framhjá þessari ályktun er að gera ráð fyrir því (eins og formælendur eyðslu gera auðvitað alltaf) að stjórnmálamennirnir sem við völd eru muni aðeins eyða peningum þegar annars hefðu verið samdráttar- eða „verðhjöðnunartímar“ og muni greiða skuldina um leið og þeir tímar koma sem annars hefðu verið þenslu- eða „verðbólgutímar“. Þetta er tálsýn sem þeir sem stjórnuðu hverju sinni hafa því miður aldrei staðið undir. Spár um efnahagsmál eru auk þess svo hæpnar og pólitíski þrýstingurinn slíkur, að ólíklegt er að ríkið starfi nokkurn tímann með þessum hætti. Þegar einu sinni er byrjað að eyða peningum með hallarekstri verða til hagsmunaaðilar sem fara fram á að hallarekstrinum verði haldið áfram hvað sem tautar og raular. Ef engin heiðarleg tilraun er gerð til að greiða uppsafnaðar skuldir, heldur gripið til verðbólgu í staðinn, þá fylgja þær afleiðingar sem þegar hefur verið lýst, því landið getur ekki í heild sinni fengið neitt ókeypis. Verðbólgan sjálf er ein tegund skattheimtu. Hún er ef til vill versta hugsanlega tegundin og lendir þyngst á þeim sem síst geta greitt. Ef gert væri ráð fyrir því að verðbólgan legðist með sama þunga á allt og alla (sem, eins og við höfum séð, er aldrei raunin) væri hún jafngild flötum söluskatti sem legðist með sömu prósentu á allan varning; með jafn háu hlutfalli á brauð, mjólk, demanta og loðfeldi. Eða það mætti hugsa hana sem jafngildi flats skatts sem legðist undantekningarlaust og með sömu prósentutölu á tekjur allra. Það væri skattur sem legðist ekki bara á eyðslu allra einstaklinga, heldur líka á sparnaðinn og líftrygginguna. Þetta væru flatar álögur á allt, þar sem fátæki maðurinn greiddi sama hlutfall og hinn ríki. En eins og við höfum séð er staðan enn verri en þetta, vegna þess að verðbólgan hefur ekki, og getur ekki haft, jöfn áhrif á alla. Sumir verða verr úti en aðrir. Hinir fátæku eru yfirleitt hlutfallslega þyngra skattlagðir með verðbólgu en hinir ríku, vegna þess að þeir eru ekki í sömu aðstöðu til að verja sig með því að freista þess að festa kaup á raunverulegum eignum. Verðbólga er nokkurs konar skattur sem ekki er undir stjórn skattyfirvalda. Hún heggur samviskulaust í allar áttir. Skatthlutfallið sem komið er á með verðbólgu er ekki ákveðið, og það er ekki hægt að ákvarða það fyrirfram. Við vitum hvað það er í dag en við vitum ekki hvað það verður á morgun, og á morgun vitum við ekki hvað það verður hinn daginn. Eins og öll önnur skattheimta á verðbólgan þátt í að ákvarða þá stefnu einstaklinga og fyrirtækja sem við neyðumst öll til að fylgja. Hún dregur úr hagkvæmni og ráðdeild en hvetur til hvers kyns sóunar, áhættu og hirðuleysis. Hún gerir oft að verkum að arðvænlegra er að braska en að framleiða, og hún eyðileggur stöðugleika í efnahagslegum samskiptum. Heiftarlegt ranglæti hennar knýr menn til að grípa til örþrifaráða. Hún sáir fræjum fasisma og kommúnisma, og fær menn til að krefjast eftirlits með alræðisblæ. Hún endar ævinlega með því að tálsýnin hverfur með tilheyrandi kollsteypum. |