Þ að er ef til vill ekki jafnauðvelt að para saman glæpum og refsingum og flestir skyldu ætla. Auga fyrir auga, tönn fyrir tönn er lögmál, sem er víðast hvar misskilið. Það var aldrei ætlast til þess að plokka augað úr þeim, sem hafði gerst sekur um að gera eitthvað þvíumlíkt við samborgara sinn. Nei, lögfræðingar gyðinga til forna töldu það einmitt engu skila, að laga óréttlæti með meira óréttlæti. Þetta fornfræga lögmál gekk út á skaðabætur. Ef einhver skaddaði annan mann á auga, skyldi hann bæta viðkomandi skaðann. Hins vegar væri tilgangslaust að skaða auga brotamannsins; það yki óréttlætið og kæmi upprunalega fórnarlambinu ekki til gagns að neinu leyti. Þessi skaðabótakrafa fórnarlambsins á hins vegar ekki við í morðmálum, enda fórnarlambið of dautt til að njóta skaðabótanna.
Í gegnum söguna hafa svo komið upp mýmörg dæmi, þar sem glæpir og refsing virðast í litlum tengslum hvort við annað, sér í lagi þar sem löggjafinn taldi þörf á að banna, að settum viðurlögum, viðskipti sem voru honum ekki að skapi. Sem dæmi má nefna áfengisbannið á sínum tíma. Sú saga endurtekur sig nú á tímum, nema hvað aðrir vímugjafar hafa tekið við hlutverki áfengisins.
„Með því að flytja framleiðslu, dreifingu, sölu og neyslu fíkniefna inn fyrir ramma laganna, mun það ekki útrýma þeim félagslegu vandamálum sem fylgja efnunum – ekki fremur en lögleyfing áfengis útrýmdi áfengisbölinu. Aukaverkanir fíkniefnabannsins, eins og áfengisbannsins á síðustu öld, myndu hins vegar hverfa.“ |
Í fyrradag var bent á að refsingar við fíkniefnabrotum eru orðnar mjög harðar, þó svo öllum megi vera ljóst að það eitt og sér hefur engin áhrif á framboð og eftirspurn eftir hinum forboðnu ávöxtum, hvaða nafni sem þeir nú nefnast. Hvers vegna er þá verið að þessu? Sennilega er það vegna þess, að stjórnmálamenn vita að það gerir þá ekki óvinsælli að lofa að taka til hendinni í fíkniefnamálum – en þegar á hólminn er komið er afar lítið hægt að gera, annað en að láta refsigleðina fá lausan tauminn. En það er ekki án afleiðinga.
Til dæmis býður það upp á aukna hörku á fíkniefnamarkaðinum sem og í samskiptum löggæslunnar við þann markað. Ef stillt er upp tvenns konar aðstæðum, þar sem fíkniefnasali er á flótta undan laganna vörðum í báðum tilvikum. Í öðru þeirra sér hann fram á fangelsisvist í nokkra mánuði ef hann verður handsamaður, en í hinu má hann eiga von á því að eyða mörgum árum bakvið lás og slá. Í hvoru tilfellinu er líklegra að fíkniefnasalinn beiti meiri hörku til að komast undan? Og hvað má segja um árangurinn af handtökunni? Öllum aðilum málsins er ljóst, að þó svo megnið af fíkniefnasölum landsins væru handteknir í dag og stungið inn, þá væri búið að fylla skörð þeirra strax næstu helgi. Finnst löggjafanum það eðlilegt, að löggæslan starfi við aðstæður sem verða hættulegri eftir því sem refsigleðin eykst, ef framboð, dreifing og sala fíkniefna breytist nær ekkert þrátt fyrir harðari refsingar? Víða erlendis hafa harðar refsingar verið reyndar sem stríðstól í baráttunni við fíkniefnin, og reynst nákvæmlega jafntilgangslaus þar og hér.
Eftir því sem reynt er að leysa vandann með sífellt fjarstæðukenndari viðurlögum, þá verða önnur viðurlög fáránleg í samburði. Nauðganir, barsmíðar og aðrir viðlíka glæpir verða eins og hver önnur smámál við hliðina á fíkniefnamálum. Samt hefur ekkert breytt þeirri staðreynd að nauðganir, barsmíðar og annað í þeirri kategoríu eru með viðurstyggilegustu afbrotum. Það hlýtur að vera alvarlegra mál að nauðga og berja en að afhenda vímugjafa gegn greiðslu til einhvers, sem sérstaklega sækist eftir því að kaupa þennan vímugjafa.
Í örfáum tilvikum hafa sum stjórnvöld erlendis ákveðið að horfa á þetta fyrst og síðast sem heilbrigðisvandamál, en ekki sem heilagt stríð gegn fíkniefnum. Á meðan eftirspurn er eftir fíkniefnum munu yfirvöld aldrei vinna sigur í því stríði. Og það verður alltaf eftirspurn – það hefur enginn gerst svo galinn enn þá, að halda öðru fram. Í millitíðinni stórefnast fíkniefnasalar á banninu og ofsahagnaðurinn sem fíkniefnin skila spilla réttarkerfum víða um heim, líkt og gerðist þegar áfengið var bannvara. Fíkniefnasalarnir myndu alls ekki vilja lögleyfa fíkniefnin; án bannsins væri ofsahagnaðurinn fyrir bí. Þeim hlýtur að líða vel með að sjá að langflestir stjórnmálamenn hyggjast mun frekar styrkja stoðir þessa banns, í stað þess að afnema það.
Með því að flytja framleiðslu, dreifingu, sölu og neyslu fíkniefna inn fyrir ramma laganna, mun það ekki útrýma þeim félagslegu vandamálum sem fylgja efnunum – ekki fremur en lögleyfing áfengis útrýmdi áfengisbölinu. Aukaverkanir fíkniefnabannsins, eins og áfengisbannsins á síðustu öld, myndu hins vegar hverfa. Þessar aukaverkanir felast meðan annars í ofbeldisverkum, þjófnuðum, dauðsföllum vegna lélegra gæða fíkniefna, auknu alnæmissmiti sökum hefts aðgangs að sprautunálum, mútumálum gagnvart lögreglu, dómurum og vitnum eða hótunum í garð lögreglu, dómara og vitna, svo fátt eitt sé nefnt. Það verður enginn missir að þessu nú frekar en þegar áfengisbannið var loks lagt af.