Laugardagur 28. júní 2008

180. tbl. 12. árg.

Í slenskir áhugamenn um Evrópusambandsaðild eru í talsvert erfiðri stöðu. Þeir vilja gjarnan hagnýta sér ástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar sem allra mest í pólitískum tilgangi en vita eins og aðrir að það er aðeins tímabundið. Þegar efnahagur landsmanna verður aftur kominn í réttan farveg eru allar líkur á því að stemningin fyrir áhugamáli þeirra muni minnka verulega eins og áður hefur gerst við svipaðar aðstæður.

Greinilegrar örvæntingar er farið að gæta í röðum þessara aðila. Þeim hefur ekki tekist að nýta sér aðstæðurnar eins og þeir hefðu helst viljað. Áróður þeirra fyrir inngöngu í ESB er vafalítið að verða að óttalegri síbylju í eyrum margra. Fólk vill lausn á efnahagsvandanum núna en ekki eftir mörg ár eins og lausn ESB-sinnanna hljóðar upp á. Það er að segja ef fólk á annað borð gleypir við þeim innihaldslausa áróðri að í því felist lausn á einhverju að gera Ísland að áhrifalausu jaðarhéraði í miðstýrðu evrópsku ríki.

Til hvaða bragðs grípa þá aðildarsinnar? Jú, aðild að ESB og evrunni á að vera trygging fyrir því að Íslendingar standi aldrei aftur frammi fyrir alvarlegum efnahagsvanda. Sá áróður er að vísu alfarið úr lausu lofti gripinn eins og reynsla ófárra aðildarríkja ESB sem einnig hafa evru sýnir svo um munar. Í framhaldi af þessu hafa aðildarsinnarnir reynt að þrýsta á stjórnvöld að gefa út yfirlýsingu um að stefnt verði að ESB-aðild sem erfitt verði fyrir þau að bakka út úr þegar efnahagsmálin verða komin á réttan kjöl á ný.

Það versta sem íslensk stjórnvöld geta gert við þær aðstæður sem uppi eru í efnahagsmálum þjóðarinnar í dag – eða yfirleitt – er að hlaupa á eftir hrópum og köllum þeirra sem láta stjórnast af örvæntingu og svartsýni svo ekki sé talað um þá sem kynda undir slíku. Versti tíminn til að taka eins afdrífaríka ákvörðun og þá hvort sækjast skuli eftir aðild að ESB er við slíkar aðstæður.