J afnt og þétt skýrist það fyrir mönnum hvílík mistök það voru að treysta 18 samfylkingarmönnum betur en 7 framsóknarmönnum eða 9 vinstri grænum. Og ástæðan er ekki sú að Samfylkingin náði ekki að halda saman meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur nema 100 daga loks þegar henni var treyst fyrir stjórn á einhverju hér á landi.
Samfylkingin samdi um það fyrir ári að ný ríkisstjórn myndi ekki leggja drög að aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Engu að síður tala jafnvel ráðherrar flokksins eins og Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að gera upp hug sinn í málinu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei haft það á stefnuskrá sinni að sækja um aðild svo að það er ekkert vandamál fyrir Sjálfstæðisflokkinn að standa við stjórnarsáttmálann. En hvað með flokkinn sem hafði aðild á ESB á stefnuskránni., minntist þó vart á það í kosningabaráttunni og samdi svo um það í stjórnarmyndunarviðræðum að ekki yrði sótt um aðild á kjörtímabilinu? Þarf hann kannski að skýra það fyrir kjósendum sínum hvað hann er að gera í þessari ríkisstjórn?
Það er fátt annað að gera fyrir Sjálfstæðisflokkinn ef ráðherrar Samfylkingarinnar geta ekki staðið við stjórnarsáttmálann en að slíta samstarfinu og taka upp samstarf við flokk sem er tilbúinn til að skoða aðra möguleika á myntsamstarfi en að ganga í ESB. Formaður vinstri grænna hefur til dæmis nefnt norrænar myntir í þessu samhengi og formaður Sjálfstæðisflokksins minnti á mikilvægi dalsins á dögunum. Þeir virðast því báðir tilbúnir til leysa þau vandamál sem fylgja íslensku krónunni með opnum huga, sem er annað en sagt verður um ráðherra Samfylkingarinnar.
Vefþjóðviljinn hefur frá því seint á síðustu öld gagnrýnt að íslenska ríkið gefi út mynt og raunar kysi hann helst að ekkert ríki stundaði slíka starfsemi. Jafnvel mætti halda því fram að útgáfa myntar ætti síst af öllu heima hjá hinu opinbera því freistingin sem fylgir opinberum lögeyri og seðlaprentunarvaldinu er of mikil eins og sagan sýnir. Þegar seðlaprentunin er sett á fullt og mikið framboð verður skyndilega á peningum verða forsendur fyrir fjárfestingum falskar, eignabólur myndast og springa svo að lokum.
Ekki hafa ýkja margir sýnt þessari umræðu áhuga fyrr en nú í einhverju óðagoti yfir því að gengi íslensku krónunnar varð ekki lengur haldið uppi með erlendu lánsfé. En þeir eru þó til og til dæmis sagði Vefþjóðviljinn svo frá 5. júní 1997:
Í fréttum í vikunni hefur verið sagt frá því að einhver stráði 45 kílóum af gamalli íslenskri mynt á Ölfusárbrúna á mánudagsmorguninn. Þetta spaugilega atvik minnir okkur á að íslenska krónan hefur rýrnað verulega undanfarna áratugi. Árið 1988 þurfti til dæmis 560 krónur til að kaupa vöru sem kostaði 1 krónu árið 1960. Með öðrum orðum hafa útgefendur myntarinnar, íslenska ríkið, svikið notendur hennar með einstökum hætti og komist upp með það enda hefur ríkið lögvarða einokun á útgáfu gjaldmiðils. Andstætt því sem menn kunna að halda geymir sagan og samtíminn mörg dæmi um að einkaaðildar hefi gefið út peninga. Þannig er til dæmis í Hong Kong í dag þar sem tveir einkabankar gefa út gjaldmiðil sem að vísu er miðaður við gengi Bandaríkjadals. Ríkisreknir seðlabankar urðu auðvitað til af því að seðlaprentun er fljótleg leið til að ræna fólk og stjórnmálamenn eru fljótir að þefa slíkar leiðir uppi. Þegar ríkisstjórnir setja prentvélarnar af stað og auka framboð peninga falla þeir í verði
Óli Björn Kárason ritaði grein um einokun ríkisins á útgáfu peninga í Frelsið árið 1989. Þar sagði m.a.: „Andstæðingar samkeppni í peningaútgáfu hafa aldrei hrakið þær fullyrðingar að lögmál markaðarins gildi jafnt um peninga og aðrar vörur. Ef það er rétt að samkeppni á vörumarkaði tryggi best góð lífskjör, því ættu önnur lögmál að gilda um peningamarkaðinn? Alveg eins og hagur sparifjáreigenda og lántakenda er best tryggður þegar samkeppni ríkir á milli banka og annarra fjármálastofnana, er hag almennings best borgið þegar hann getur valið á milli peninga. Eða heldur einhver því fram að ríkisvaldið hefði hagað sér eins í stjórnun peningamála ef Íslendingar hefðu verið frjálsir af því að velja á milli krónunnar og annarra gjaldmiðla? Stjórnvöld geta aðeins notað prentvélarnar og þar með skert verðgildi peninga í skjóli einokunar.“ |
Hér kemst Óli Björn Kárason nærri kjarna málsins. Á meðan ríkisstjórnir gefa út myntir er það lágmark að þær auðveldi borgurunum að velja á milli mismunandi mynta´.
L issabon-sáttmálinn svokallaður sem upphaflega átti að heita stjórnarskrá Evrópusambandsins er að í algeru uppnámi eftir að Írar afþökkuðu hann pent á dögunum en þar sem bæði forseti Frakklands og kanslari Þýskalands hafa nú lýst því yfir að frekari stækkun ESB sé óframkvæmanleg nema sáttmáli þessi taki gildi hefur hann beina skírskotun í hérlenda umræðu um Evrópumál. Nái hann ekki fram að ganga þýðir það þá væntanlega að ekki er raunhæft að Ísland verði innlimað í ESB en nái hann fram að ganga gerir það ESB ekki beinlínis kræsilegra en það var fyrir.
Það er því aldeilis kolrangt ályktað hjá ýmsum stuðningsmönnum aðildar að ESB hér á landi að höfnun Íra á Lissabon-sáttmálanum komi Evrópuumræðunni hér á landi ekkert við.