Helgarsprokið 24. ágúst 2008

237. tbl. 12. árg.
Reyndar hefur það verið reglan hjá EFTA, Fríverzlunarsamtökum Evrópu, að „elta“ fríverzlunarsamninga ESB við þriðju ríki. Samningar Íslands við Kína eru athyglisverð undantekning frá þessu.
-Leiðari Fréttablaðsins 23. ágúst 2008.

Þ að er enginn skortur á sjálfskipuðum sérfræðingum í Evrópumálum hér á landi og margir þeirra hafa merkilega tilhneigingu til þess að vera hlynntir því að Ísland verði jaðarhérað í því stórríki sem verið er að breyta Evrópusambandinu smám saman í. Það hefur aftur vitaskuld ekkert með þá staðreynd að gera að ef Ísland yrði hluti af ESB myndu atvinnutækifærum slíkra einstaklinga vafalítið fjölga gríðarlega frá því sem nú er enda þyrftu íslensk stjórnvöld þá að halda úti fjölmennum her embættismanna í Brussel.

„Meira að segja Halldór Ásgrímsson, sá einarði Evrópusambandssinni, lét þess getið í samtali við Morgunblaðið hér um árið að EFTA ætti sennilega auðveldara með að ná fríverslunarsamningi við Bandaríkin en ESB vegna „minni togstreitu á sviði viðskiptamála“…“

Í leiðara Fréttablaðsins í gær veltir Auðunn Arnórsson fyrir sér fríverslunarviðræðum Íslendinga við Kínverja sem staðið hafa yfir um skeið og virðist ekki þykja mikið til þeirra viðræðna koma. Það er hins vegar ekki ósennilegt að talsvert annað væri uppi á teningnum ef ESB ætti í hlut en ekki Íslendingar. Það er einhvern veginn eins og margir stuðningsmenn ESB, bæði hér á landi og víðar í Evrópu, þyki lítið til þess koma sem þeirra eigin ríki gera en á sama tíma flest sem ESB gerir stórkostlegt og það jafnvel þegar um nákvæmlega sömu hluti er að ræða.

Undir lok leiðarans segir Auðunn að fríverslunarviðræðurnar við Kínverja séu „athyglisverð undantekning“ frá þeirri reglu Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) að elta fríverslunarsamninga sem ESB hafi þegar gert við þriðju ríki. Auðunn virðist þarna byggja á nokkuð gömlum upplýsingum. Á síðustu öld má ef til vill færa rök fyrir því að eitthvert slíkt fyrirkomulag hafi verið til staðar en á síðustu árum hefur EFTA, sem Ísland er aðili að ásamt Noregi, Sviss og Liechtenstein, farið fram úr ESB að þessu leyti og verið fyrri til að gera fríverslunarsamninga við ýmis önnur ríki og jafnvel í tilfellum þar sem ESB hefur orðið lítið ágengt við gerð slíkra samninga.

EFTA var þannig til að mynda fyrra til en ESB að semja um fríverslun við Tyrki í byrjun 10. áratugar síðustu aldar. EFTA undirritaði að sama skapi fríverslunarsamning við Suður-Kóreu í desember 2005 en ESB stendur enn í slíkum viðræðum og hafa þær gengið upp og ofan. Reyndar má geta þess að EFTA var einnig fyrra til að ná fríverslunarsamningum við Suður-Kóreu en Bandaríkin sem skrifuðu undir slíka samninga á síðasta ári. EFTA undirritaði auk þess fríverslunarsamning við Kanada í upphafi þessa árs en ESB á enn í viðræðum við Kanadamennina. Og nú eru Íslendingar á lokasprettinum í viðræðum við Kínverja.

Það er því ljóst að hafi það einhvern tímann verið regla að EFTA hafi elt ESB í gerð fríverslunarsamninga þá er sá tími liðinn og það ætti öllum að vera ljóst sem kynnt hafa sér Evrópumálin að einhverju ráði. Það er svo annað mál að það getur kannski hentað einhverjum að halda á lofti gömlum klisjum þó þeir eigi að vita betur eða í það minnsta eigi að geta kynnt sér málin áður en þeir úttala sig um þau. Meira að segja Halldór Ásgrímsson, sá einarði Evrópusambandssinni, lét þess getið í samtali við Morgunblaðið hér um árið að EFTA ætti sennilega auðveldara með að ná fríverslunarsamningi við Bandaríkin en ESB vegna „minni togstreitu á sviði viðskiptamála“, nokkuð sem vafalaust á við í fleiri tilfellum.

Það má svo í lokin minna á það að ef Ísland gengi í ESB féllu allir fríverslunarsamningar sem íslensk stjórnvöld hafa gert á eigin vegum eða í gegnum EFTA úr gildi og við tækju samningar sem ESB hefði gert – eða ekki gert. Eftirleiðis væri Íslendingum óheimilt að semja um fríverslun við ríki eða markaðssvæði utan ESB. Valdið til þess væri ekki lengur hér heima heldur í höndum embættismanna ESB í Brussel.