Föstudagur 14. nóvember 2008

319. tbl. 12. árg.

R obert Z. Aliber fyrrverandi prófessor við Chicago háskóla flutti erindi um verðbólur og heimskreppur í Háskóla Íslands í hádeginu í dag. Í erindinu kom fram að á síðustu tuttugu árum hafi orðið fjórar fjármálakreppur sem náð hafi til að minnsta kosti fimm landa. Aliber segir að í öllum tilvikum megi rekja kreppurnar til bólgins eignaverðs sem stafaði af miklum útlánum bankakerfis. Í máli hans kom fram að Íslendingar hafi í raun staðið frammi fyrir kreppu frá árinu 2005 en því miður hafi hún ekki skollið á fyrr en nú

Aliber sagði aðspurður að það væri óráð – eða heimskulegt ef hann mætti nota það orð – fyrir Íslendinga að taka upp annan gjaldmiðil á næstunni. Krónan myndi auðvelda Íslendingum aðlögun, sérstaklega ef láni frá IMF væri sleppt og krónan látin fljóta á ný. Ef menn tækju lán frá IMF til að styðja við krónuna gæti lánið gufað upp í þeirri tilraun og falli krónunnar væri aðeins frestað. Þetta er samhljóða því sem Aliber sagði í viðtali við Morgunblaðið í morgun:

Ég lít svo á að það séu tvær atburðarásir í þessu samhengi: hvað gerist ef Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn [IMF] beitir sér ekki fyrir láni til landsins, með þátttöku annarra þjóða, og hvað gerist ef slíkt lán er veitt. Ef landið fengi ekki lánið þá myndi lífið ganga sinn vanagang en krónan myndi verða enn ódýrari gagnvart evru og bandaríkjadollar. Það myndi örva útflutning enn frekar en innflutningur myndi dragast saman með sama móti, vegna ódýrrar krónu. Færri Íslendingar myndu ferðast til útlanda en fleiri ferðamenn kæmu hingað í staðinn, með tilheyrandi tekjum.

Ef Íslendingar fengju lán þá fælist áhættan fyrst og fremst í því að þeir sjóðir, sem IMF myndi gera tiltæka með þátttöku annarra ríkja, gætu haft í för með sér að ríkið héldi áfram að reyna að viðhalda sterkri krónu. Ég held að besta lausnin fælist í því að Ísland myndi samþykkja áætlun IMF fyrir íslenskan efnahag en afþakka fjármagnið. Mikil hætta er á að IMF-peningunum verði sóað. Forsætisráðherra ætti að tilkynna IMF að íslenska ríkið samþykkti áætlunina en ekki fjármagnið.

Svo bætti hann við áhugaverðri athugasemd um krónuna sem ætti að fæla menn frá því að reyna að halda gengi hennar uppi með lánsfé frá útlöndum:

Ef krónan veikist smátt og smátt er full ástæða fyrir fjárfesta að hafa áhyggjur. Því þá gæti krónan allt eins lækkað áfram. Með frjálsri verðmyndun yrði krónan mjög veik strax og fjárfestar gætu hugsað: Þetta er eins veikt gengi og það gerist. Það er engin ástæða til að flýja krónuna.

Aliber var jafnframt spurður álits á því á fundinum í Háskóla Íslands í dag hvort Íslendingum hefði farnast betur ef þeir hefðu haft evru sem gjaldmiðil á undanförnum árum. Hann svaraði því með annarri spurningu sem hann sagði að yrði verðugt rannsóknarefni á næstu árum: Hvort munu Íslendingar eða Írar og Spánverjar ná sér fyrr af kreppunni sem skekur þessi lönd? Írar og Spánverjar eiga við mikla erfiðleika að etja eins og Íslendingar eftir mikla bólgu í eignaverði undanfarin ár, ekki síst á fasteignamarkaði. Þeir tóku upp evru um síðustu aldamót.