Miðvikudagur 23. júlí 2008

205. tbl. 12. árg.

S íðustu ár hafa tekjur hins opinbera aukist hratt. Aukningin hefur verið talsvert umfram hagvöxt og má rekja það til uppbyggingar skattkerfisins, mikillar kaupmáttaraukningar og myndunar eignaverðsbólu. Margi hafa lagt hönd á plóg við að finna leiðir til að verja auknum tekjum og hafa stjórnmálamenn því miður fallið í þá freistni að gefa eftir frekar en að standa vörð um hagsmuni skattgreiðenda.

Í stað þess að lækka skatta eða leggja verulega fyrir til mögru áranna hefur verið reynt að finna leiðir til að eyða gróðanum eins fljótt og hann skapast. Nú er veislan hins vegar búin og komið er að skuldadögum. Af því tilefni réði forsætisráðherra Geir H. Haarde sér sérstakan efnahagsráðgjafa, Tryggva Þór Herbertsson.

Haustið 2003 þegar fjárlagafrumvarp var lagt fram fjallaði Fréttablaðið um þær áskoranir sem hið opinbera stæði frammi fyrir við hagstjórn í upphafi hugsanlegs þensluskeiðs. Einn þeirra sem blaðið leitaði ráða hjá var Tryggvi Þór.

„Það sem skiptir fyrst og fremst máli er að hið opinbera – bæði ríki og sveitarfélög – haldi að sér höndum. Það þarf að hemja vöxt ríkisútgjalda og helst skera þau niður“ segir Tryggvi.

Tryggvi segir að ef ríkisstjórnin uppfyllir loforð sín um breytingar á húsnæðislánakerfinu af fullum þunga verði það ávísun á skuldasöfnun og þenslu. …

Tryggvi segir að í fjárlagafrumvarpinu myndi hann vilja sjá niðurskurð til dæmis að minnka stuðning við atvinnugreinar, frestun framkvæmda og sparnað í rekstri hins opinbera. Það sé kominn tími til að skera upp landbúnaðarkerfið. „Það gengur ekki upp að milljörðum á milljarða ofan sé veitt til að halda þessu kerfi gangandi,“ segir Tryggvi. Honum þykir líka undarlegt að í landi sem hefur yngstu aldurssamsetningu þjóðar á OECD svæðinu séu heilbrigðismálin í svo miklum vanda. „Heilbrigðismálin ættu að vera létt á fóðrunum en það er greinilega einhverskonar vanskipulag í þeim,“ segir hann. …

Tryggvi leggur til að ríkisútgjöld verði skorin niður og sér fyrir sér að hægt sé að gera það án þess að það komi niður á velferðarkerfinu. Hann vill að stórframkvæmdum verði frestað, til dæmis að tónlistarhús verði ekki byggt í Reykjavík á meðan mesta spennan sé í efnahagslífinu. Þannig eigi Reykjavíkurborg að gæta sín á því að byggja ekki orkuver og tónlistarhús á sama tíma. …

„Ef allir leggjast á eitt mun góðærið skila sér til almennings en ef menn fara út af sporinu verða timburmennirnir miklir. Verðbólga, samdráttur og sársauki. Þá fyrst brotlendum við,“ segir Tryggvi. …

Það er ekki víst að öllum þykir fjármálaráðherrann Geir H. Haarde hafa tekið mikið mark á Tryggva Þór Herbertssyni haustið 2003.