Miðvikudagur 19. nóvember 2008

324. tbl. 12. árg.

A lveg um leið og Guðni Ágústsson sagði af sér þingmennsku fóru fjölmiðlamenn í það sem mestu skipti. Að reikna út hvað hann fengi í eftirlaun. Fyrsta daginn tókst þeim meira að segja að reikna það svo vitlaust að þeir fengu út að hann hækkaði um meira en 200 þúsund krónur á því að hætta – en það rétta er að hann lækkar um meira en 200 þúsund krónur.

En hvað um það. Gaman að því að meðal þeirra sem áhugasamastir eru um að stjórnmálamenn láti af störfum og hleypi öðrum að, eru margir þeirra sem reiðastir eru yfir eftirlaunum stjórnmálamanna.

Í gær var upplýst að Seðlabankinn hafði útlistað fyrir ríkisstjórninni hvaða hættur væru framundan hjá bönkunum og að nauðsynlegt væri fyrir þá að bregðast við. En þó fréttamenn séu almennt mjög áhugasamir um að gagnrýna stjórnvöld fyrir að hunsa ráðleggingar, einkum ef þær koma frá einhverjum útlenskum greinahöfundum sem skrifa eitthvað þvert á það sem tugir annarra fræðimanna hafa skrifað, þá höfðu íslenskir fjölmiðlamenn lítinn áhuga á slíku í gær. Þar var öll áherslan lögð á að fá menn til að rengja það að viðvaranirnar hefðu í raun verið settar fram.

Skemmtilegasta viðleitnin var hjá Össuri Skarphéðinssyni sem náði í fyrstu frétt að halda því fram athugasemdalaust að seðlabankinn hefði nú ekki rætt þessi mál við iðnaðarráðherra og að óskiljanlegt væri að bankinn hefði ekki lagt skýrslu sína fyrir ríkisstjórnarfund.

Ekki hvarflaði að fréttamönnum að spyrja iðnaðarráðherrann hvort það, að kynna hlut fyrir formönnum stjórnarflokka, forsætisráðherra og utanríkisráðherra, væri ekki það sama og að koma honum á framfæri við ríkisstjórn. Eða hvort það tíðkaðist að ríkisstofnanir leggðu mál inn á ríkisstjórnarfundi. Eða hvort Össur Skarphéðinsson tæki því þegjandi ef Orkustofnun tæki upp á því að leggja erindi inn á borð ríkisstjórnar, í stað þess að leggja erindið einfaldlega fyrir ráðherra málaflokksins.

Ekkert af þessu fannst fréttamönnum áhugavert. Þeim lá svo á að slá upp sem fyrstu frétt að iðnaðarráðherra hefði ekki verið boðaður á alla efnahagsmálafundi og að ráðherrann skildi ekki hvað bankanum „gengi til“.

Og ef fréttamenn verða uppiskroppa á morgun, þá má stinga því að þeim að spyrja til dæmis Kristján Möller samgönguráðherra hvort hann hafi verið viðstaddur fundahöld seðlabankans og formanna stjórnarflokkanna. Ef ekki, þá er eins víst að fundirnir hafi aldrei átt sér stað.