E r aðild að Evrópusambandinu einhvers konar eðlilegt framhald af aðild Íslands að til að mynda Atlantshafsbandalaginu (NATO), Fríverslunarbandalagi Evrópu (EFTA) og Evrópska efnahagssvæðinu (EES)? Þessu hefur verið haldið fram af áhugamönnum um ESB-aðild og þá jafnvel um leið að á þessum fyrirbærum sé svo gott sem enginn munur. Fyrst Íslendingar séu aðilar að NATO, EFTA og EES geti þeir allt eins gerst aðilar að ESB. Og síðan er því oft og iðulega bætt við að þeir sem af einhverjum ástæðum hafa ekki áhuga á að ganga ESB á hönd vilji þá væntanlega sjálfkrafa að Ísland segi sig frá öllu samstarfi við önnur ríki.
„Sívaxandi pólitískur, efnahagslegur og félagslegur samruni hefur einkennt þróun ESB til þessa og er nú svo komið að það er mun nær því að vera einhvers konar miðstýrt sambandsríki en nokkurn tímann alþjóðasamstarf með hefðbundnum hætti.“ |
Málflutningur sem þessi heldur auðvitað engu vatni þó ekki nema aðeins fyrir það eitt að samstarf á milli ríkja getur verið með afskaplega ólíku móti, allt frá því að vera mjög víðtækt og mjög íþyngjandi fyrir þau ríki sem í hlut eiga og yfir í að eiga aðeins við um mjög þröngt svið og setja fullveldi viðkomandi ríkja litlar eða engar skorður. NATO er þannig til að mynda varnarbandalag sem felur eingöngu í sér gagnkvæma varnarskuldbindingu þeirra ríkja sem það mynda. EFTA eru fríverslunarsamtök þar sem aðildarríkin geta haft með sér samvinnu við gerð fríverslunarsamninga eða gert þá upp á eigin spýtur. Og EES er sameiginlegur markaður sem byggir á frjálsum viðskiptum með vörur, þjónustu og fjármagn og því að fólk komist hindrunarlítið milli aðildarlandanna í atvinnuleit.
En hvað með ESB? Nú er svo komið að hreinlega er leitun að þeim málaflokki innan aðildarríkja ESB sem ekki lýtur stjórn stofnana þess að meira eða minna leyti, sem aftur eru í flestum tilfellum sjálfstæðar gagnvart ríkjunum. Sívaxandi pólitískur, efnahagslegur og félagslegur samruni hefur einkennt þróun ESB til þessa og er nú svo komið að það er mun nær því að vera einhvers konar miðstýrt sambandsríki en nokkurn tímann alþjóðasamstarf með hefðbundnum hætti.
Bent hefur verið á að ESB búi nú þegar yfir flestu því sem einkennir ríki samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum. Það litla sem á vantar mun fást með stjórnarskrá ESB, Lissabon-sáttmálanum, nái hún fram að ganga.
Það er ekkert nýtt að alþjóðlegt samstarf og annað samstarf á milli ríkja geti sett fullveldi þeirra ýmsar skorður allt eftir því hvert eðli þess er. En að halda því fram að þátttaka í einu slíku samstarfi sé sjálfkrafa sambærileg við þátttöku í öðru gengur ekki upp.