Þ á er ballið byrjað. Einn nýju ríkisbankanna er grunaður um að hafa lánað Jóni Ásgeiri Jóhannessyni peninga til að kaupa fjölmiðlahluta 365 hf. Viðskiptaráðherra var reyndar búinn að lofa því, eins og öllu öðru, að bankarnir myndu starfa á „faglegum“ forsendum og aðeins „hæfasta“ fólkið fengið til að stýra þeim. En Ágúst Ólafur Ágústsson formaður viðskiptanefndar Alþingis trúir því rétt mátulega. Hann hefur stefnt forstjórum bankanna fyrir nefnd sína á föstudaginn. Á fundinum ætlar hann að sannfæra bankastjóranna um að rjúfa trúnað við viðskiptavini bankanna.
Þau verða mörg málin af þessu tagi ef ekki tekst að koma bönkunum úr eigu ríkisins hratt og örugglega. Fæst munu þó koma upp á yfirborðið. Fulltrúar stjórnmálaflokkanna í bankaráðunum munu verða fyrir þrýstingi flokksmanna um betri þjónustu bankanna og biðstofur ráðherranna munu fyllast af fólki sem telur sjálfsagt að stjórnmálamenn hlutist til um rekstur bankanna um sem undir þá heyra.
Ein leið til að koma bönkunum að minnsta kosti að hluta úr eigu ríkisins er að semja við kröfuhafa um þátttöku í rekstri þeirra.
V andi Íslendinga vegna Icesave reikninganna er ærinn. En Evrópusambandið er ekki síður í vanda. Tilskipun þess um innistæðutryggingar er í uppnámi vegna málsins og þar með staða sparifjáreigenda vítt og breitt um sambandið. Í stað þess að viðurkenna það – með því til dæmis að láta á reyna á málið fyrir dómi – hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ákveðið að beita sér gegn Íslandi þar sem hún sér tækifæri til þess í von um að íslensk stjórnvöld fallist á skilning hennar á tilskipuninni.
Framkoma Evrópusambandsins í þessu máli er vonandi ekki mjög lýsandi fyrir ástand réttarríkisins þar á bæ.