Þriðjudagur 1. júlí 2008

183. tbl. 12. árg.

E vrópusambandið er í óvenju mikilli kreppu um þessar mundir. Nicolas Sarkozy ávarpaði Frakka í sjónvarpi í gærkvöldi af því tilefni af því að Frakkar eru að taka við forsæti sambandsins af Slóvenum. Sarkozy sagði mistök hafa verið í uppbyggingu ESB. Nauðsynlegt væri að gera breytingar því Evrópubúar séu að missa trúna á sambandið. Margir velti fyrir sér þessa dagana hvort hag þeirra væri betur borgið hjá stjórnvöldum eigin lands heldur en hjá sambandinu.

En þótt kreppan sé mikil gengur allt sinn vanagang í reglugerðafabrikkunni. Nú stendur til að leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið þar sem kallað er eftir því að ákveðinn hluti internetsins verði ritskoðaður af Evrópusambandinu. Og hvaða hluti skyldi það nú vera? Jú, bloggsíður. Eistneski Evrópuþingmaðurinn Marianne Mikko er höfundur skýrslunnar sem lögð verður fram í haust af hálfu menningarnefndar þingsins. Á heimasíðu sinni segir Mikko meðal annars að gæðastimpla þurfi fyrir bloggsíður og að ESB þurfi upplýsingar um það „hver skrifar hvað og hvers vegna.“ Þar segir hún einnig að hætta sé á að „bloggarar óhreinki internetið“ og að þegar sé of mikið af „rusli á internetinu“ og „rangar og skaðlegar upplýsingar.“ Lausn nefndarinnar á þessu vandamáli er meðal annars sú að fólk þurfi að skrá sig sérstaklega til að fá að halda úti bloggsíðu og þá auðvitað undir eftirliti ESB.

Hvaða röngu og skaðlegu upplýsingar það eru nákvæmlega sem menningarnefnd Evrópuþingsins hefur áhyggjur af hefur ekki fengist gefið upp þar sem Mikko hefur ekki viljað ræða það við fjölmiðla og því ólíklegt að skýrsla nefndarinnar hafi átt að rata í hendur þeirra. Það má þó gera fastlega ráð fyrir því að þar sé einkum um að ræða upplýsingar sem koma sér illa fyrir ESB svo ekki sé talað um beina gagnrýni í þess garð. Ekki er því ósennilegt að þessi áform nái fram að ganga enda stendur ESB-elítunni jafnan á sama um sjónarmið almennra borgara enda lítið sem ekkert háð aðhaldi þeirra. Það gæti þá gerst að evrópskir bloggarar hýstu bloggsíður sínar í auknum mæli í löndum utan ESB þar sem enn mætti gagnrýna elítuna án sérstaks eftirlits. Til dæmis á Íslandi.