Laugardagur 19. júlí 2008

201. tbl. 12. árg.

E ins og Vefþjóðviljinn gat um í vikunni hefur ekkert land utan Evrópusambandsins tekið upp evru og virtist það koma ýmsum mjög á óvart eftir umræður sumarsins. Þau ríki utan sambandsins sem nota evru notuðust þegar við gömlu myntir aðildarlandanna fyrir daga evrunnar. Nokkur lönd rómönsku Ameríku nota hins vegar Bandaríkjadal og fleiri tengja mynt sína með einhverjum hætti við dalinn. Þótt dalurinn sé ekki mynt smáríkis og þyki mjög gjaldgengur í alþjóðaviðskiptum er þessi tenging ekki vandalaus. Undanfarið hefur hrávöruverð hækkað mjög og alveg sérstaklega í dölum talið því dalurinn hefur verið að veikjast gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Mary Anastasia O’Grady sem skrifar um stjórn- og efnahagsmál í rómönsku Ameríku í The Wall Street Journal segir fall dalsins skýrast af þeirri stefnu bandaríska seðlabankans að auka peningamagn í umferð þótt engin spurn sé eftir fleiri dölum.

Í löndum sem nota dalinn eða tengja mynt sína við hann hefur verðlag því hækkað verulega. Þessi lönd hafa ekki notið þess – líkt og til að mynda Ísland – að dalurinn hefur verið veikur og það dregið úr áhrifum hækkunar á hrávöruverði. O’Grady segir bandaríska seðlabankann flytja verðbólgu til þessara landa sem hafa ekki sjálfstæða peningastefnu. Seðlabankar landanna hafi reynt að sporna gegn verðbólgunni með vaxtahækkunum en það dugi skammt á meðan gjaldmiðlar þeirra séu tengdir dalnum – sem hefur verið í frjálsu falli gagnvart öðrum myntum og öðrum verðmætum á borð við olíu, korn og aðrar hrávörur.

Á næstu misserum verður mjög fróðlegt að fylgjast með áhrifum efnahagssamdráttar á ýmis lönd Evrópu sem notast við evruna eða eru tengd henni með einhverjum hætti. Hver verða áhrifin í Írlandi, Eystrasaltslöndunum og Danmörku svo nokkur áhugaverð dæmi séu nefnd um lönd sem gefið hafa sjálfstæða mynt upp á bátinn?

Það gæti orðið fróðleg kennslustund fyrir Íslendinga.

En í stað þess að fylgjast með þessu má auðvitað hringja í einhvern af samfylkingarprófessorunum upp í háskóla eða á skrifstofu Samtaka iðnaðarins og fá svör við þessu öllu fyrirfram.