F rá því Vef-Þjóðviljinn hóf göngu sína hefur hann minnt á í einkunnarorðum sínum að einungis einstaklingar hafi vilja – ekki þjóðir. Þetta er þörf áminning og rétt eins og þjóðir hafa ekki vilja, eiga þær ekki eignir og skulda ekki fé. Samt dynja á okkur í sífellu að skuldir þjóðarinnar séu með hinum og þessum hætti.
Á undanförnum árum hafa mörg íslensk fyrirtæki farið geyst í fjárfestingum og eins og gjarnan er um slík fyrirtæki hefur sumum vegnað vel og öðrum verr. Við það er ekkert óeðlilegt, áhætta fylgir von um ávinning og það verður að teljast mjög jákvætt að hér á landi hafi tekist að skapa reglugerðar- og skattaumhverfi sem hindrar fólk ekki í að taka áhættu.
„Þótt þjóðir eigi hvorki eignir né skuldir, geta stjórnmálamenn skuldbundið fólk án samþykkis til þess að ábyrgjast skuldir. Dæmi um það er Landsvirkjun, sem um síðustu áramót skuldaði 220 milljarða króna og Íbúðalánasjóður sem skuldaði 586 milljarða. Það verður að teljast galin hugmynd að það séu rétt viðbrögð við lánsfjárkrísu að auka skuldir þessara fyrirtækja.“ |
Mörg þessara fyrirtækja eru ekki lengur íslensk í öðrum skilningi en að eigendur þeirra, sem jafnvel eru búsettir erlendis, eru með íslenskt vegabréf. Starfsemi fyrirtækjanna er að mestu erlendis og hlutabréf þeirra í erlendum eignarhaldsfélögum. Þetta er allt gott og blessað og jákvætt að eftir að fjármagnsflutningar voru gefnir hér frjálsir í kjölfar EES samningsins geti íslenskir athafnamenn sýslað um heim allan, í stað þess að keppa aðeins um innlendan markað fyrir vídeóleigur eða sólbaðsstofur eins og gjarnan var í fyrri uppsveiflum.
En rétt eins og þegar vel áraði datt engum í hug að Íslendingar sem þjóð ættu tilkall til eigna þessara fyrirtækja þá bera Íslendingar sem þjóð ekki ábyrgð á skuldum þessara fyrirtækja. Enda er stór hluti skulda þessara fyrirtækja við erlenda banka og rétt eins og þeir hafa fengið rentu af þessum skuldum, bera þeir áhættuna af greiðslu þeirra. Sumum þessara fyrirtækja mun vafalaust ganga vel áfram og önnur lenda í vandræðum og eiga það við sína lánadrottna. Það er ekkert áhyggjuefni fyrir venjulega Íslendinga, þótt vitanlega valdi það góðgjörnu fólki óþægindum þegar öðrum vegna illa.
Margir hafa lýst yfir áhyggjum af skuldum íslenskra lánastofnanna. Sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, svo langt sem það hugtak nær, ku þær vera um það bil tífaldar, allt eftir daggengi íslensku krónunnar gagnvart öðrum myntum. Það má í raun furðu sæta að þessi tala sé gefin út af Seðlabankanum enda skýrir hún ekki neitt. Íslenskar fjármálastofnanir hafa keypt erlendar fjármálastofnanir á undangengnum árum, stofnanir sem eru sjálfstæð fyrirtæki í sínum heimalöndum og lúta eftirliti í sínum heimalöndum. Í nýlegu riti Seðlabankans kom fram að eignir íslensku bankanna erlendis væru um 60% af heildarlánum þeirra. Það dettur vitanlega engum í hug að Íslendingar séu á nokkurn hátt ábyrgir fyrir veðum erlendra ríkisborgara í fjármálastofnunum í sínu heimalandi, sem svo vill til að eru í eigu íslenskra fyrirtækja.
Eftir að samdráttur á fasteignamörkuðum heimsins hækkaði verð fjármagns og takmarkaði þar með mjög aðgang að því, hefur gengi íslensku krónunnar lækkað töluvert. Margir hafa sett það í samhengi við skuldir Íslendinga og það er rétt að því marki að eftir því sem aðgangur að lánsfé verður tregari minnkar spurn eftir krónum. Vandinn er þó djúpstæðari en svo. Íslenska krónan, er ekki, hefur aldrei verið og mun að líkum aldrei verða gjaldgengur gjaldmiðill i alþjóðlegum viðskiptum og hefur aldrei verið ætlað það. Þeir sem hafa höndlað með íslenskar krónur hafa gert það til skamms tíma og með það fyrir augum að skipta þeim aftur í gjaldgenga miðla.
Íslenski Seðlabankinn er í þeirri stöðu að hafa aukið verulega peningamagn í umferð, án þess að stærð gjaldeyrisforðans hafi fylgt nægjanlega vel á eftir til að myntin haldi trúverðugleika. Verðbólga er alltaf peningalegt fyrirbæri og verðbólgan á Íslandi í dag er engin undantekning
Þótt þjóðir eigi hvorki eignir né skuldir, geta stjórnmálamenn skuldbundið fólk án samþykkis til þess að ábyrgjast skuldir. Dæmi um það er Landsvirkjun, sem um síðustu áramót skuldaði 220 milljarða króna og Íbúðalánasjóður sem skuldaði 586 milljarða. Það verður að teljast galin hugmynd að það séu rétt viðbrögð við lánsfjárkrísu að auka skuldir þessara fyrirtækja.
Annað sem er athyglisvert er að á sama tíma og íslensk stjórnvöld og Seðlabanki neyða einkafyrirtæki til að nota íslenska krónu sem nýtur ekki trúverðugleika á alþjóðamarkaði, treysta ríkisfyrirtæki sér ekki til að fjármagna sig í íslenskum ríkiskrónum eða gera samninga í þeim. Þannig gerir Landsvirkjun nú upp í dollurum, Vegagerðin er farin að gera verðtryggða verksamninga og Flugstöð Leifs Eiríkssonar varaði við því í vikunni að fyrirtækið mundi tapa verulegum fjárhæðum á erlendum skuldum sínum útaf gengislækkun krónunnar. Seðlabankinn er búinn að verðleggja sig útaf markaðinum með 15,5% vöxtum en hefur þrátt fyrir það ekki lánast að hemja verðbólgu. Það er því ekki nóg með að mörg einkafyrirtæki hafi hafnað krónunni, ríkisfyrirtæki gera það líka.
Stundum er látið að því liggja í fjölmiðlaumfjöllun að það ógni okkur sem sjálfstæðri þjóð ef við hættum útgáfu eigin myntar. Fátt er þó fjær sanni enda eru sjálfstæðar fljótandi þjóðarmyntir án tengingar við til dæmis gull eða aðrar myntir tiltölulega nýlegt fyrirbæri í hagsögu heimsins. Núverandi fyrirkomulag hefur einungis varað frá miðjum áttunda áratug. Fyrir fáum árum var sagt að Afríkumönnum þætti það vera tákn um sjálfstæði að reka sitt eigið flugfélag og er það álíka skynsamleg skoðun og sú að myntslátta ríkis sé forsenda sjálfstæðis. Aðal atriðið er að mynt sé sem nytsömust, keppi við aðrar myntir um hylli notenda og njóti þannig aðhalds.