V arla líður sá fréttatíma að ekki sé talað um „aðgerðaleysi“ ríkisstjórnarinnar við efnahagsvandanum eða það sem nú er stundum kallað „meint aðgerðaleysi“ ríkisstjórnarinnar. Þessi gagnrýni virðist hafa farið mikið í taugarnar á talsmönnum ríkisstjórnarinnar og í viðtali við Viðskiptablaðið um síðustu helgi, neitaði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra því að hér væri kreppa:
Við eigum við ákveðna erfiðleika að etja í okkar efnahagsmálum, en þó má ekki tala eins og það sé kreppa í landinu. Hér er engin kreppa. Það hefur dregið úr kaupum á bílum og það hefur dregist saman á fasteignamarkaði, en það hefur ekki dregið úr veltu í verslun. Helgarblöðin eru full af atvinnuauglýsingum og nýleg könnun hjá Samtökum atvinnulífsins bendir til þess að einungis þriðjungur fyrirtækja hafi lent í erfiðleikum með að fjármagna sig. Það er kraftur í mörgum atvinnugreinum, ekki síst útflutningsgreinum. Þannig að þótt það sé samdráttur og erfiðleikar sem við þurfum að vinna okkur í gegnum er engin ástæða til að stækka það út úr öllu samhengi. |
Það væri fróðlegt að vita hvernig utanríkisráðherra skilgreinir kreppu. „Einungis“ þriðjungur fyrirtækja lent í vandræðum með að fjármagna sig, já það er freistandi að ráða sig í vinnu hjá slíku fyrirtæki.
En vitanlega og vonandi er rétt að hjá utanríkisráðherra að betur gangi nú hjá útflutningsfyrirtækjum en á liðnum árum á meðan gengi krónunnar var alltof hátt skráð eins og sjá mátti á geigvænlegum vöruskiptahalla og á sneisafullum bílastæðum verslunarmiðstöðva borgarinnar. Þangað sem almenningur flykktist og reyndi að leggja amerískum pikk-öpum á stærð við strætisvagna í bílastæði sem höfðu verið hönnuð fyrir netta japanska fólksbíla.
Þeir sem telja eins og Vefþjóðviljinn að verð sé nauðsyn til að einstaklingar geti tekið skynsamlegar ákvarðanir hljóta vitanlega að hafa séð að það var eitthvað að skilaboðunum þegar á sama tíma og fréttir bárust af samdrætti hjá bandarískum bílaframleiðendum vegna þess hversu miklir bensínhákar þessir bílar þykja, voru götur Reykjavíkur að fyllast af stærstu módelunum.
En hvað á ríkið að gera? Nú er það ekki svo að Vefþjóðviljinn vilji boða barlóm og vonleysi. En rétta spurningin er hvað átti ríkið að vera búið að gera. Þótt samdráttur hafi verið fyrirséður hér á þessu ári að þá gat enginn séð fyrir að á sama tíma yrði alþjóðleg lausafjárkrísa – aðrir en þeir sem spá því alltaf að allt sé að fara á versta veg, en þeir hafa líka sem betur fer oftar rangt fyrir sér en rétt. Þannig að það má til sanns vegar færa að ríkið gat ekki verið undir öll þau áföll búið sem nú hafa á okkur dunið.
Rétt eins og uppsveiflan hér á landi og þá sérstaklega greiður aðgangur að ódýru lánsfé var að sumu leyti hluti alþjóðlegrar þróunar að þá er aðlögunin það líka. Það er ekki bara á Íslandi sem fasteignabólur springa heldur hefur víða orðið mun harðari aðlögun. Aðalatriðið er að leyfa þessari aðlögun að eiga sér stað sem hraðast. Ríkið á ekki frekar nú að áður að skekkja skilaboð markaðarins með því að veita niðurgreiddu lánsfé inn á húnsæðismarkaðinn. Hér á landi hafa verið uppi hugmyndir um að dæla enn meiru fé í gegnum Íbúðalánasjóð til að styðja við fasteignamarkaðinn. Þar með væri lausn vandans frestað og hann aukinn um leið. Raunar væri vandinn líka færður til, ef ríkinu tækist með þessum hætti að glepja fólk til að kaupa fasteignir á of háu verði. Tapið væri fært frá seljanda til kaupanda. Nokkrir brauðmolar yrðu svo eftir hjá fasteignasölum, en félag fasteignasala er einmitt að heimta slíkar aðgerðir daglega um þessar mundir.
Í Bandaríkjunum er svipað fyrirkomulag og hér á landi þar sem opinberu stofnanirnar Fannie Mae og Freddie Mac hafa dælt niðurgreiddu lánsfé inn á fasteignamarkaðinn. Í apríl síðastliðnum ákváðu stjórnvöld að bregðast við lækkun fasteignaverðs með því að auka enn frekar lánastarfsemi þessara fyrirtækja. Og það þrátt fyrir að bókhaldshneyksli hafi komið upp í þeim báðum fyrir nokkrum árum. Nú sitja skattgreiðendur í Bandaríkjunum uppi með tjónið.
Það er ljóst að staðan væri miklu betri ef fast hefði verið haldið utan um ríkisfjármálin. Rétt eins og kaupmáttur heimilanna í landinu hefur verið rangt skráður um langt skeið, hefur kaupmáttur ríkisins verið rangt skráður. Og rétt eins og hætt við að mörg heimili hafi gert langtímaáætlanir byggðar á fölskum forsendum hefur ríkið eytt í framkvæmdir sem erfitt verður að ljúka við nú þegar rekstur ríkissjóðs stefnir í halla. Stærst þeirra er vitanlega Tónlistarhúsið, en framkvæmdir þar hljóta að verða stöðvaðar fljótlega, enda hefur bygging flestra menningarhúsa í borginni, svo sem Þjóðarbókhlöðu, Hallgrímskirkju, Borgarleikhússins og Útvarpshússins tekið langan tíma rétt eins og flestra menningarhúsa í Evrópu.
Það er ekki nóg að ríkið fari að sýna meira aðhald í fjármálum sínum, það verður einnig að koma böndum á fjármál sveitarfélaga.
Loks er spurning um gjaldmiðil, það mál er auðleyst. Íslenska ríkið getur gengið á undan með góðu fordæmi og hætt að gefa út gjaldmiðil. Það getur þess vegna selt myntsláttu Seðlabankans ef kaupandi finnst. Og fyrirtækin og heimilin í landinu notast við þá mynt sem þau telja sér best henta.