Laugardagur 30. ágúst 2008

243. tbl. 12. árg.
Í borgarstjórn ríkir þverpólitísk samstaða um að vinna beri gegn klámvæðingu því skorar borgarráð á Alþingi Íslendinga að breyta lögum þannig að sem fyrst fáist skýrar lagaheimildir til að koma í veg fyrir starfsemi nektardansstaða.“
Ályktun borgarráðs 28. ágúst 2008, samþykkt samhljóða.

M eirihluti sjálfstæðis- og framsóknarmanna í borgarráði lagðist á fundi sínum á fimmtudaginn ekki gegn því að tveir veitingastaðir fengju undanþágu frá banni við nektarsýningum. Minnihluti Samfylkingar og vinstri grænna vildi hins að borgarráð „legðist eindregið gegn því heimilaður verði nektardans“ á þessum tveimur stöðum.

Af samhljóða ályktun borgarráðs sem vitnað er í hér að ofan dæma virðist hins vegar sem fulltrúar meirihlutans hafi aðeins veitt veitingastöðunum hlutleysi sitt af lagatæknilegum ástæðum. Að öðrum kosti hefðu þeir vart skorað á Alþingi að afnema atvinnufrelsi nektardansara.

Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri mátti líka útskýra þetta í sjónvarpsfréttum í fyrrakvöld. Þar staðfesti hún að borgarráð vildi „stöðva“ dansinn og óskaði eftir frekari aðstoð löggjafans til að gera nektardansara útlæga úr borginni.

Ef að Vefþjóðviljinn hefði mátt leggja hinum skelegga borgarstjóra orð í munn í þessu sambandi hefði hann gert það svo:

Það er atvinnufrelsi í þessu landi. Það mun alltaf vega þyngra en þráhyggja nokkurra femínista vegna nektar fullorðins fólks.

Borgarstjórinn hefði þar með getað farið langt með að ljúka þessari ótrúlegu umræðu nokkurra hávaðaseggja af vinstri vængnum um það hvort fullorðið fólk hafi virkilega leyfi til að hátta sig gegn greiðslu.

Það getur nefnilega vel verið að það sé svolítið skrítið að borga sig inn á nektarsýningu. En það er þó ekkert hjá því að hafa það sem helsta áhyggjuefni í lífinu hvort einhver sé svo skrítinn.

Margt fólk áttar sig á þessu og tæki því fagnandi ef einhver stjórnmálamaðurinn gerði það líka.