Föstudagur 18. júlí 2008

200. tbl. 12. árg.

Í bókun ráðsins er lagt til, að á yfirborði verði gert ráð fyrir almenningssamgöngum, þ.e. bæði fyrir strætó og að einnig verði frátekið svæði fyrir mögulegt léttlestarkerfi“, segir í frétt Morgunblaðsins í gær af nýjustu samþykkt umhverfisráðs Reykjavíkur um að Geirgata verði lögð í stokk. Engum datt í alvöru í hug að setja götuna í stokk á meðan ýmis starfsemi tengd útgerð, bensínstöð og annar sjálfbær atvinnuvegur var norðan götunnar. En nú þegar gestir tónleikahússins eru væntanlegir verða borgaryfirvöld ekki sein að breiða nokkra milljarða af sköttum Reykvíkinga yfir Geirsgötuna svo tónleikagestir þurfi ekki að fara yfir götu á leið sinna af tónleikum á bari miðborgarinnar.

Og úr því umhverfisráðið var hvort eð er komið með óráð þótt því tilvalið að hnýta því við tillögu sína um milljarðadregilinn yfir Geirsgötuna að þar „verði frátekið svæði fyrir mögulegt léttlestakerfi“.

Í frétt Ríkisútvarpsins 17. desember 2004 sagði:

Árni Þór Sigurðsson, formaður samgöngunefndar Reykjavíkur, segir hugmyndir um léttlestakerfi á höfuðborgarsvæðinu verða lagðar á hilluna í kjölfar skýrslu um kostnað við kerfið. Þar er staðfest að almenningssamgöngur með léttlestum kosta margfalt meira en með strætisvögnum og mundu einungis ná til um þriðjungs íbúa.

Þegar kostnaður við hugmynd að opinberri framkvæmt fær vinstri grænan borgarstjórnarmann til að hika má vera ljóst að hugmyndin er galin. En þá má auðvitað finna sjálfstæðismenn í borgarstjórninni sem taka hana upp á sína arma.

Það er gríðarlegur stofnkostnaður við sporbundnar samgöngur og þær eru eins ósveigjanlegar og samgöngur geta orðið. Strætó nýtir þó þær götur sem fyrir eru og það má breyta leiðakerfi hans að vild sem er ekki mögulegt með samgöngur á spori. En það þykir víst til marks um að menn séu grænir þegar svona skýjaborgir eru reistar í nafni umhverfisverndar.

Það veit Árni Þór Sigurðsson raunar mæta vel og tillöguna sem hann sló út af borðinu sem borgarfulltrúi er hann nú mættur með sem þingmaður á Alþingi.