Í fréttum Ríkisútvarpsins í gærkvöldi var rætt við Olli Rehn, framkvæmdastjóra stækkunarmála hjá Evrópusambandinu. Þar kom fram að Rehn teldi Íslendinga geta átt frekar greiða leið inn í sambandið og aðild væri því raunhæf fyrri hluta næsta áratugar, kannski eftir svona fjögur ár í fyrsta lagi þegar Króatar verða komnir um borð. Þetta hljóta að vera athyglisverð tíðindi fyrir heita Evrópusambandssinna, sem hafa á undanförnum vikum látið í veðri vaka að helsta bjargráð okkar Íslendinga í efnahagsmálum um þessar mundir sé að lýsa tafarlaust yfir að til standi að sækja um aðild og taka upp evruna. Hefur æsingurinn verið svo mikill að helst megi ekki ræða nein önnur mál fyrr en þessi mikilvæga ákvörðun hefur verið tekin.
Nú liggur hins vegar fyrir – og það frá manni sem ætti að þekkja til og ekki verður ásakaður um andstöðu við ESB – að aðild sé ekki raunhæf fyrr en eftir þrjú til fjögur ár. Ljóst er að evran verður ekki tekin upp fyrr en ríki hafa verið að minnsta kosti tvö ár í sambandinu þannig að þá er verið að tala um gjaldmiðlaskipti eftir í fyrsta lagi fimm til sex ár. Spyrja má hvað þá standi eftir af málflutningnum um ESB og evru sem lausn á efnahagsvandanum. Geta menn með einhverjum hætti haldið því fram að það sé óhjákvæmilegt fyrir okkur að gera upp hug okkar í þessum efnum á næstu dögum eða vikum?