Þriðjudagur 18. nóvember 2008

323. tbl. 12. árg.

B óksölu Andríkis berast reglulega fyrirspurnir um ófáanlegar bækur. Sú bók sem oftast hefur verið spurt eftir á undanförnum árum er tvímælalaust Hagfræði í hnotskurn sem er íslensk þýðing bókarinnar Economics in One Lesson. Á meðan bókin var fáanleg sagði Vefþjóðviljinn svo frá henni: „Í bókinni útskýrir höfundurinn, Henry Hazlitt, helstu lögmál efnahagslífsins og fara helstu ranghugmyndir þjóðfélagsumræðunnar mjög halloka fyrir röksemdum hans. Hazlitt útskýrir hvað býr að baki háum sköttum, verðbólgu, atvinnuleysi og kreppu, fjallar um hlutverk verðs og hagnaðar, vélvæðingu, lágmarkslaun, tolla, hámarksleigu, verkalýðsfélög og margt fleira. Bókin opnar völundarhús hagfræðilegrar umræðu fyrir lesandanum og í raun má segja að líklegt sé að eftir lestur bókarinnar fylgist lesandinn með fréttum með öðru hugarfari en áður.

Bókin Economics in One Lesson er með þekktustu bókum á sínu sviði og milljónir eintaka hafa selst af henni í Bandaríkjunum frá því hún kom þar fyrst út. Vefþjóðviljinn fullyrðir að hún eigi ekki síður erindi við íslenska lesendur en bandaríska og má um það einnig vísa til orða Ragnars Árnasonar, prófessors í hagfræði við Háskóla Íslands, sem segir á bókarkápu: „Bók Hazlitts hefur lengi setið í öndvegi þeirra rita sem spreyta sig á alþýðlegri framsetningu á hagfræði. Hún ber af fyrir skýra hugsun og tæra framsetningu á ýmsum grundvallarniðurstöðum hagfræðinnar.““

F. A. Hayek sagði um bókina: „Ég veit ekki um neina bók nú á tímum sem skynsamur leikmaður getur lært jafnmikið af um grundvallarstaðreyndir hagfræðinnar á svo skömmum tíma.“

Hagfræði í hnotskurn er nú loks fáanleg að nýju. RSE og Bókafélagið Ugla hafa gefið hana út. Bóksala Andríkis býður hana á aðeins kr. 1.900 með heimsendingu.

BB arack Obama nýkjörinn forseti Bandaríkjanna er eins og allir vita bæði góður og grænn stjórnmálamaður. Hann er góður af því hann hugsar fyrst um almenning en svo um stórfyrirtækin og grænn af því hann hlúir fremur að umhverfinu en stórfyrirtækjunum.

Fyrsta aðgerðin sem Obama mun beita sér fyrir sem forseti á nýju ári er myndarlegur ríkisstuðningur við stórfyrirtækin sem framleiða stærstu og eyðslufrekustu fólksbíla í heimi.