S veinn Andri Sveinsson hæstaréttarlögmaður ritaði grein í Fréttablaðið í gær til stuðnings aðild Íslands að Evrópusambandinu. Stuðningur Sveins Andra er eindreginn og sér hann hvorki galla á Evrópusambandinu né aðild Íslendinga að því. Fyrir allnokkru var Sveinn Andri borgarfulltrúi í Reykjavík og ritaði greinina „Skynsemi nálægðarinnar“ í Morgunblaðið um mikilvægi þess að flytja vald frá stórum stjórnsýslueiningum til hinna smærri. Hann skynjaði þá vel sem sveitarstjórnarmaður í Reykjavík hve fjarlægt ríkivaldið gat verið íbúum sveitarfélaganna. Greinin birtist 12. mars 1992 og þar sagði meðal annars:
Umræðan er ekki út í hött, því veigamikil rök mæla með því að flytja þau verkefni sem menn hafa á annað borð ákveðið að hið opinbera skuli fara með, til hinna smáu stjórnsýslueininga, sveitarfélaganna.
Veigamestu rökin felast í því sem kalla má skynsemi nálægðarinnar, þ.e.a.s. sveitarfélög eru annars vegar nær ákvörðunum og verkefnum sem ráðist er í og hins vegar í meiri og betri tengslum við þá er njóta þjónustunnar og þá er greiða fyrir hana; skattgreiðendurna. |
Það má segja margt um Evrópusambandið en kannski ekki að það sé smá stjórnsýslueining. Það nær norður frá Lapplandi yfir 27 lönd suður til Gíbraltar og austur í Svartahaf þar sem Tyrkir hanga á hurðarhúninum. Innan þess eru nær 500 milljónir manna sem nota nokkrar myntir og tala að minnsta kosti tuttugu tungumál.
Það er um leið langsótt að gera „skynsemi nálægðarinnar“ að einkunnarorðum Evrópusambandsins og ekki víst að Íslendingum þyki það mikil nálægð þegar Grikkir, Slóvakar og Rúmenar sitja í forsæti sambandsins.
En svo getur verið að Sveinn Andri hafi skipt einfaldlega um skoðun á viðfangsefninu og telji nú farsælast að stjórnvöld séu sem lengst frá borgurunum og í sem minnstum tengslum við þá er njóta þjónustunnar og greiða fyrir hana. Þá er stuðningur hans við aðild Íslendinga að ESB skiljanlegur.