S íðdegis í dag hafa Linda Blöndal og félagar hennar á Rás tvö og fréttastofu Ríkisútvarpsins sagt mjög skilmerkilega frá einhverjum samblæstri nokkurra manna fyrir utan Seðlabanka Íslands. Útvarpsfólkið lagði mikið kapp á kynna samkomuna sem „friðsamlega“ en hópurinn hafi þá ruðst inn í bankann og sumir í hópnum huldu andlit sitt til að undirstrika góðan vilja og friðarást. Lögreglan mat ástandið þannig að betra væri að hafa fulltrúa úr óeirðalögreglunni en umferðarskólanum viðstadda.
Það sem var þó mest nýlunda í fréttaflutningi Lindu og félaga var að útvarpsmennirnir héldu því statt og stöðugt fram að „engin skemmdarverk“ hefðu verið unnin á staðnum heldur bara „slett rauðri málningu“ um allt og „eggjum kastað“ í húsið. Hva?
Ekki er þó víst að dómstólar telji það að sletta málningu á opinberar byggingar eitthvað annað en skemmdarverk. Á sama tíma og hinir friðsamlegu mótmælendur voru og hnýta á sig grímur og kaupa rauða málningu áður en haldið væri niður í friðinn í Seðlabanka kvað héraðsdómur Reykjavíkur upp dóm yfir manni sem hafði úðað málningu á veggi undirganganna við Miklubraut og Lönguhlíð.
Þrátt fyrir að Linda Blöndal hafi veitt öllum sem sletta málningu friðhelgi með ítrekuðum yfirlýsingum í Ríkisútvarpinu í dag var maðurinn dæmdur til að greiða eiganda undirganganna skaðabætur og greiða sekt í ríkissjóð en sitja í fangelsi ella.