Mánudagur 1. september 2008

245. tbl. 12. árg.

E ins og Vefþjóðviljinn fjallaði um nýverið flutti breski Evrópusambandsþingmaðurinn Nigel Farage ræðu á fundi sem haldinn var á dögunum af Heimssýn og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands. Með því athyglisverðara sem fram kom í þeirri ræðu var að breskt viðskiptalíf væri sífellt að verða andvígara Evrópusambandinu og þá einkum og sér í lagi vegna þess að fleiri og fleiri í röðum þess teldu sambandið vera orðið heftandi þegar kæmi að alþjóðlegum viðskiptum.

Farage rifjaði upp að þegar Bretland gekk í ESB í byrjun 8. áratugarins hefði viðskiptalífið þar í landi eindregið stutt það skref vegna þess að það sá sambandið fyrir sér sem ákveðna opnun í verslun og viðskiptum. Í dag upplifðu breskir viðskiptamenn ESB hins vegar fyrst og fremst sem ákveðna lokun sem takmarkaði möguleika Breta á að eiga í viðskiptum við ríki og markaðssvæði utan þess. Bretar gætu ekki einu sinni samið um fríverslun við samveldislönd sín eins og Indland og Kanada vegna þess að þeir hefðu með aðildinni að ESB afsalað sér frelsi sínu til að semja um viðskipti við önnur ríki. ESB stæði Bretum þannig einfaldlega fyrir þrifum þegar kæmi að alþjóðaviðskiptum og alþjóðavæðingu og ekki bætti úr skák að innan þess væri sífellt meiri áhersla lögð á hvers kyns verndarstefnu.

Farage sagðist ekki sjá betur en að málflutningur þeirra Íslendinga sem vilja ganga í ESB væri á svipuðum nótum og hann var í Bretlandi þegar Bretar gengu í sambandið. Einblínt væri á ESB eins og ekkert væri þar fyrir utan sem vert væri að gefa gaum. Nokkuð sem vitaskuld felur í sér margfalt meiri þröngsýni í dag en það gerði fyrir 35 árum.