Laugardagur 5. júlí 2008

187. tbl. 12. árg.
Smám saman er verið að rífa í sundur fullveldi og lýðræðisleg völd ríkisstjórna og þinga þjóðríkja Evrópu og færa þau í hendurnar á miðstýrðu evrópsku ríki. Þetta stöðuga streymi á völdum til Brussel hefur leitt til þess að margir eru farnir að efast um hollustu bresku ríkisstjórnarinnar við Bretland.
– Denzil Davies, fyrrverandi þingmaður breska Verkamannaflokksins.

F ullveldið þvælist talsvert fyrir áhugamönnum um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Oftast slá þeir þó um sig með þeim gatslitna frasa að ESB sé samstarf fullvalda ríkja sem deili fullveldi sínu á sviðum þar sem þau eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta, eins og það er orðað. Þetta hljómar sjálfsagt ekki svo illa í eyrum margra enda upprunalega kokkað upp og útspekúlerað af áróðursmeisturum sjálfs sambandsins. Línan frá Brussel.

En er ESB í raun og veru aðeins samstarfsvettvangur og aðildarríki þess algerlega fullvalda um eigin málefni? Svarið við þeirri spurningu er auðvitað nei. Og raunar er langur vegur frá því að svo sé og hann lengist stöðugt. Völd hinna ýmsu stofnana ESB yfir málefnum aðildarríkjanna eru í dag orðin gríðarlega mikil og er hreinlega leitun að þeim málaflokki sem ekki lýtur stjórn þeirra að meira eða minna leyti. Flestar stofnanir ESB eru síðan utan við áhrifasvið aðildarríkjanna og þannig meira eða minna sjálfstæðar gagnvart þeim.

Hvaðan koma völd stofnana ESB yfir aðildarríkjunum? Varla hafa þau orðið til úr engu? Þarna er vitanlega um að ræða völd sem eitt sinn voru hluti af fullveldi þessara ríkja en eru það ekki lengur. Ef aðildarríki ESB væru í raun og veru fullvalda er deginum ljósara að stofnanir þess væru því sem næst valdalausar eða heyrðu í það minnsta með beinum hætti undir vald ríkjanna. Svo er þó ekki. ESB hefur fyrir margt löngu öðlast að stóru leyti sjálfstætt líf og verði stjórnarskrá ESB, Lissabon-sáttmálinn, endanlega staðfest mun það líf glæðast til muna.

Ekki má síðan gleyma því að aðildarríki ESB hafa mismikið vægi innan þess sem stjórnast fyrst og fremst af því hversu fjölmenn þau eru. Minni íbúafjöldi þýðir minna vægi. Þetta þýðir þannig að Íslendingar hefðu sáralítið ef eitthvað um það að segja hvernig haldið væri til dæmis á skattamálum innan ESB værum þeir þar innanborðs á meðan til að mynda Þjóðverjar hefðu margfalt meira með þá hluti að gera. Er það þá að „deila fullveldi sínu“ þegar óravegur er frá því að setið sé við sama borð? Um það þarf vart að deila.