Evrópusambandið myndar einn sameiginlegan markaður með vörur, fjármagn og þjónustu og er jafnframt tollabandalag. Þetta merkir að það eru engar hömlur á viðskiptum innan sambandsins og ESB hefur sameiginlega tolla gagnvart ríkjum utan þess. |
– Af heimasíðu Evrópusamtakanna sem berjast fyrir aðild Íslands að ESB. |
Þ ví er gjarnan haldið fram af áhugamönnum um aðild Íslands að Evrópusambandinu að það snúist einna helst um fríverslun. Þessu er ekki síst flíkað standi til að reyna að sannfæra hægrimenn um að gott og æskilegt sé að Ísland verði hluti af þessu fyrirhugaða miðstýrða ríki. Staðreyndin er þó nokkuð önnur enda er ESB fyrst og fremst gamaldags tollabandalag eins og Vefþjóðviljinn hefur áður fjallað um sem vissulega leyfir frjálsa verslun innan sinna vébanda en viðhefur síðan alls kyns íþyngjandi hindranir þegar kemur að viðskiptum við aðila utan þess.
Sú var tíðin að flestir vinstrimenn hötuðust út í sameiginlegan markað ESB þar sem hann byggði bæði á kapítalisma að þeirra mati og fríverslun á milli ríkja. Þannig barðist breski Verkamannaflokkurinn fyrir því í byrjun níunda áratugarins að Bretar segðu sig úr Efnahagsbandalagi Evrópu, forvera ESB, á sama tíma og Íhaldsflokkurinn var hlynntur verunni þar. En í seinni tíð hefur þetta snúist algerlega við samhliða auknum samruna innan ESB, þá einkum pólitískum og félagslegum. ESB hefur í dag í raun sáralítið að gera með eiginlega fríverslun enda er markmiðið að innri markaður þess verði einmitt innri markaður hins miðstýrða ríkis sem verið er að breyta ESB í. Og ekki má gleyma því að við aðild að ESB falla niður fríverslunarsamningar sem ný aðildarríki hafa gert við ríki og markaðssvæði utan þess.
Nærtækt dæmi um þessa þróun er Stjórnarskrá ESB, Lissabon-sáttmálinn, sem einmitt er ætlað að verða hornsteinninn í þessu miðstýrða ríki og koma á í stað allra fyrri sáttmála ESB. Tekin var sú ákvörðun, einkum að kröfu Frakka, að „frjáls og óbrengluð samkeppni“ yrði ekki lengur skilgreind sem eitt af grundvallarmarkmiðum ESB í stjórnarskránni. Nokkuð sem þó hefur staðið í sáttmálum þess allt frá upphafi. Að vísu má segja að þarna sé um ákveðinn heiðarleika að ræða af hálfu ESB þar sem ljóst er þetta er hvort sem eitthvað sem ekki hefði verið haft í heiðri.
Fyrir ekki svo löngu síðan ritaði Daniel Hannan, þingmaður á Evrópuþinginu fyrir breska Íhaldsflokkinn, ágæta grein í Daily Telegraph þar sem hann spurði hvað hefði orðið um það markmið ESB „að stuðla að auknu afnámi hafta á alþjóðlega verslun“ sem kveðið er á um í stofnsáttmála þess, Rómar-sáttmálanum. Benti hann á að það væri í sjálfu sér ekkert einkennilegt að þessu markmiði hefði ekki verið framfylgt að neinu ráði þar sem það væri algerlega á skjön við eðli ESB. Í heimi án tolla væri auðvitað engin þörf fyrir tollabandalög.
Það er þó ekki nóg með að ESB hafi ekki beitt sér að neinu ráði fyrir auknu frelsi í alþjóðlegri verslun heldur hefur það fremur færst í hina áttina. Frakkar hafa þannig kallað eftir aukinni verndarstefnu á þeim forsendum að það sé eina leiðin fyrir ESB til að tryggja hagsmuni sína í heimi ört vaxandi alþjóðavæðingar. Og sú skoðun virðist njóta vaxandi stuðnings innan ESB. Viðkvæðið í Brussel, þegar verndarstefna ESB er gagnrýnd, er iðulega það að verið sé að bregðast við verndarstefnu annarra.