Helgarsprokið 31. ágúst 2008

244. tbl. 12. árg.

A f og til víkur Vefþjóðviljinn að fjölmiðlabókum Ólafs Teits Guðnasonar og virðist ekkert sjá athugavert við að selja í bóksölu sinni jafn mikla fornaldarsögu og umfjöllun um fjölmiðla árin 2004, 2005 og 2006. En á því er meðal annars sú skýring að þau ótalmörgu, rökstuddu og alvarlegu dæmi sem Ólafur Teitur tekur í bókum sínum eiga sér sína tvífara í fréttum dagsins. Þegar fjölmiðlamenn fá lítið sem ekkert aðhald ganga þeir á lagið og halda jafnvel að fátt sé athugavert við störf sín.

Nú er barist um forsetaembætti Bandaríkjanna og þá vaknar jafnan upp hefðbundin trú vinstripressunnar á Vesturlöndum. Repúblikanar eru rógberar en demókratar uppbyggilegir, vel menntaðir framtíðarmenn. Vestræna vinstripressan er jafnan sár og vonsvikin þegar „repúblikanar hefja skítkastið“, eða „neikvæða áróðurinn“, en dáist að því hversu lengi demókrötum tekst að halda öllu á jákvæðum nótum. En því hrósi fylgja iðulega áhyggjur af því að hinum ósvífnu repúblikönum takist að snúa taflinu sér í við með neikvæðninni.

Í síðustu viku var Ingólfur Bjarni Sigfússon fréttamaður Rúv. mættur á flokksþing demókrata og sagði að sumir fréttaskýrendur hefðu áhyggjur af því að demókratar hefðu ekki gagnrýnt repúblikana nægilega og ekki talað nóg um að McCain hefði ekkert að bjóða sem Bush hefði ekki. En Ingólfur Bjarni benti á að „þessi skítkastlausa aðferð virðist hafa skilað þeim ágætu fylgi“.

Nei, Obama er ekki einn af þessum leiðindagaurum sem er alltaf að finna að. Barátta hans undanfarin tvö ár hefur reyndar ekki snúist um neitt annað en að allt sé svo ómögulegt undir núverandi stjórn að það verði að breyta öllu. Við getum breytt, hefur hann endurtekið í tvö ár. Svo mjög hefur núverandi forseti verið gagnrýndur og rægður alla sína valdatíð að Obama lætur á hverjum degi birta myndir af þeim Bush og McCain saman. Vinstrimenn voru byrjaðir að rægja Bush og úthrópa hann sem illmenni og hálfvita alveg um leið og kannanir bentu til þess að hann yrði sigurstranglegur forsetaframbjóðandi og Al Gore skeinuhættur. Ofstopinn í garð Bush byrjaði ekki með Íraksstríðinu eða neinu embættisverki hans, heldur er búinn að standa upp úr vinstripressunni í rúm átta ár.

En muni menn samt, það eru repúblikanar sem eru alltaf að rægja menn, alltaf með þennan neikvæða áróður, en demókratarnir eru mannlegir, jákvæðir og uppbyggilegir. Og Bush er hálfviti og það eru líklega bara repúblikanar sem segja það, því demókratar tala ekki þannig um andstæðinga sína.

Í sinni merku bók, Fjölmiðlum 2004, fjallar Ólafur Teitur Guðnason stuttlega um íslenskar fréttir af kosningabaráttu þeirra Bushs og Kerrys.

Undanfarið hafa dunið á okkur fréttir um að John Kerry mótmæli „neikvæðum“ auglýsingum frá nokkrum hermönnum sem börðust við hlið hans í Víetnam og segja að hann hafi logið til um eigin hetjudáðir. Fyrsta frétt Morgunblaðsins um ásakanir mannanna birtist á sunnudaginn og var undir fyrirsögninni „Kerry kærir auglýsingar.“ Í fréttum Stöðvar 2 sama kvöld sagði Páll Magnússon í inngangi: „Kerry svarar nú fullum hálsi auglýsingum þar sem hann er sagður ljúga til um eigin hetjudáðir.“ Ingólfur Bjarni Sigfússon fréttamaður virtist tala úr kosningamiðstöð Kerrys og sagði: „Auglýsingarnar þykja bæði rætnar og rangar þar sem Kerry ER striðshetja sem hefur hlotið heiðursmerki Bandaríkjahers.“ Þykja þær rætnar og rangar já? Hverjum þykir það? Ingólfi Bjarna og öðrum gestum á flokksþingi demókrata á dögunum? …

Þegar Bill Clinton kom hingað spurðu fréttamenn hann um málið og birtu svör hans um að ásakanirnar væru dæmigerðar lygar hægrimanna. Hann var ekkert spurður út í neikvæðar auglýsingar gegn Bush. Á miðvikudagskvöld las Haukur Holm þennan magnaða inngang á Stöð 2: „Og þá yfir í bandarísk stjórnmál því að ósvífnar auglýsingar þar sem því er haldið fram að John Kerry hafi logið til um herþjónustu sína í Víetnam hafa vakið hörð viðbrögð og deilur í Bandaríkjunum.“

Eins og við var að búast var Ingólfur Bjarni Sigfússon með fréttina. Hann sýndi brot úr auglýsingu hermannanna fyrrverandi og sagði svo: „[Það] liggur fyrir að sannleikur þeirra er í besta falli loðinn.“ Aðalefni fréttarinnar var að komið hefðu í ljós tengsl á milli Bush forseta og þeirra sem gerðu auglýsinguna.

Hér er ekki pláss til þess að fara ofan í saumana á ásökunum í garð Kerry. Það sem hér er bent á er einungis þetta: Enginn fjölmiðill hefur gert það! Hermennirnir sem börðust með Kerry í Víetnam sögðu fyrst frá meintum blekkingum hans um eigin hetjudáðir í maí! Enginn fjölmiðill sagði frá því. Þeir gáfu út bók þar sem margir tugir fyrrverandi hermanna vitnuðu allir á sömu lund um ósannsögli Kerry. Enginn sagði frá því. En þegar Kerry svarar loksins, meira en 100 dögum eftir að ásakanirnar komu fyrst fram, þá eru skyndilega allir fréttatímar fullir! Og um hvað er fjallað? Jú, málið snýst allt um að málflutningur hermannanna sé „neikvæður“, „ósvífinn“, „rætinn“ og „rangur“ og að tengsl séu á milli hermannanna og Bush forseta! Ekkert er fjallað efnislega um málið. Bara endalaust röflað um „neikvæðar“ auglýsingar – og nóta bena bara um neikvæðar auglýsingar repúblikana, eins og demókratar stundi ekki slíkt. Ekki er spurt hvers vegna Kerry þiggur ekki boð Bush um að banna allar auglýsingar slíkra hópa. Ástæðan er auðvitað að demókratar stunda nákvæmlega það sama. En fréttamönnum er innilega sama um það.

Fjölmiðlabækur Ólafs Teits fást í Bóksölu Andríkis. Því miður eru þær enn nauðsynleg lesning öllum þeim sem þurfa að fylgjast með íslenskum fréttum.