M enn rekast misjafnlega vel í samstarfi. Sumum tekst að finna sameiginlegar hugsjónir og hagsmuni til að berjast fyrir en aðrir geta ekki setið á strák sínum nema skamman tíma þar til þeirra eigið egó brýst fram og heimtar að sitja í fyrirrúmi.
Líklega er ekki við því að búast að stjórnmálaflokkur með jafn endalausa sögu óeiningar og sundrungar og Samfylkingin sé samstarfshæfur til margra ára í senn, hvað þá í heilt kjörtímabil. Til þess á sá lausbeislaði samantíningur sérhagsmuna einfaldlega of fáar sameiginlegar hugsjónir til að berjast fyrir, nema þá helsta að losa Ísland við það sem eftir lifir enn af sjálfstæði þess frá Evrópusambandinu. Því þarf enginn að láta sér koma á óvart þegar einn af þingmönnum þess – stjórnarþingmaður – lætur út úr sér að ástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar nú sé „bein afleiðing þess ójafnvægis sem hefur verið meginboðorð í efnahagsstefnunni undanfarinn áratug.“
„Sam-“ Fylkingarinnar stendur augljóslega ekki fyrir samstarf. Reyndar var umræddur þingmaður stoltur oddviti annarrar Fylkingar, Æskulýðsfylkingar Alþýðubandalagsins. Allt þar til Alþýðuflokkurinn bauð betur með þægilegum stól í utanríkisráðuneytinu. Lýsandi og reyndar dæmigert fyrir framvarðasveit þessa „flokks“.
Eftir síðustu kosningar stóð fulltrúi flestra landsmanna, Sjálfstæðisflokkurinn, frammi fyrir tveimur slæmum kostum: Reiða sig á tæpasta mögulega þingmeirihluta fyrir áframhaldandi samstarfi við Framsóknarflokkinn eða taka Samfylkinguna á orðinu með að hægt sé að starfa með henni í ríkisstjórn. Seinni kosturinn varð fyrir valinu, enda virtist ólíklegt að Samfylkingin myndi hlaupa jafn hressilega út undan sér á jafn skömmum tíma og raun varð á.
Nú, eftir heilt ár í stjórnarsamstarfi þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur kostað öllu til svo að lækna mætti kenjarnar í samstarfsflokknum, er að koma á daginn að líklega hefði verið sterkara bein í nefinu á einum Framsóknarmanni en öllum þingflokki Samfylkingarinnar.