Föstudagur 29. ágúst 2008

242. tbl. 12. árg.

H ún var að vissu leyti verið dæmigerð fyrir íslenska umræðu og íslenska fréttamennsku, umræðan sem í gær fór fram um hóteldvöl samgöngunefndar alþingis í höfuðborginni, þar sem flestir nefndarmanna munu þó eiga athvarf og fá að auki sérstakar greiðslur frá ríkinu vegna þess að þeir þurfa að halda heimili í borginni.

Ekki er Vefþjóðviljinn mikill stuðningsmaður opinberra útgjalda og þá ekki svo brýnna útgjalda sem leigja hótelherbergi í Reykjavík fyrir Reykvíkinginn Árna Þór Sigurðsson eða aðra samgöngunefndarmenn.

En engu að síður var umræðan í gær ósköp íslensk. Þarna var nefnilega eitthvað sem íslenskir fréttamenn skilja: Einhver þekktur að fá eitthvað. Þarna var leigt hótelherbergi fyrir tólfþúsund krónur á manninn. Og þingmennirnir eiga flestir einhverja íbúð í höfuðborginni.

Jú, það var rétt að segja frá þessu og auðvitað hljómar þetta undarlega. Þetta er líka vísbending um að menn hugsi um allt annað en að spara opinbert fé. Þannig að Vefþjóðviljinn kvartar  ekki yfir því að þessi sérkennilega ráðstöfun hafi ratað í fréttir. En ef þessir þingmenn hefðu ekki leigt sér hótelherbergi fyrir tólfþúsund krónur heldur ákveðið að auka möguleika sína á endurkjöri með því að veita milljarði króna í vegarspotta sem hefði mátt sleppa, þá hefði enginn sagt neitt. Fréttamenn hefðu þulið upp fréttatilkynningu frá samgönguráðuneytinu um það hvað vegurinn fyrir Eyðifjörð á Hjarni hefði styst um marga metra, og svo hefði ekki verið minnst á það framar. En þegar leigt er hótelherbergi þá vakna varðmenn almannafjár. Af því að í herberginu sefur þingmaður. Ef hins vegar einhver óþekktur skrifstofumaður hins opinbera, „fagmaður“, kannski af Umhverfisstofnun, Lýðheilsustöð eða Samkeppniseftirlitinu, hefði farið á tíudaga ráðstefnu á Nýja Sjálandi eða sótt hálfsmánaðarnámskeið í Osló, þá hefði ekki verið sagt orð. En þingmaður í sennilega óþörfu hótelherbergi, það skilja íslenskir fréttamenn.

O g  fyrst minnst er á fréttir og það sem íslenskum fréttamönnum þykja stórtíðindi. Í gær lést einn allra merkasti Íslendingur síðustu hundrað ára, eftir opinbert ævistarf sem hafði staðið samfellt í sjötíu ár. Ekki er að efa að stór hluti landsmanna leit á hann sem einn mesta andans mann sem Ísland hefur eignast síðustu aldir. Forsætisráðherra og forseti Íslands minntust hans sem einstaks yfirburðamanns. Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins, kvöldfréttum Ríkisútvarpsins og kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins tókst fréttastofunum í öllum tilvikum að komast hjá því að hafa andlát sr. Sigurbjörns Einarssonar sem fyrstu frétt. Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins var andlátið fjórða frétt og kom á eftir ummælum Rússlandsforseta um Ossetíu, á eftir frétt um tilraun með nýtt flugskeyti og annarri um skoðun ASÍ á verðbólgunni. Andlát sr. Sigurbjörns var þriðja frétt Ríkissjónvarpsins, næst á eftir frétt um fækkun blaðbera Fréttablaðsins. Þetta er ótrúleg frammistaða og alveg einstök fréttastjórn.