Mánudagur 30. júní 2008

182. tbl. 12. árg.

E inhverjir starfsmenn „Eftirlitsstofnunar EFTA“ eru að hita sig upp í þá niðurstöðu að rekstur Íbúðalánasjóðs megi ekki lengur fara fram að óbreyttu. Er þetta gert vegna klögumála stjórnenda íslensku viðskiptabankanna og væri það ánægjuleg niðurstaða ef ríkið drægi sig loks til hlés á íbúðalánamarkaði.

Getur verið að þeir sem segja að íslenska ríkið eigi ekkert með það að vera að lána einhverjum lúsablesum, pétri og páli, fyrir íbúð að þeir segi einnig að það sé til skammar hversu íslenska ríkið sé lengi að taka erlent lán? Það eigi þegar í stað að skuldsetja íslenska ríkið um fimmhundruðþúsund milljónir svo íslensku viðskiptabankarnir geti fjármagnað sig ódýrt og haldið áfram að díla?

R íkisstjórnir Vesturlanda hafa undanfarið sent frá sér harðorð skilaboð og krafist tafarlausra aðgerða gegn fantinum Mugabe, sem er að tryggja sér áframhaldandi völd í Zimbabve, án lýðræðislegs stuðnings. Segja þeir flestir að ekki sé unnt að viðurkenna Mugabe sem leiðtoga landsins. Leiðtogar Vesturveldanna telja mjög brýnt að þetta prinsippmál nái sem fyrst fram að ganga, því fljótlega verða þeir allir uppteknir. Þeir þurfa að fara á ólympíuleikana í Kína og skála við lýðræðislega kjörna leiðtoga landsins.

Gordon Brown taldi það siðferðismál að bresk fyrirtæki ættu ekki viðskipti við fyrirtæki í Zimbabve. David Cameron tók heldur betur undir það í breska þinginu. Ekki þarf að efast um að þeir munu fljótt beina sömu tilmælum til breskra fyrirtækja vegna kínverskra viðskipta. Sjálfir gæta þeir þess, að kaupa ekki vörur sem eru framleiddar í Kína.

Utanríkisráðherrar Norðurlanda sendu frá sér harðorða ályktun um ástandið í Zimbabve og sögðu „ljóst að kosningaferlið brjóti í bága við allar reglur sem gilda um frjálsar og réttlátar kosningar“. Kröfðust ráðherrarnir þess, að þegar yrðu lögð „drög að lögmætri, lýðræðislegri og umbótasinnaðri stjórn“ í landinu.

Að því búnu flaug utanríkisráðherra Íslands til Sýrlands, til fundar með lögmætri, lýðræðissinnaðri og umbótasinnaðri stjórn landsins.

N íutíu og sjö ára er í dag Sigurbjörn Einarsson biskup. Einu sinni sagði hann þetta:

En ef þú hefðir einhvern tíma tóm til þess eða eirð að hugleiða alvarlega spurningu í auðmýkt, þá gætirðu máske hugsað út í þetta: Hvað hefur breyst af því, sem máli skiptir fyrir oss, um innsta eðli vort og stöðu vora í alheiminum, síðan á jarðvistardögum Jesú Krists? Mun ekki mannshjartað vera svipað – í harmi sínum, í gleði sinni, í synd og sælu, í ást og hatri? Mun ekki móðirin hugsa til barnsins síns á svipaðan hátt og þá? Mun ekki elskhuganum vera líkt innanbrjósts? Mun ekki morðinginn og þjófurinn og svíðingurinn og sælkerinn og kúgarinn og hórkarlinn vera áþekkir innvortis? Vér fæðumst ekki í heiminn með neitt hátíðlegri hætti en fáfróðir forfeður gerðu og á banasænginni erum vér mjög í sömu sporum og þeir. Og sólin vekur lífið á sama hátt og þá og blóðið er eins samsett í æðum vorum og í Páli postula og vér horfum á sömu stjörnumerkin og Lúther og lögmál himins og jarðar og himinhvolfs, líkama og sálar eru þau sömu og þegar Kristur var krossfestur. Einstein og Edison, bílar og tannburstar hafa ekki breytt minnstu vitund um þetta, ekki kjarnorkan heldur. Og almáttugur Guð er nákvæmlega eins. Hvorki Alþingi, Sálarrannsóknarfélagið, Háskólinn eða Prestastefnan geta vikið honum til eða því, sem honum hefur þóknast að birta og boða mönnunum, ekki fremur en góufífillinn getur flutt heimskautið úr stað, eða sveigt jörðina til á möndli sínum. Blómið á nákvæmlega sömu úrkosti til lífsins nú eins og þá, og sömu leið í dauðann. Mannssálin líka.