Fimmtudagur 28. ágúst 2008

241. tbl. 12. árg.

Í helgarblaði Viðskiptablaðsins um síðustu helgi var sagt frá fundi sem Heimssýn og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands héldu á fimmtudaginn með Nigel Farage leiðtoga UK Independence Party og þingmanni á þingi Evrópusambandsins. Stuðningsmenn aðildar Íslands að Evrópusambandinu hafa látið eins Íslendingar geti samið sig frá öllum helstu göllum aðildar og fengið alls kyns sérmeðferð og undanþágur frá reglum sambandsins. Af frásögn Viðskiptablaðsins af fundinum að dæma telur Farage engar líkur á að Íslendingar fái sérmeðferð hjá Evrópusambandinu vegna stærstu hagsmuna sinna, sjávarútvegs, gengju þeir í sambandið. Viðskiptablaðið vitnar til orða Farages.

Eins og Ísland á Bretland sér langa sögu sem fiskveiðiþjóð, en við skulum skoða hvað hefur orðið um þessa arfleifð eftir inngönguna í Evrópusambandið. Þegar fiskveiðistefna Evrópusambandsins er skoðuð má lesa í fyrstu málsgreininni að stefnan byggist á jöfnum aðgangi að sameiginlegum auðlindum. Takið eftir að ég endurtek: sameiginlegum auðlindum. Eftir 30 ára sögu er reynslan þessi: Breskum sjávarútvegi er heimilt að veiða 17% af heildaraflanum sem veiddur er í breskri landhelgi. Vegna fiskveiðistefnunnar höfum við neyðst til að láta af hendi fjóra fimmtu hluta af aflaheimildum okkar. Vegna þessa höfum við misst 120 þúsund störf við strendur Englands, Írlands og Skotlands. Í Norðursjó er allt að 70% af aflanum hent fyrir borð, en þetta er eitt mesta umhverfisslys af mannavöldum sem um getur í hinum vestræna heimi.

Farage sagði jafnframt að fyrir hverjar kosningar í Bretlandi fullyrtu stjórnmálamenn að eftir kosningar færu þeir rakleitt til Brussel og réttu hlut breskra sjómanna. Þeir kæmu hins vegar alltaf með öngulinn í rassinum heim úr þessum ferðum.