Sæl vertu, Geirlaug. Er það rétt sem eg heyri, að þú hafir haft það úr fréttum að við eigum nú val af víðfrægum óperustjörnum við virtustu hús úti í löndum – (sem eru – ef nánar er gáð – aðeins Garðar blessaður Hólm að gaula fyrir hálftómum sal)? Eða er það, Geirlaug mín, rétt sem ég heyri, að þú hafir |
– Ögmundur Bjarnason, úr Kveðju til Geirlaugar kerlingar,Tímarit Máls og menningar, maí 2008. |
F orysta Háskóla Íslands hefur undanfarið talað um það eins og í alvöru að stefnt sé að því að stofnunin verði meðal eitt hundrað bestu háskóla í heimi, hvernig svo sem það sé svo metið. Er nú farið með þessa nýju þulu í hvert sinn sem heyrist í háskólaforystunni opinberlega og ekki síst þegar þarf að fá aukið fé eða gera betur við starfsfólk. Enginn virðist enn hafa kunnað við að spyrja hvort rétt sé að þeir sem í alvöru telji að Háskóli Íslands geti nokkurn tíma komist nálægt þessu markmiði, séu allra manna heppilegastir til að stjórna háskóla.
En sennilega stafar það spurningaleysi af því að engum manni detti í hug að stjórnendur Háskólans meini neitt með þessu rugli. Að talið um „100 bestu háskóla í heimi“ sé einungis áróðurstækni til að gefa sífelldum fjárkröfum annað yfirbragð; að nú sé ekki verið að biðja um meira í sömu botnlausu hítina heldur verið að vinna að göfugu markmiði. Og þó markmiðið sé fjarlægara en blómleg mannabyggð á Mars, þá megi ná talsverðu fé úr stjórnmálamönnum í allmörg ár, út á það.
Minnir það svolítið á herbragðið sem íþróttaforystan notar reglulega á sveitarfélögin. Þar er þess gætt að færa landsmót ungmennafélaganna af herkænsku milli sveitarfélaga og úti um allt land hamast ístöðulitlir sveitarstjórnarmenn við að ausa skattpeningum í nýjar hlaupabrautir og velli „til að uppfylla skilyrði landsmótsins“. Og alltaf fá skattgreiðendur að borga því aldrei koma fram stjórnmálamenn sem segja einfaldlega: Nei takk, ykkur er velkomið að halda hjá okkur landsmót en þá getið þið alveg notað vellina sem fyrir eru. Og þið í Háskólanum, komiði niður á jörðina, það er ágætt þar.