Þriðjudagur 11. nóvember 2008

316. tbl. 12. árg.

Ó líkt því sem stundum mætti ætla þessa dagana, er auðvelt að tala og hugsa um aðra hluti en efnahagsmál. Og yfirleitt þó nokkuð skemmtilegra.
Til er sagnamaður og húmoristi sem margir þekkja. Ólafur Ólafsson gegndi um aldarfjórðungsskeið embætti landlæknis og var áberandi sem slíkur. Eftir að hann lét af störfum fyrir áratug voru æviminningar hans gefnar út. Þar er fjölmargt skemmtilegt og athyglisvert að finna, hvort sem menn hafa áhuga á vandasömum læknisverkum við erfiðar aðstæður eða líflegar frásagnir af löngum embættisferli.

Meðal þess sem kemur við sögu er reglugerðarárátta og fagmannatrú:

Heimaslátrun og heimabakstur bar á góma í stjórn Hollustuverndar og var ég ósammála sumum sérfræðingum stofnunarinnar í þeim efnum. Ég skrifaði meðal annars nokkur bréf til Sighvats Björgvinssonar iðnaðarráðherra þar að lútandi. … Þar lýsti ég þeirri skoðun minni að ástæðulaust væri að amast við því þó að húsmóðir bakaði kleinur til sölu þó að háskólamenntaður sérfræðingur stæði ekki yfir henni á meðan, enn fremur að ekki bæri að amast við því að bóndi skyti heima við svo sem eins og eina kind sér til matar, svo framarlega sem hann hæfi ekki heimaslátrun í stórum stíl. „Reglugerðaráráttan“ má ekki bera skynsemina ofurliði! Ég held að sumum vinum mínum í Hollustuvernd hafi sinnast við mig vegna þessara bréfa.

Fagmannatrúin ágerist með hverju árinu sem líður og vont að heilbrigðrar raddar landlæknis nýtur ekki lengur við til að tala með þessum hætti í embættisnafni. Sama má segja um hugleiðingar hans um lyfsölu sem gjarnan mega verða til umhugsunar:

Í venjulegum viðskiptum reyna báðir aðilar, kaupandi og seljandi, að fá sem mest fyrir sinn snúð. Samanburður í verði og gæðum veitir gagnkvæmt aðhald. Í lyfjaverslun er þessu ekki svo háttað. Neytandinn… fær vöruna afhenta án þess að komast nokkru sinni að því hvað hún kostar. Hann þekkir því hvorki verð vörunnar né gæði, enda er það læknirinn sem valdi hana. Læknir þarf ekki að taka tillit til fjárráða sjúklingsins og leggur sig oft og tíðum ekki fram um að kynna sér verð lyfja nægilega, því ríkissjóður borgar. Lyfjabúðir hafa einnig hag af því að lyf eru ekki seld af öðrum aðilum og hér nálgumst við kjarna málsins. Á Íslandi er algengt að lyfjategund sé til sölu undir tveimur eða fleiri vörumerkjum frá jafnmörgum framleiðendum. Verðmunur milli vörumerkja getur verið mjög mikill. … Þar sem sjúklingur greiðir aðeins fast gjald má segja að hið opinbera verðlauni sérstaklega þann framleiðanda eða heildsala sem býður dýrasta kostinn með því að niðurgreiða það vörumerki umfram önnur.

Sem landlæknir varaði Ólafur við skaða sem fólk gæti haft af tóbaksreykingum. En hann varaði einnig við ofstæki:

Enginn efast lengur um skaðsemi reykinga. Ofstæki gagnvart þeim sem reykja er hins vegar óþarft og bollaleggingar um að neita reykingafólki um heilbrigðisþjónustu sérkennilegar. Fyrir nokkrum árum birtist tilkynning frá sjúkrahúsi um að sjúklingum væri algerlega bannað að reykja á tiltekinni deild. Ég gerði athugasemdir við þetta og óskaði eftir því að útbúin yrði sérstök reykaðstaða handa fólkinu. Mér hafði borist til eyrna frá nánum aðstandendum að sjúklingar hefðu óskað eftir flýtiútskrift af deildinni vegna þessa banns. Stjórnendur sjúkrahússins urðu við óskum mínum. Læknar geta ekki neitað sjúklingi um meðferð þó að rekja megi sjúkdómseinkenni hans að einhverju leyti til óskynsamlegrar hegðunar eða lífsmáta.

Áratugur er nú liðinn frá því Ólafur Ólafsson lét af starfi landlæknis. Mega sjúklingar nokkurs staðar reykja á íslenskum sjúkrahúsum nú? Hvers vegna þarf að auka á óþægindi fólks með þessum hætti? Er virkilega ekki hægt að koma til móts við bæði þá sjúklinga sem reykja og hina sem verða bálreiðir ef þeir finna minnsta tóbakskeim?