Í þeim borgarstjórnarkosningum sem vinstrimenn buðu Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur fram sem borgarstjóraefni, lögðu þeir jafnan mikla áherslu á eitt atriði: Að kona en ekki karlmaður yrði borgarstjóri. Hamrað var á þessu atriði jafnt og þétt alla kosningabaráttuna, og ekki síst við konur. Þeir sem börðust fyrir þessu munu að sjálfsögðu verða sjálfum sér samkvæmir eftir tvö ár, ef þá verður valið milli Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Dags B. Eggertssonar.
S íðustu vikur hefur staðið yfir almenn fjársöfnun fyrir Handknattleikssamband Íslands. Þeir landsmenn sem vilja styrkja sambandið hafa getað hringt í auglýst símanúmer og rennur þá sjálfkrafa frá þeim nokkur fjárupphæð í þetta málefni. Við þetta er ekkert að athuga og vafalaust hafa margir þakkað landsliðinu fyrir skemmtunina undanfarið með þessum hætti. En nú hefur ríkisstjórnin ákveðið að taka ómakið af landsmönnum. Hún ætlar að leggja 50 milljónir króna af opinberu fé til handknattleikssambandsins. Í staðinn fyrir að fólk borgi af fúsum og frjálsum vilja einhverja upphæð sem hefði þá orðið að raunverulegri gjöf til handknattleikssambandsins, þá eru bara teknir milljónatugir úr ríkissjóði, sem aflað hefur verið með nauðungargjöldum, og lagðir til sambandsins. „Þjóðargjöfin“ er úr sögunni, en ríkisstjórnin fær að vísu af sér mynd.
A ndríki, útgefandi Vefþjóðviljans er, eins og Handknattleikssambandið ætti að vera, rekið fyrir það fé eitt sem menn greiða því sjálfviljugir. Öll starfsemi Andríkis er fjármögnuð með frjálsum framlögum, sem eru tilvalin aðferð fyrir alla þá sem vilja styðja þau frjálslyndu sjónarmið sem félagið berst fyrir. Þeim, sem vilja slást í góðan hóp stuðningsmanna útgáfunnar, er bent á hnappinn Frjálst framlag hér til vinstri.