F yrir þrjátíu árum tæpum var gefin út bók þar sem þekktir Íslendingar gáfu uppskrift að eftirlætisrétti sínum og fylgdu henni úr hlaði örfáum orðum. Ekki var að spyrja að því að margir reyndust þá vera hinir mestu heimsborgarar og höfðu margt um mat sinn að segja og ekki allt lágfleygt. Einn maður skar sig þó svolítið úr og kvaðst kynna hér þann rétt sem, ef hann réði einn á heimili, yrði borinn fram kvölds og morgna, þrjúhundruðsextíuogfimm daga ársins. Og að því sögðu birtist heldur einföld uppskrift að soðinni ýsu með kartöflum.
Umræddur matgæðingur hafði þá sjötugur nýlátið af störfum sem biskup yfir Íslandi. Átti þó eftir að láta svo til sín taka í meira en aldarfjórðung að enginn hefur farið nær almennri viðurkenningu sem helsti andans maður landsins. Fram á síðasta dag skrifaði, þýddi og predikaði biskupinn og einlægt svo gert að þeir fjölmörgu sem þar gerðu sig heimakomna guldu fyrir það verð að þykja annarra manna verk um sama efni heldur tilkomulítil. Hvort sem menn lesa predikanir ungs prests húsnæðislauss Hallgrímssafnaðar á heimsstyrjaldarárunum síðari eða hinstu predikanir nær tíræðs biskups, tæpum sjötíu árum síðar, blasa sömu einkennin við: Ákaflega skýrt, fallegt en þó tilgerðarlaust málfar; eindrægni í viðhorfum þar sem engin dul er dregin á það hvað ræðumanni þykir rétt og hvað rangt; og umfram allt hin heita trú þess manns sem um áratugi þreytist ekki á að minna þjóð sína á að Jesús Kristur sé í gær og í dag hinn sami og um aldir. Guð væri einn og sannur, óumbreytanlegur hvað sem hverjum fyndist.
Þegar Sigurbjörn Einarsson var ungur og hóf síðar prestskap var íslenskri kirkju ýmislegt mótdrægt. Hin frjálslynda nýguðfræði hafði borist hingað, ekki síst fyrir tilverknað Jóns Helgasonar biskups, og sr. Árni Þórarinsson sagði í sinni skemmtilegu ævisögu að væri „hinn þykkasti og haldbezti heiðindómur, sem komið hefur yfir þessa jörð, svo að hverju hans spori fylgir dapur dauði en hvergi líf“. Önnur plága var spíritisminn, sem mælskir og vinsælir menn eins og Einar Kvaran og sr. Haraldur Níelsson boðuðu með meiri látum en Jónas Haralz Evrópusambandið. Nokkru eftir biskupsdóm Jóns tók Ásmundur Guðmundsson við embætti hans, og ef marka má Árna Þórarinsson áfram, þá tók ekki betra við því „Ási er verri, því að hann gæti afskristnað heil sólkerfi og væri ekki lengi að því.“
En árið 1959 var Sigurbjörn Einarsson kallaður til að verða biskup yfir Íslandi. Og þá var búið með það að orð Guðs væri samkomulagsatriði og að kristindómurinn væri bara það sem hverjum og einum hentaði best. Nútíminn breytti Guði ekki hætishót, hvernig sem hann berði sér á brjóst. Það sem Guð hefði einu sinni birt mönnunum það stæði um allar aldir.
En ef þú hefðir einhvern tíma tóm til þess eða eirð að hugleiða alvarlega spurningu í auðmýkt, þá gætirðu máske hugsað út í þetta: Hvað hefur breyst af því, sem máli skiptir fyrir oss, um innsta eðli vort og stöðu vora í alheiminum, síðan á jarðvistardögum Jesú Krists? Mun ekki mannshjartað vera svipað – í harmi sínum, í gleði sinni, í synd og sælu, í ást og hatri? Mun ekki móðirin hugsa til barnsins síns á svipaðan hátt og þá? Mun ekki elskhuganum vera líkt innanbrjósts? Mun ekki morðinginn og þjófurinn og svíðingurinn og sælkerinn og kúgarinn og hórkarlinn vera áþekkir innvortis? Vér fæðumst ekki í heiminn með neitt hátíðlegri hætti en fáfróðir forfeður gerðu og á banasænginni erum vér mjög í sömu sporum og þeir. Og sólin vekur lífið á sama hátt og þá og blóðið er eins samsett í æðum vorum og í Páli postula og vér horfum á sömu stjörnumerkin og Lúther og lögmál himins og jarðar og himinhvolfs, líkama og sálar eru þau sömu og þegar Kristur var krossfestur. Einstein og Edison, bílar og tannburstar hafa ekki breytt minnstu vitund um þetta, ekki kjarnorkan heldur. Og almáttugur Guð er nákvæmlega eins. Hvorki Alþingi, Sálarrannsóknarfélagið, Háskólinn eða Prestastefnan geta vikið honum til eða því, sem honum hefur þóknast að birta og boða mönnunum, ekki fremur en góufífillinn getur flutt heimskautið úr stað, eða sveigt jörðina til á möndli sínum. Blómið á nákvæmlega sömu úrkosti til lífsins nú eins og þá, og sömu leið í dauðann. Mannssálin líka. |
Raunar er furðuleg hugmynd, og það ættu jafnt trúaðir og trúlausir að geta sammælst um, að kristin kirkja geti breytt um kenningu eftir því hvernig vindar blása eða hvaða gildismat er vinsælt í þjóðfélaginu hverju sinni. Annað hvort er orðið komið frá almáttugum Guði, skapara himins, jarðar og alls annars, og þá stendur það einfaldlega svo lengi sem sama aðila þóknast ekki að breyta því – eða þá að orðið er einkaeign mannanna, nokkuð sem þeir hafa sjálfir gefið sér og eiga allan ráðstöfunarrétt yfir. Kristin kirkja sem fer eftir samfélagsstraumum um það hvað sé rétt eða rangt getur sjálfsagt orðið vinsæl um skeið, en hún hættir að vísu að vera kristin kirkja. Allan sinn tæplega sjötíu ára prestskap var Sigurbjörn Einarsson sannfærður um það að boðskapur sinn væri ekki sinn eigin heldur þess sem hefði sent hann. Væri raunar fjarstæða að boða Guðs ríki öðru vísi en vera sendur til þess.
Það er jafn fjarstætt að flytja boðskap um sjálfan Guð án þess að vera sendur til þess, eins og hitt að þegja um slíkan boðskap, ef maður þekkir hann. Af þessum rökum lifir kirkjan enn í dag. Rök hennar eru þessi: Mín kenning er ekki mín, ég er send, kenningin er hans sem sendi mig. Það liggur í augum uppi, að þetta er eina hugsanlega heimild dauðlegra manna til þess að flytja boðskap um sannan Guð, um viðhorf hans til mannanna, um vilja hans þeim til handa. Hver er ég eða hver ert þú, að við tækjum okkur fyrir hendur að flytja kenningu um Guð og eilífan veruleik hans af eigin efnum, sem eigin uppgötvun og sjálfseign! Getgátur geta menn flutt í eigin umboði, hugmyndir og skoðanir. En kirkjan þekkir þann Guð, sem vildi ekki láta mennina sitja uppi með getgátur einar um sjálfan sig, hugboð og óljósan grun um hið eina í tilverunni, sem raunverulega skiptir máli. Guð hefur talað og talar til vor fyrir Soninn. |
Það segir sig sjálft að þeir sem komast hátt á tíræðisaldur hafa lifað ólíka tíma. Í viðtali við Morgunblaðið fyrir nokkrum árum ræddi Sigurbjörn Einarsson um æsku sína og minntist eins merkisdags ævi sinnar: „Fólk þurfti að hafa mikið fyrir því að eiga í sig og á. Heimilin þurfti að birgja upp af mat á haustin. Allan fatnað þurfti að gera í höndunum og þar mæddi mikið á konunum. Fötin voru heldur ekki eins skjólgóð og núna. Ég var sjaldan þurr í fæturna áður en ég eignaðist mín fyrstu gúmístígvél 11 ára gamall – hinn 25. apríl 1922. Sá dagur er einn af mestu merkisdögunum í lífi mínu.“ En þó Sigurbjörn hafi séð heiminn breytast fyrir augum sér var hann þeirrar skoðunar að margt væri það sem aldrei breyttist.
Tímaleysi fólks nú á dögum er mjög á orði haft. En oft hefur verið bent á það, að þessi títtnefndi skortur á tíma kunni að vera blekking, sjónhverfing, jafnvel flótti. Menn leita langt yfir skammt að lífsfullnægju og hamingju. Kröfur til lífsins hlaðast upp en jafnframt gefa menn sér ekki tíma til að lifa. Sá sem gefur barninu sínu tíma meðan það er barn gefur sjálfum sér mikið. Hann/hún er að njóta tækifæris, sem býðst ekki aftur. Bernskan líður hratt. Sá tími varir ekki lengi, þegar barnið þitt leitar fyrst og fremst til þín og þráir ekki aðra hamingju en vera nærri þér, blanda geði við þig, taka við áhrifum frá þér. Þessi stutti tími er dýrmætur. Fyrir barnið og fyrir þig. Enginn getur gefið barninu sínu gjöf, afmælisgjöf, jólagjöf, fermingargjöf, sem jafnist á við það að gefa því eitthvað af sjálfum sér. Gefa því minningar um hlýja, gjöfula samveru. Sér í lagi minningar um helgi. Um hljóða lotningu í nánd þess Drottins, sem gefur lífið og allt, sem fegrar og bætir það. Það er torvelt að tala á þessum nótum án þess að það verki á einhverja eins og fjaðrir á uppstoppuðum páfugli. Gegn því er fátt til ráða. Þeir sem skynja ekki lífið nema í gegnum gervihami kunna að vera í „takt við tímann.“ En það er feigð í þeim taktslætti. Kenningar sem ganga í berhögg við lífið, afhjúpast fyrr eða síðar. En valda ómældu tjóni og óláni, þegar þeim er fylgt. Og því miður eiga sumar einföldustu og brýnustu staðreyndir mannlegrar tilveru gegn hneigðum að sækja, sem eru meinlegri en vafasamar formúlur kennivalda hvort sem er á sviði sálfræði, uppeldisfræði eða siðfræði. |
Sigurbjörn Einarsson var prestur í tæp sjötíu ár þó hann hafi aðeins í örfá ár þjónað sem sóknarprestur. Biskup var hann í tuttuguogtvö ár og munu margir aldrei hafa litið á aðra menn sem biskupa, slíkur var þessi forveri þeirra að allri gerð. Hver sem trúarafstaða manna var hlustuðu þúsundir í hvert skipti sem biskup talaði. Tungutakið einstakt og þó tilgerðarlaust, minnti á að rangt var, sem blaðamannastéttin reyndi að sanna á hverjum degi, að ekki væri hægt að tala um alvarleg mál af fullu viti á fallegri íslensku. Allt yfirbragð ræðumanns bar vitni um að þar færi holdi klætt samhengi íslenskrar sögu, tenging nútímans við það Ísland sem einu sinni var. Og ekki féll biskup í þá freistni að tala af friðarstóli um fánýt efni eða sjálfsagða hluti sem allir samþykkja umhugsunarlaust. Allt til loka leit hann á það sem skyldu sína að boða þann sannleik sem hann áleit öllu skipta. Í þeirri köllun sinni var hann ekki óræður eins og myndirnar á Mokka heldur andæfði bæði yfirlýstu trúleysi sem og hinu vaxandi sinnuleysi um kristindóm af fullri einurð.
Fjöldinn sér þetta allt. Þorri manna veit þetta og viðurkennir það í orði kveðnu. Allur fjöldinn tekur undir, þegar sagt er, að heimurinn myndi vera mjög miklu farsælli ef Kristur hefði meiri völd í hjörtum mannanna En hvað gerir þessi sami mannfjöldi til þess að efla þau völd? Það er enn sem fyrri: Mannfjöldinn undrast. Hann ber í brjósti vissa lotningu fyrir Kristi, samsinnir með vörunum ýmsum atriðum í kenningu hans. En hvað gerir hann meira? Raunin verður sú sama og forðum: Frelsarinn er jafnvarnarlaus fyrir þessum samsinnandi áhorfendum, jafn allslaus í þessum heimi. Eða hvar ert þú, góður almenningur Íslands, sem horfir á það, að landið er að verða heiðið aftur, og sér, já, mjög margir af yður sjá, hvert sú þróun leiðir? Eruð það ekki þér, sem berið ábyrgð á þessari þróun, þér, sem heyrið kirkjunni til í orði kveðnu, viljið hafa prest, en hirðið svo ekkert um þann prest, ekkert, hvað hann kennir eða hvort hann kennir yfirleitt nokkuð, ekkert, hvað fram fer í þessum 3, 4 eða 5 kirkjum sem hann ber ábyrgð á, eða hvort þar fer yfirleitt nokkuð fram, yður er alveg sama, aðeins ef hann borgar sæmilegt útsvar með tíð og tíma og dugir til vissra veraldlegra útréttinga. Þér dáist að Kristi. En hvenær er Nýja testamentið lesið á heimilum yðar, hvenær er beðin bæn? Þér dáist að Hallgrími. En hvar eru Passíusálmarnir um þessa föstu? |
En þó Sigurbjörn Einarsson hafi talað af alvöru um alvörumál þá var hann fjarri því að vera þurr alvörumaður. Í minningaþætti, sem meðal annars snerist um alþingismanninn og prestfrúna Guðrúnu Lárusdóttur, og ófarir hennar í viðskiptum við Hriflujónas segir Vilmundur Jónsson á einum stað: „Frú Guðrún sneri sér í flýti frá mér og ætlaði ekki að láta mig sjá, hve bágt hún átti með að stilla sig um að skella upp úr. En henni mistókst það. Sannleikurinn var sá, að því fór mjög fjarri, að frú Guðrún væri sneydd kímnigáfu, enda er það jafntítt, að heittrúað fólk á himneska hluti sé kímið, og það er fátítt um þá, sem taka heittrúarafstöðu til veraldlegra hluta.“ Sömu orð má hafa um sr. Sigurbjörn – og var það ekki til marks um óvenjulega kímnigáfu gamals manns, þegar hann, meira en hálftíræður var kallaður fram og maklega veitt verðlaun, kennd við Jónas Hallgrímsson, fyrir framlag sitt til íslenskrar tungu, að þakka sérstaklega rímnakveðskapnum gamla fyrir ást sína á íslenskunni? „Með skelmislegu glotti til Jónasar míns Hallgrímssonar“ bætti hann við, í kveðjuskyni til skáldsins sem hvorki þoldi leirburðarstagl né holtaþokuvæl. Sjálfur var Sigurbjörn afbragðs trúarskáld sem í framtíðinni verður líklega skipaður sess ekki langt frá sjálfum Valdimar Briem.
En það var vel að menn hittu á að veita Sigurbirni þessi íslenskuverðlaun Jónasar. Þau fóru honum betur en flestum öðrum. Í þakkarræðu sinni gerði hann hins vegar fleira en glotta framan í Jónas. Hann sagði að það væri „herfileg aðför gegn tungunni að hætta að láta fólk læra kvæði utanbókar, því með utanbókarlærdómi lærir maður mest varðandi tunguna“. Þetta er hárrétt hjá biskupi og ómælt ógagnið sem kynslóð ungmenna hefur haft af því tiltæki að draga úr utanbókarlærdómi ljóða í skólum en leggja þess í stað áherslu á „skilning“. Þar sem víða annars staðar mættu menn hlusta á lífsvisku gamals manns. Og fleira sagði Sigurbjörn um uppeldismál um dagana:
Mér er það minnisstætt, að þegar við hjónin vorum ung var það ófrávíkjanleg krafa vísindanna, að ungbörn skyldu látin afskiptalaus sem mest. Það átti að gefa þeim á vissum tímum, á fjögurra stunda fresti. Ekki að snerta við þeim þar á milli, hvernig sem þau létu. Þau höfðu bara gott af því að orga! Ekki mátti vagga þeim, ekki dilla þeim, ekki gæla við þau. Slíkt frumstætt háttalag átti að skaða mannverurnar í þeim heimi, sem vísindin voru að taka í sína umsjá. … Í þá daga þurftu vísindin ekki að læra af náttúrunni. Ég lærði aldrei mikið í náttúrufræði, því miður. En mér finnst ég hafa tekið eftir því, að varla sé til svo vesalt kvikyndi með volgu blóði, að það láti ekki vel að barni sínu með sínum hætti. Allt ungviði á hærri þróunarstigum þarf á því að halda, að fyrsta viðmót þeirrar veraldar, sem bíður þess, veki því traust og þar með kjark og lífsvilja. Mannsbarnið er því síður undantekning í þessu sem það er flóknara í gerðinni, þarf meiri kröfum að svara og nýtur ríkulegri kosta í lífinu en dýrið. Áður nefndar vísindakenningar, sem foreldrar áttu að beygja sig fyrir, þegar 20. öldin var ung, steyptust um koll við lítinn orðstír. |
Og í viðtali, í tilefni stórafmælis fyrir tveimur árum, hafði biskup fleira að segja öldinni. Eftir að hafa látið í ljós áhyggju sína af því, hversu sýnileg trúrækni hefði minnkað sagði Sigurbjörn:
Við höfum heyrt lækna og heilbrigðisstéttir tala um lífsstílsvandamál, það er að segja geðræn heilsufarsleg vandamál sem beinlínis stafa af lífsstíl. Já hvaða lífsstíl? Óeðlilegum lífskröfum, óeðlilega frekju gagnvart lífinu og dekur við sjálfan sig, sem aldrei fer vel. Sífelld áhersla á einkaréttindi og kröfur. Maður á heimtingu á þessu og heimtingu á hinu, en hvaða skyldum maður hefur að gegna, það er minna spurt um það og minna um það rætt. |
Í viðtalinu rifjaði Sigurbjörn upp kynni sín af fátækt á yngri árum og minnist erfiðrar lífsbaráttu verkamanna sem höfðu lítið og stopult að gera í Reykjavík. Allir þeir sem því hefðu kynnst hefðu fagnað því þegar velferðarkerfi hefði borist hingað. En svo vakna ýmsar spurningar: „Hvernig fer opinber forsjá með fólk? Hvaða uppeldisáhrif hefur það? Gætir þess ekki nokkuð að fólk ætlist til alls af öðrum og kannski einskis af sjálfu sér? Það eru þá fyrst og fremst aðrir sem eiga að sjá fyrir hlutunum. Þetta er ekki gæfuvegur:“
Sigurbjörn Einarsson var íslenskur þjóðernissinni, í einni saman góðri merkingu þess hugtaks. Honum var ákaflega annt um velferð íslensku þjóðarinnar og þess að frjálst og sjálfstætt íslenskt þjóðríki mætti blómstra um alla framtíð. Íslenskri tungu unni hann, sögu landsins og menningu þess. En því fór fjarri að hann liti af kulda til annarra ríkja eða þess sem þar var best gert, sem sést best af því að ævinni varði hann í þjónustu trúar sem vitanlega er ekki íslensk að uppruna.
Svo má elska einn, að enginn sé hataður þar fyrir. Foreldri rækir afkvæmi sitt og tekur ekkert frá öðrum með því. Barn ann foreldri og þarf engum að verða til óþurftar af þeim sökum. Það eru ekki sköp, heldur ósköp, ef slíkt hendir. Hvor tveggja afstaðan er ásköpuð að uppruna til og undirrót, en sem ásköpuð eigind undirstaða dýrmætra manndyggða og stoðarsteinn heilbrigðs, farsæls mannlífs. Sama gegnir um ættjarðarástina. Hún er hvataafl mikilvægrar skyldu, undirstaða dýrmætrar lífsafstöðu. Rækt hennar er dyggð, órækt svik við manngildi sitt, brigð við Skapara sinn. Ásköpuð, ósjálfráð afstaða hugans til þess umhverfis, sem maður er sprottinn úr og hluti af, er ein af aðferðum Skaparans til þess að gera mann að hollum lífsþegni, alveg eins og hinar aðrar tegundir ástar, sem á var minnzt. Þar er sá vettvangur, sem hverjum einstökum er fyrst og fremst falinn til þess að gegna skyldu sinni, greiða skuld sína við lífið. Þú ert heiminum hollur þegn, mannkyninu góður sonur að sama skapi, sem þú rækir land þitt og þjóð, öldungis eins og þjóðhollustan er í fyrsta lagi og fremstum hluta undir því komin, hver þú ert maka þínum, foreldri, barni. Ættjarðarást, sem hverjum heilbrigðum manni er í blóð borin, á að leiða til þjóðrækni og þjóðhollustu. Það er manngildiskrafa. Og svo sem á öðrum sviðum gilda hér meira athafnir en orð, dagleg afstaða og viðbrögð meira en geðhrif hátíðlegra stunda, þótt þau séu líka góð og nauðsynleg. Trúmennska í daglegu starfi, rækt hollra hátta heima og heiman, góðfýsi og athugun, aðgæzla og hófstilling í úrskurðum um menn og málefni – þetta er nytjameira en lófatak eða yfirlýsingar í fjöldans fylgd og straumi á stórum stundum. Þannig ræktast og bezt sá hæfileiki, sem mest veltur á, ef lýðfrelsi og og atkvæðisréttur á að notast og blessast einstaklingi og þjóð, en það er dómgreind og nærfærni um það, hvað aðstæður heimta af hverjum þegni og þjóðarheildinni á hverri líðandi stundu. |
Og í síðustu orðunum sem sr. Sigurbjörn Einarsson flutti opinberlega, leyndi sér ekki umhyggja hans fyrir framtíð sjálfstæðs Íslands sem og trúin sem ekki brást honum, fullvissan um það sem eigi er auðið að sjá.
Það kemur fyrir, að mennirnir blindast og krossfesta sína eigin gæfu, hjálp og blessun. Verst fer þeim ævinlega, þegar þeir blindast af ímynduðum glansi af sjálfum sér – ég er ekki viss nema einhverjir sperrtir hanar á tildurshaugum samtímans mættu taka þetta til sín. Og það er ekki hættulaust að seljast undir framandi íhlutanir og yfirráð. Hákon konungur reyndist Íslandi óheillavaldur. En verri en Hákon eru þau máttarvöld sum, sem menn eru svo aumlega flatir fyrir nú á dögum. Ég nefni aðeins það sjúka yfirlæti, sem þykist upp úr því vaxið að gera ráð fyrir neinu æðra sjálfu sér í alheimi, og þann gráðuga Mammon., sem virðir ekkert, enga helgidóma, engar hugsjónir, engin gildi. En Jesús Kristur er hinn sami. Það er dýrmætust sameign okkar með kynslóðum liðinna alda og örugglega liggur þeim öllum í eilífð sinni það þyngst á hjarta, að við bregðum ekki trúnaði við hann, konunginn eina sanna. Kirkjan hans á mikla fortíð í þessu landi. En hún er engin fortíð. Hinn upprisni Jesús Kristur er framtíðin, hann er sá dagboði, sem kunngjörir það, að Guð kærleikans hefur fyrsta og síðasta orðið í tilverunni allri. Hann sigrar allt um síðir. Ferill hans, samleið hans með þessari brestóttu, blessuðu þjóð og öllu mannkyni er píslarganga, krossferill. En hann er upprisinn og stefnir með allt inn í ljóma upprisunnar, endurfæddrar tilveru. Fögnum því og þökkum það að mega fylgja honum, stríða með honum, sigra með honum, sakir eilífrar miskunnar hans. |