Þriðjudagur 22. júlí 2008

204. tbl. 12. árg.

N icolas Sarkozy forseti Frakklands, sem þessar vikurnar fer einnig fyrir Evrópusambandinu að því leyti sem kjörnir fulltrúar ráða þar nokkru, er nýkominn úr ferð til Írlands. Þar dvaldi hann í fullar sex klukkustundir enda Írland mikilvægt land sem er nýbúið að neita að staðfesta væntanlega yfirþjóðlega stjórnarskrá Evrópusambandsins. Sarkozy er þegar búinn að segja Írum einu sinni að kjósa aftur og mun sjálfsagt suða um það áfram. Hann segir að Írar komist ekki upp með að hafna samkomulaginu og hefur lagt áherslu á að önnur ríki haldi áfram að staðfesta það, þrátt fyrir að eitt sé þegar búið að hafna því. Evrópusambandið gerir nefnilega ekkert með vilja aðildarþjóðanna enda er það ekki til fyrir þær heldur fyrir forystu sína. Jafnt og þétt tekur það völd frá þjóðkjörnum ráðamönnum aðildarríkjanna og færir í hendur ókosinna embættismanna í Brussel. Þessi þróun hefur haldið áfram, hraðar og hraðar, á undanförnum árum og vonlaust virðist að snúa henni við. Smá aðildarríki, eins og Írland – á þau er ekki hlustað nema þau segi játakk við því sem forystunni í Brussel þóknast hverju sinni.

Ef Ísland yrði einhvern tíma teymt inn í Evrópusambandið myndi fullveldi þess hverfa með ógnarhraða. Ísland hefði nákvæmlega engin áhrif á mikilvægar ákvarðanir í Brussel, þó að vafalaust hlypi á snærið hjá íslenskum stjórnmálafræðingum. Aðild að Evrópusambandinu myndi ekki aðeins þýða að Íslendingar sæju af úrslitavaldi yfir sjávarútvegi landsins yfir til erlendra embættismanna, heldur færi æðsta vald á sístækkandi sviði sömu leið. Það er með öllu útilokað að slíkt verði nokkurn tíma samþykkt í íslenskri þjóðaratkvæðagreiðslu.

Aðild að Evrópusambandinu myndi ekki færa Íslandi nein aukin áhrif á nokkurn hlut sem skipti máli. Og sama gilti ef landið myndi af einhverjum ástæðum ákveða að taka upp gjaldmiðil sambandsins. Björn Bjarnason vekur á vefi sínum í gær athygli á viðtali The Irish Times við Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóra Evrópu, sem bendir Írum vinsamlega á að evrópski seðlabankinn velti því ekki fyrir sér eitt andartak hvað Írum kunni að koma vel eða illa. Blaðið segir, í endursögn Björns:

THE EUROPEAN Central Bank (ECB) will not change the course of its monetary policy to assist those euro area members such as Ireland, Spain or Portugal that are currently experiencing economic difficulties, the president of the ECB, Jean-Claude Trichet, has told The Irish Times. Paul Tansey Economics Editor reports. “The ECB has to care for the superior interest of the euro area,” Mr Trichet said, adding: “Our monetary policy must be optimal at the level of the whole euro area – exactly like the Fed [ the US central bank] would not look at what is in the interest of Missouri, California or Texas.“

Seðlabankastjórinn líkir sem sé Írlandi, Spáni og Portúgal við Missouri, Kaliforníu og Texas í Bandaríkjunum og segir bandaríska seðlabankann aldrei mundu haga ákvörðunum sínum með hagsmuni þessara ríkja innan Bandaríkjanna að leiðarljósi – hið sama eigi við evrópska seðlabankann, hann verði að hafa háleitari markmið en huga að hagsmunum einstakra þjóðríkja.

Og Björn Bjarnason spyr:

Hvað skyldu málsvarar íslenskrar evruaðildar segja um þessa afstöðu?