Helgarsprokið 19. október 2008

293. tbl. 12. árg.

F ranski blaðamaðurinn Henri Lepage var Íslendingum lítt kunnur þar til Einar Már Jónsson sagnfræðingur, doktor í miðaldafræðum og kennari við Sorbonne gerði hann að umtalsefni í bók sinni Bréf til Maríu, sem kom út vorið 2007. Bók Einars Más var mikið hampað af vinstri intellígensíunni á Íslandi, enda um margt forvitnileg. Aðalástæða ástar vinstrimanna á bókinni var þó líklega gagnrýni miðaldafræðingsins á frjálshyggju. Einar Már beindi spjótum sínum sérstaklega að riti Lepage, Demain le capitalisme (Á morgun kapítalisminn), sem kom út árið 1978, en í henni voru hugmyndir frjálshyggjunnar kynntar fyrir Frökkum.

Í ljósi áhuga margra á bók Einars Más var vel til fundið hjá Rannsóknarmiðstöð um samfélags og efnahagsmál (RSE) og Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands að bjóða Henri Lepage til landsins til að ræða um kapítalsima. Nú er rétti tíminn til heyra í þeim hljóðið, sem boðuðu undir lok áttunda áratugarins og í byrjun þess níunda, að morgundagurinn væri kapítalismans. Á opnum fundi í Þjóðminjasafni Íslands 2. október hélt Henri Lepage uppi vörnum í erindi sem bar yfirskriftina Í dag kapítalisminn.

„Þróun reglna og óbein ríkisábyrgð á hinum hálfopinberu húsnæðislánasjóðum Fannie Mae og Freddie Mac tryggðu sjóðunum yfirburðastöðu á mikilvægum markaði fyrir húsnæðislán. Þessir sjóðir voru burðarásar í feiknarlegri útlánaaukningu á fasteignamarkaði sem við það belgdist út. Ekki bættu úr skák reglur á sviði skipulagsmála um öll Bandaríkin, sem byggðu á tískuhugmyndum um þéttingu byggðar. Með því var verði fasteigna enn þrýst upp. Stóru húsnæðissjóðirnir tóku fasteignalánin eins og þekkt er, pökkuðu saman, seldu áfram eða geymdu til að auka eigið verðmæti í skjóli ríkisins. Einu gilti hversu traust þessi lán voru, góðar einkunnir voru svo gott sem tryggðar frá stóru matsfyrirtækjunum, vegna skjólsins sem ríkið veitti.“

Gera hefði mátt ráð fyrir húsfylli vinstrisinnaðra menntamanna sem spyrðu Lepage spjörunum úr eftir ófarirnar á fjármálamörkuðum um heim allan. En því var ekki að heilsa. Að vísu var húsfyllir, en lítið bólaði á aðdáendahópi Einars Más. Líklega er ástæðan sú, að umfjöllun um kapítalisma og frjálshyggju, og sú gagnrýni sem sett hefur verið fram að undanförnu er ákaflega yfirborðsleg og stenst ekki nánari skoðun. Frjálshyggjumenn eru af mörgum gerðum. En þeir eiga það flestir sameiginlegt að vilja búa í samfélagi þar sem fólk hefur frelsi til að stunda þá atvinnu sem það kýs og eiga viðskipti við annað fólk hvar sem það er niðurkomið í heiminum; samfélagi sem hvílir á vernd eignarréttar; þar sem starfa óhlutdrægir dómstólar og óspillt stjórnkerfi, sem framfylgja almennum sanngjörnum leikreglum; þar sem ríkisvald er takmarkað og ekki er ráðskast með líf fólks; þar sem íbúunum er ekki íþyngt með óhóflegri reglusetningu og það hefur aðgang að stöðugum peningum. Þau áföll sem dynja nú á Íslendingum og heimsbyggðinni, eru ekki elduð upp úr uppskriftabók frjálshyggjumanna.

Ef menn hafa fyrir því að hlusta á fólk eins og Henri Lepage, sem leggur sig í líma við að rannsaka þjóðfélagsbreytingar undanfarinna ára og áratuga, gæti runnið upp fyrir þeim, að þær samverkandi orsakir sem leiddu til fjármálakrísunnar, hafa miklu minna með frjálshyggju að gera en margir ætla. Í erindi sínu á Þjóðminjasafninu rakti Lepage í stuttu máli hvernig reglusetning í Bandaríkjunum átti drjúgan þátt í að skapa þau vandamál sem þar hafa orðið og breiðst út um heim. Kjarni málsins er misheppnuð reglusetning, sem hefur haft djúpstæð áhrif á hegðun á markaði og magnað öll vandamál, sem óhjákvæmilega verða alltaf í viðskiptum manna. Lepage rakti hvernig reglur settar af góðum ásetningi leiddu til ófarnaðar. Meðal annars hvernig opinberar reglur þvinguðu bandarískar lánastofnanir, til að draga úr þeim kröfum sem gerðar voru til lántaka, svo fleiri mættu eignast heimili án tillits til þjóðfélagsstöðu og jafnvel efnahags. Af þeirri rót spruttu undirmálslánin. Þróun reglna og óbein ríkisábyrgð á hinum hálfopinberu húsnæðislánasjóðum Fannie Mae og Freddie Mac tryggðu sjóðunum yfirburðastöðu á mikilvægum markaði fyrir húsnæðislán. Þessir sjóðir voru burðarásar í feiknarlegri útlánaaukningu á fasteignamarkaði sem við það belgdist út. Ekki bættu úr skák reglur á sviði skipulagsmála um öll Bandaríkin, sem byggðu á tískuhugmyndum um þéttingu byggðar. Með því var verði fasteigna enn þrýst upp. Stóru húsnæðissjóðirnir tóku fasteignalánin eins og þekkt er, pökkuðu saman, seldu áfram eða geymdu til að auka eigið verðmæti í skjóli ríkisins. Einu gilti hversu traust þessi lán voru, góðar einkunnir voru svo gott sem tryggðar frá stóru matsfyrirtækjunum, vegna skjólsins sem ríkið veitti.

Lepage benti á að stóru matsfyrirtækin störfuðu í fákeppnisumhverfi vegna reglna sem settar hafa verið af SEC (Securities and Exchange Commission), sem geri öðrum erfitt ef ekki ómögulegt að koma í þeirra stað, hversu vanhæfir sem þessir aðilar kynnu að vera. Þar við bættust svo reglur um starfsemi fjárfestingarsjóða, sem settu þeim mörk í fjárfestingum þar sem áhætta var talin mikil og teymdi þá yfir í fjárfestingar í undirmálslánum. Slíkar fjárfestingar litu vel út á yfirborðinu. Allar reglurnar sem settar voru, leiddu því að sama marki.

Lepage benti líka á að rannsókn bandaríska þingsins á meintu bókhaldssvindli hjá stóru húsnæðislánasjóðunum hefði verið stöðvuð í fæðingu á þinginu, meðal annars vegna baráttu húsnæðissjóðanna, en sjóðirnir hafa stutt ríkulega við bakið á ýmsum fulltrúum í báðum deildum bandaríska þingsins og haft þar mikil ítök. Með þessu hafi verið komið í veg fyrir að vöxtur undirmálslánaviðskipta hefði verið stöðvaður þegar á árinu 2004. Enn benti Lepage á reglur sem komu í kjölfar Enron hneykslisins, svo sem hina frægu mark-to-market-reglu, sem leiði miklu fyrr til örvæntingar og hruns á markaði en ella væri. Við þetta má enn bæta að það eru opinberir aðilar sem gefa út peninga og gefa tóninn um vexti á þeim. Offramboð á ódýrum peningum opinberra aðila gerði vandann enn stærri.

Lýsing Lepage á vandamálunum í Bandaríkjunum, eru ekki afsökun á þeim heimatilbúnu vandamálum sem glímt er við í hverju samfélagi. Þó er ljóst að vandinn hefði hvergi nærri verið eins stór ef fjármálakerfi öflugasta efnahagsveldis heimsins hefði staðið sterkt. Hafi fólk fyrir því að fara ofan í saumana á þróun mála í sínu heimalandi, munu menn átta sig fljótt á því, að opinberir aðilar hafa leikið stærra hlutverk en ætla mætti af yfirborðslegri umræðu um kapítalisma og frjálshyggju. Vissulega var miklu meira frelsi í heiminum til alþjóðlegra viðskipta en þekkst hefur um langa hríð. Og sú staðreynd hafði vissulega mikil áhrif á þróunina. Margir frjálsir menn tóku óábyrgar ákvarðanir, sem höfðu skaðleg áhrif. Slíkt hefði átt að leiða til að bankar hikstuðu, en ekki til þess að þeir hryndu hver um annan þveran. Rót vandans er ekki eftirsókn eftir þeirri heilbrigðu samfélagsmynd sem áður var lýst, að frjálslyndir menn aðhyllist. Heldur er rót vandans hin stöðuga tilhneiging opinberra aðila til að stýra samfélaginu í átt til ákveðinnar niðurstöðu um siðferðilegt réttlæti og jöfnuð, sem snýst upp í andhverfu sína og endar með því að stórskaða allan almenning með skerðingu lífskjara og frelsis.