Mánudagur 24. nóvember 2008

329. tbl. 12. árg.

N ýtt met í leikaraskap var sett á dögunum. Ólafur Ragnar Grímsson kvaddi sér hljóðs og sagðist leggja til að kjararáð lækkaði laun forseta Íslands og annarra embættismanna.

Þetta þótti ýmsum fagnaðarefni og sýna hvað Ólafur Ragnar væri í miklu jarðsambandi. Sá er nú ekki að tvínóna við þetta, bara biður um launalækkun. Flott hjá honum.

Kjararáð getur lækkað laun embættismanna, og ef laun annarra í landinu lækka á næstunni þá er vissulega bæði sjálfsagt og eðlilegt að sama gildi um laun embættismanna.

Á þessu er þó undantekning. Það eru ein laun sem kjaranefnd getur ekki hróflað við. Sjálft alþingi gæti það ekki þó það vildi. Í sjálfri stjórnarskránni er nefnilega sérstakt ákvæði sem myndi stöðva allar slíkar hugmyndir. Í 2. mgr. 9. gr. hennar segir einfaldlega: „Ákveða skal með lögum greiðslur af ríkisfé til forseta og þeirra, sem fara með forsetavald. Óheimilt skal að lækka greiðslur þessar til forseta kjörtímabil hans.“

Tillaga Ólafs Ragnars var því í raun um að laun allra nema Ólafs Ragnars Grímssonar yrðu lækkuð. Hann er flottur, Ólafur.

Í landinu starfa tvær fréttastofur ljósvakans og nokkur blöð. Hefur einhver fréttamaður sett ósk Ólafs í þetta samhengi eða spurt hvers vegna hann leggi til launalækkun sem hann veit að stjórnarskráin kemur í veg fyrir að nokkurn tíma geti orðið að veruleika?

Halda menn að fréttamenn yrðu jafn áhugalausir ef einhver annar en Ólafur Ragnar Grímsson hefði átt í hlut? Setji menn eitthvert annað nafn í staðinn og ímyndi sér fréttatímana næstu daga.

Eða heldur einhver að Ólafur Ragnar hafi ekki lesið ákvæði stjórnarskrárinnar um starfskjör forseta Íslands?

Í helgarsproki Vefþjóðviljans 16. nóvember síðastliðinn var rangt haft eftir forstjóra Glitnis í Silfri Egils í lok september. Fullyrt var að hann hefði sagt að hann tryði því ekki að vestrænn banki yrði látinn fara á hausinn. Hið rétt er að hann sagði að innistæðueigendur þyrftu ekkert að óttast þótt banki færi á hausinn. Um leið og þetta er leiðrétt í pistlinum er beðist velvirðingar á þessum mistökum.