Mánudagur 17. nóvember 2008

322. tbl. 12. árg.

Þ eim, sem vilja koma Íslandi inn í Evrópusambandið, liggur núna lífið á. Þeim hefur dottið í hug að ef þeir verði nógu snöggir að athafna sig, þá nái þeir að koma á kosningu um Evrópusambandsaðild áður en þorri manna nær áttum eftir það högg sem íslenskt efnahagslíf fékk á dögunum. Hvaða önnur ástæða ætti til dæmis að vera fyrir því að Evrópusinnar í Framsóknarflokknum láta flýta flokksþingi um tvo mánuði? Innganga í Evrópusambandið tæki nokkur ár. Hvers vegna ætli þeim þyki áríðandi að Evrópustefna Framsóknarflokksins verði ákveðin í janúar en ekki mars? Ætli það geti verið vegna þess að í mars kynni óvissan og stundarörvæntingin að vera liðin hjá og fólk komið með fótfestu?

Í augnablikinu er fólk upp til hópa órólegt og uggandi um sinn hag. Margir vilja fá einhverjar aðgerðir og lausnir sem allra fyrst, og virðist sumum nokkuð sama hverjar aðgerðirnar verði, bara að eitthvað verði gert. Reka einhvern, breyta einhverju, gera eitthvað, sem fyrst. Næstu vikurnar verða kjörtími fyrir stuðningsmenn þess að reka Ísland bara inn í Evrópusambandið. En ástandið mun lagast og því mega Evrópusambandssinnarnir engan tíma missa.

Sama má segja um þá sem geta ekki beðið eftir kosningum. Það má alls ekki bíða eftir því að landið fari að rísa á ný. Og það má alls ekki bíða eftir því að rykið setjist og málin verði skoðuð af raunsæi en ekki upphrópunum, því þá fólk geti metið flokka og frambjóðendur eftir staðreyndum en ekki eftir stundarhrópum. Þeir sem raunverulega hafa ekkert að óttast, þeim liggur ekki á kosningum. Þeir, sem hins vegar verða að fá kosningar áður en í ljós verður komið hvað gerðist og hvers vegna í raun, þeir hafa ekki mikla trú á eigin málstað.

ÞÞ að kom ekki á óvart að í gær hafi Samfylkingarfélögin byrjað að álykta um kosningar. Þetta er nákvæmlega eftir þeirri áætlun forystu Samfylkingarinnar sem næstum allir sjá í gegnum. Fyrst þurfti að bíða til að forysta Sjálfstæðisflokksins tæki með þeim ábyrgð á Icesave-skuldunum, sem Samfylkingin vill endilega ábyrgjast til að Brusselstjórnin verði ekki æst, og svo má fara að heimta kosningar af því að forysta Samfylkingarinnar telur að samstarfsflokki hennar myndi ganga illa í þeim.

Þetta eru svokölluð Samfylkingarheilindi, sem nær allir sáu fyrir áður en Sjálfstæðisflokkurinn var teymdur inn í stjórn með Samfylkingunni.

En hvernig ætli næsta skref áætlunar Samfylkingarinnar gengi. Að sækja kosningasigurinn sem hún heldur að bíði tilbúinn?

Samfylkingarforystan gleymir því, að núna eru skoðanakannanir teknar þegar Sjálfstæðisflokkurinn segir ekki orð. Ver sig ekki fyrir ásökunum, slær ekki skjaldborg um neinn forystumann sinn og segir ekki styggðaryrði um svokallaðan samstarfsflokk sinn og ekki um stjórnarandstöðuna heldur. En um leið og stjórnarsamstarf yrði rofið myndi það loks breytast. Þá yrði vandlega rætt um framgöngu Samfylkingarinnar síðustu misserin, yfirlýsingar ráðherranna mánuðum saman, hvernig ráðherrarnir grófu undan gjaldmiðlinum, hvernig þeir tóku útrásarmenn í heilagra manna tölu, hvernig Samfylkingarmenn hömuðust á þeim sem þeir sökuðu um að vilja koma böndum á útrásina og svo framvegis og framvegis. Það er ekki víst að sá kosningasigur sem Gallup býður nú, verði talinn upp úr kössum í raunverulegum kosningum. Eftir samstarfsslit gæti nefnilega farið svo að Sjálfstæðisflokkurinn sýndi Samfylkingunni sömu vinsemd og hún telur sér leyfilegt að sýna fyrir samstarfsslit.