Mánudagur 25. ágúst 2008

238. tbl. 12. árg.

Þ ær eru margar, kröfugerðarstéttirnar. Ein er hópur manna sem vill að sér og engum öðrum verði leyft að kalla sig leiðsögumenn. Af og til birtir hópurinn ályktanir þess efnis og ef einhverjum fjölmiðli verður á að kalla ranga menn leiðsögumenn, þá má búast við „leiðréttingu“ frá þessum merku mönnum. Vefþjóðviljinn hefur vitanlega talað gegn kröfum þessara manna og vill raunar að stjórnmálamenn láti sér ekki nægja að verjast kröfum um nýjar lögverndanir starfsheita heldur dragi til baka margar þær sem dregnar hafa verið út úr löggjafanum á síðustu árum.

En það er beðið um fleira en lögverndun starfsheita. Undanfarið hefur mikið verið kvartað yfir ástandi vega að nokkrum merkilegum stöðum á landinu. Vegurinn að Öskju er hreint ekki þægilegur og ekki er hann miklu betri, slóðinn að Dettifossi. Síðustu misserin hafa nokkrir sárhneykslaðir menn krafist þess að þessir vegir yrðu stórbættir, svo auðvitað er stutt í að stjórnmálamenn láti undan.

Hverjir ætli það séu sem heimti mjúka og þægilega vegi að drungalegum ferðamannastöðum? Ætli það séu venjulegir ferðamenn? Er ekki þvert á móti líklegt að mörgum þeirra þyki seinfarinn vegur vera hluta af skemmtuninni við að skoða tilkomumikla náttúru, utan alfaraleiða? En það sé leiðsögumaðurinn, sem fer daglegar rútínuferðir á staðinn, sem vilji fá heflaðan flauelsveg undir sig. Það á ekki að láta undan kröfum um „bætt aðgengi” að hálendinu eða að tilkomumestu stöðum íslenskrar náttúru. Það á ekki að hefla hálendisvegi niður í fólksbílafæri og það á ekki að útbúa heilsársveg yfir Kjöl, þó hann stytti aksturstímann frá Reykjavík til Raufarhafnar um stundarfjórðung.

ÞÞ að vantar ekki að íslenska handknattleikslandsliðið stóð sig vel á ólympíuleikunum. Leikmenn og aðrir sem áttu þátt í hvernig til tókst hafa ástæðu til að vera stoltir af árangri sínum. En aðrir ekki. Aðrir geta verið ánægðir og kátir og samglaðst leikmönnum; en stolt geta þeir einir fundið sem sjálfir áttu þátt í velgengninni. „Stolt“ er nú ofnotað og misskilið hugtak.