They call it feminism, but the Republicans have done women a disservice. They have selected a female candidate who is a cartoon – the joker in the pack who will end up just a joke. |
– Alice Miles, The Times, 3. september 2008. |
What Democrats and progressives generally, will have a harder time accepting is that Gov Palin’s nomination could be a milestone for American women: in many ways she is an even better feminist icon than America’s reigning top gal, Hillary Clinton. In contrast with Mrs. Clinton, whose most important political decision was whom she married, Mrs Palin is a genuinely self-made woman, who broke into politics without the head start of a powerful husband or father. |
– Chrystia Freeland, Financial Times, 3. september 2008. |
S koðanir á Sarah Palin, varaforsetaefni John McCain eru skiptar, enda ekki nema eðlilegt. Hún er jú frambjóðandi repúblíkana sem hljóta þá að vera með henni en ekki demókrata, sem hljóta þá að vera á móti henni. En þó skoðanir á Söru séu skiptar þá virðast þær, merkilegt nokk, ekki alveg skiptast eftir þessum landamærum, repúblíkana og demókrata. Þar koma önnur landamæri við sögu.
„Þegar skoðunarmenn McCain framboðsins fóru, á hundavaði að því sagt er, í gegnum beinagrindaskápinn heima hjá Palin, þá fór ein beinagrindanna alveg framhjá þeim. Nefnilega sú að Sarah Palin er alls ekki kona! Þessi yfirsjón skýrist kannski af því að skoðunarmennirnir hafi allir verið karlkyns, sómakærir, íhaldsmenn sem hafi ekki kunnað við að biðja Palin um að sýna fram á að hún væri kona …“ |
Sú litla gagnrýni, á Palin, sem komið hefur fram innan repúblíkanaflokksins hefur einna helst lent á félaga hennar, John McCain, fyrir að velja hana í snarhasti án þess að kanna til fulls bakgrunn hennar. Á móti því vegur að John McCain hefur ekki síður verið hrósað fyrir að velja Palin sem framboðsfélaga sinn. Valið á hinni dirfskufullu og duglegu Palin, sem stendur uppi í hárinu á hverjum sem er, sýnir um leið dirfsku John og saman ætla þau að standa uppi í hárinu á Washingtonvaldinu og afnema meðal annars svo kallaðar eyrnamerkingar í fjárlögum sem eru vondar fréttir fyrir þá bandarísku Siglfirðinga sem þurfa nauðsynlega að komast, hvað sem það kostar, á örskömmum tíma til hins bandaríska Ólafsfjarðar. Með öðrum orðum þá verða minni líkur á því að grafin verði Héðinsfjarðargöng í Bandaríkjunum á næsta kjörtímabili, komist þau tvö í Hvíta húsið.
Andstæðingar John McCain hafa líka gagnrýnt hann fyrir valið á Palin og þá sérstaklega fyrir að hafa ekki farið nógu vel ofan í saumana á fortíð hennar. Þeir telja sig vita fyrir víst að heima hjá henni sé skápur fullur af beinagrindum sem John hafi ekki haft hugmynd um en John svarar að beinagrindurnar séu þvert á móti örfáar og hann hafi vitað af þeim öllum, áður en hann valdi hana. Unglingsólétta dóttur Palin sem allir segja að enginn eigi að tala um en allir tala samt um var ein þessara beinagrinda. Sumar þessara sögusagna, eða beinagrinda hefur Palin sjálf staðfest, eins og til dæmis þá að eiginmaður hennar fékk sekt fyrir ölvunarakstur fyrir tuttugu árum síðan. Aðrar hafa ekki staðist, eins og sögusögnin um að yngsti sonur Palin væri í raun barn dóttur hennar.
Þegar skoðunarmenn McCain framboðsins fóru, á hundavaði að því sagt er, í gegnum beinagrindaskápinn heima hjá Palin, þá fór ein beinagrindanna alveg framhjá þeim. Nefnilega sú að Sarah Palin er alls ekki kona! Þessi yfirsjón skýrist kannski af því að skoðunarmennirnir hafi allir verið karlkyns, sómakærir, íhaldsmenn sem hafi ekki kunnað við að biðja Palin um að sýna fram á að hún væri kona heldur einfaldlega tekið hennar orð fyrir því. Eða hitt, sem líklegra er, að engum hafi dottið í hug að véfengja það sérstaklega enda gefur útlit Sarah Palin það frekar til kynna en hitt að hún sé kona auk þess sem hún segist sjálf vera kona, fimm krakkar kalla hana mömmu og sjóari á vélsleða kallar hana konuna sína.
Eins og margir vita, þá skiptust demókratar mjög í tvö horn með stuðning sinn við þau Hillary Clinton og Barack Obama í nýloknu prófkjöri. Nú, þegar Obama hefur unnið skiptast stuðningsmenn Clinton annars vegar í þá sem ætla að styðja Obama og hinsvegar þá sem ætla ekki að styðja Obama en samt að kjósa þann fjórða nóvember næstkomandi. Það þarf ekki að reikna lengi til að komast að þeirri niðurstöðu að það eru atkvæði sem falla þeim Palin og McCain í vil. Stór hluti stuðningsmanna Clinton vildi nefnilega fyrst og fremst konu í Hvíta húsið og fyrirgefa seint Obama og stuðningsmönnum hans karlrembuna í kosningabaráttunni. Þessi stóri hluti stuðningsmanna Clinton, sem vildi fyrst og fremst konu, skiptist núna í þessi tvö lið: annars vegar þá sem eru samkvæmir sjálfum sér í því, sem auðvitað er vitleysa að vissu marki, að vilja konu hvað sem tautar og raular og ætla því að kjósa John McCain til að hefna sín á Barack Obama og koma Palin í gegnum glerþakið alræmda sem Hillary Clinton gerði sprungur í og hinsvegar þá sem hreinlega halda því fram að Palin sé ekki kona og meða annars þess vegna eigi að kjósa Obama.
Þessi ömurlega gagnrýni margra femínista á að sumar konur séu bara alls ekki konur er því miður gamalkunn, allt frá því Sojourner Truth flutti ræðu sína, sem kölluð hefur verið Aint I a woman?, til dagsins í dag þegar Sarah Palin passar ekki í þá staðalmynd sem sumir femínistar hafa um konuna til að geta talist kona í þeirra augum. Sojourner Truth og Sarah Palin eiga kannski ekki margt annað sameiginlegt annað en að hafa átt mörg börn en þær hafa þó báðar, hvor á sinn hátt, orðið fyrir barðinu á þeim feminístum sem berjast frekar gegn því að allar konur séu konur heldur en fyrir því að allar konur séu menn.